Freyja Sesseljudóttir, Skipulagsstjóri leikmyndar í “Lof mér að falla”
Það hefur ekki farið framhjá neinum að myndin “Lof mér að falla” hefur hlotið feikna athygli og umræðu að undanförnu, þegar þetta er ritað hafa yfir 40 þúsund manns séð myndina. Það er samstarf margra sem gerir þessa mynd að raunveruleika og koma þar við sögu þó nokkrir fyrrum nemendur Kvikmyndaskólans. Fannst okkur því tilvalið að fá að forvitnast eilítið um þeirra hlutverk bak við tjöldin.
Freyja Sesseljudóttir útskrifaðist frá Tæknibraut Kvikmyndaskólans árið 2011 og hefur unnið síðan í leikmyndagerð.
Ég áttaði mig mjög snemma í náminu á því að ég vildi setja fókusinn á leikmynd og leikmuni og var fengin af mörgum samnemendum mínum til að gera leikmynd fyrir þeirra útskriftarverkefni.Fyrstu árin eftir útskrift var ég mest að vinna á settinu sem “standby propsari” í íslenskum verkefnum, auglýsingum og sjónvarpsþáttum, sem dæmi “Hæ Gosi”, “Pressa”, “Hraunið” og fleira. Svo var ég “props master” í “Ófærð 1“.Síðustu árin hef ég unnið sem Skipulagsstjóri leikmyndar, það er skipulagsvinna þar sem ég þarf að byrja á því að grúa mig alveg niður í handritið og brjóta það niður, passa upp á að allt sé tilbúið fyrir tökurnar, allir leikmunir séu til staðar og búið að vinna þá, (persónugera eftir hlutverkum, sósa og svo framvegis), öll grafík sé tilbúin, öll farartæki sem koma fyrir í mynd séu tilbúin og full unnin og þar fram eftir götunum. Það má segja að ég sé einhverskonar miðstöð í leikmyndadeildinni, ég á að vita allt sem er í gangi og ef einhverjar spurningar vakna hjá öðrum í deildinni þá verð ég alltaf að vita svörin. Ég sé líka um að gera fjárhagsáætlun með leikmyndahönnuði og passa upp á að hún haldist út í gegnum verkefnið.
“Lof mér að falla” var mjög sérstakt verkefni, ég er mjög stolt af því að hafa fengið að vera partur af því að gera þessa mynd, þessi saga er svo mikilvæg og á erindi til allra. Handritið hitti mig í hjartastað, þetta var oft erfitt af þvi að maður þarf að lifa sig inn í söguna og setja sig í spor persónanna til að gera heiminn þeirra raunverulegan í augum áhorfendans.Ég vann mest með leikmuna meistaranum og grafíska hönnuðinum í “Lof mér að falla”. Með leikmuna meistaranum sá ég um að rannsaka, kaupa inn vörur og finna lausnir á allskonar vandamálum sem koma alltaf upp við kvikmyndagerð. Leikmunir eru svo mikilvægir, áhorfandinn sér alltaf ef það er eitthvað athugavert við leikmunina, en ef það er gott og vel gert þá tekur áhorfandinn ekki eftir neinu. Þetta er ekki bara að labba út í búð og kaupa inn, þetta verður að vera trúverðugt og það getur tekið tíma að finna út hvað er best að nota í hvert atriði fyrir sig. Allt þetta “dóp” verður að vera öruggt til inntöku fyrir leikarana en samt sem áður að líta út eins og það sé alvöru svo ég nefni dæmi.Svo verður líka að vinna leikmunina, þ.e.a.s. “sósa” þá svo þeir séu ekki nýjir, og þarna vorum við að vinna með nokkur tímabil þannig að við vorum með nokkra leikmuni í tví-þríriti, mismunandi sjúskaða en voru samt allir að leika sama hlutinn, bara á mismunandi tímabilum í myndinni.Með grafíska hönnuðinum passaði ég upp á að öll grafík væri rétt (allar myndir og prent, merkingar, skilti og þess háttar), fór yfir grafíkina þegar hún var tilbúin og hjálpaði til við uppsetningu. Svo þegar grafík er samþykkt af leikstjóra og leikmyndahönnuðum þá sendi ég í prent og passaði upp á að allt væri tilbúið á réttum tíma.“Lof mér að falla” var mjög sérstakt verkefni fyrir mig persónulega, ég lærði margt, öðlaðist reynslu sem ég mun nota í öðrum verkefnum og í lífinu almennt.