Vigfús Þormar Gunnarsson, Casting Director í “Lof mér að falla”
Eins og áður hefur komið fram, er kvikmyndin “Lof mér að falla” að fá feikimikla athygli bæði innanlands og utan, enda verulega vönduð kvikmynd hér á ferð sem við mælum óhikað með. Meðal starfsfólks við myndina eru ófáir útskrifaðir nemendur Kvikmyndaskólans, þar á meðal Vigfús Þormar Gunnarsson, sem útskrifaðist frá Leiklist.
Vigfús hefur tekið þátt í mörgum stórum verkefnum frá útskrift, þar á meðal “Hrútar” og “Ég man þig”. Við höfðum samband við Vigfús til að fá að vita hvernig upplifun var að vinna við kvikmyndina “Lof mér að falla”
Maður lærir alltaf eitthvað með hverju verkefni sem maður vinnur að en “Lof mér að falla” var eins og að fara í háskóla. Fyrir það fyrsta er Baldvin Z algjörlega frábær gaur til að vinna með og ég er ótrúlega heppinn að fá að taka þátt í hans verkefnum. Lof mér að falla var í raun svona frekar flókið casting verkefni en við nálguðumst það af nákvæmni og gáfum okkur góðan tíma í allt ferlið og þar vil ég gefa framleiðendum hrós fyrir að leyfa okkur vinna það þannig. Ég gæti ekki verið sáttari með hvern einn og einasta leikara sem birtist í myndinni, þeir voru allir frábærir og ég vil þakka þeim kærlega fyrir þeirra vinnu. Ég hugsa þetta allt náttúrulega út frá því að velja réttu leikarana í réttu hlutverkin og ég er gríðarlega ánægður með hvernig það fór, en ég verð líka að hrósa búningahönnuði og gervahönnuði fyrir sín mögnuðu störf því það eru alveg sértaklega þær tvær deildir sem að hjálpa mér í að láta fjölmörg atriði ganga upp hvað varðar casting. Svo er Baldvin sem leikstjóri náttúrlega eitthvað “freak of nature” þegar kemur að leikaravinnu og það small bara einhvern veginn allt hjá öllum deildum.Ég var einnig svo heppin að fá að taka þátt á setti sem annar aðstoðarleikstjóri með vini mínum Hálfdáni Theodórssyni aðstoðarleikstjóra og fylgdi því verkefninu í frekar langan tíma. Þegar ég hugsa til baka um upplifun mína af því að vinna við Lof mér að falla er mér sennilega efst í huga þakklæti fyrir að fá að starfa með öllu þessu frábæra og hæfileikaríka fólki sem vann með mér við gerð myndarinnar.
Við munum að sjálfsögðu fylgjast spennt með verkefnum Vigfúsar í framtíðinni