Kennarar & leiðbeinendur

Hjá Kvikmyndaskóla Íslands vinnum við með kennurum og leiðbeinendum sem starfa við kvikmyndaiðnaðinn.

Þetta er stór hópur fagfólks sem kemur að náminu á hverju misseri og tekur virkan þátt í að móta leikstjóra, framleiðendur, tæknifólk, handritshöfunda og leikara framtíðarinnar. Margir eru fastagestir en stundum kalla verkefnin út í hinum stóra heimi. Hér er listi yfir þá sem hafa komið að kennslu með einum eða öðrum hætti á síðustu árum.

Kennarar

Kennarar Kvikmyndaskóla Íslands

Arnar Benjamín Kristjánsson

Arnar Benjamín Kristjánsson

Arnar Benjamín Kristjánsson útskrifaðist frá leikstjórn/framleiðslu deild Kvikmyndaskóla Íslands árið 2012 og hefur síðan þá starfað við kvikmyndagerð. Hann er einnig með MA gráðu frá Met Film School í London og MMM gráðu í Markaðsfræðum frá Háskólanum á Bifröst. Arnar hefur framleitt yfir 40 verkefni, stuttmyndir, heimildamyndir og myndir í fullri lengd sem framleiðandi, meðframleiðandi eða executive framleiðandi. Arnar framleiddi meðal annars kvikmyndina Villibráð sem sló í gegn árið 2023 og meðframleiddi sjónvarpsþættina Afturelding sem sýndir voru á RÚV og hafa verið seldir til sýninga um allan heim. Arnar starfaði sem framleiðandi og framkvæmdastjóri Zik Zak kvikmynda árin 2018 til 2021 og sem framleiðandi þar árin 2021 til 2023. Síðan 2023 hefur Arnar starfað sem framleiðandi hjá Sagafilm.

Álfrún Örnólfsdóttir

Álfrún Örnólfsdóttir

Álfrún Örnólfsdóttir er leikstjóri, handritshöfundur og leikkona. Heimildarmyndin BAND, frumraun hennar sem kvikmyndaleikstjóri, var frumsýnd á HotDocs 2022 og var tilnefnd til fjölda verðlauna á erlendum hátíðum. Myndin vakti athygli fyrir frumlega nálgun og að leika sér með kvikmyndaformið. Álfrún vinnur einnig í leikhúsi og hefur leikstýrt stórum sýningum í Borgarleikhúsinu m.a söngleiknum Eitruð lítil pilla og gamanleiknum Bara smástund! Þegar hún er ekki að leikstýra eða leika kemur hún fram með hljómsveitinni The Post Performance Blues Band og skrifar handrit. Áætlað er að næsta mynd hennar í fullri lengd, Kúluskítur, fari í tökur á næsta ári.

Birgir Páll Auðunsson

Birgir Páll Auðunsson er reyndur kvikmyndagerðarmaður með yfir 25 ára reynslu sem klippari, leikstjóri, kvikmyndatökumaður og eftirvinnslusérfræðingur. Hann hefur unnið að fjölbreyttum verkefnum fyrir sjónvarp, kvikmyndir, heimildamyndir og vefmiðla, m.a. fyrir RÚV, LazyTown, Sagafilm og fjölda íslenskra fyrirtækja. Birgir er menntaður frá Listaháskóla Íslands, European Film College og Kvikmyndaskóla Íslands og hefur einnig stundað nám við FAMU í Prag. Hann hefur sinnt fjölmörgum skapandi hlutverkum í kvikmyndagerð allt frá hugmyndavinnu til litaleiðréttingar og býr yfir víðtækri tæknikunnáttu í framleiðslu og eftirvinnslu.

Eggert Gunnarsson

Eggert Gunnarsson

Eggert Gunnarsson er leikstjóri og fjölmiðlamaður með áralanga reynslu af sjónvarps- og heimildamyndagerð bæði á Íslandi og erlendis. Hann stundaði nám við The University of Westminster og Kent Institute of Art and Design í Bretlandi og vann síðar hjá BBC, ITV og fleiri stöðvum. Eggert starfaði lengi hjá RÚV, þar sem hann leikstýrði fjölda barna- og fræðsluþátta, m.a. Stundinni okkar og Ævar vísindamaður, sem hlutu Edduverðlaun. Hann hefur einnig gegnt stöðu sjónvarpsstjóra í Papúa Nýju-Gíneu og unnið að fjölbreyttum verkefnum tengdum fréttum, heimildamyndum og skáldskap. Hann starfar nú að nýjum heimildaverkefnum á Íslandi.

Einar Egils

Einar Egils

Einar Egils er leikstjóri og handritshöfundur. Hann bjó í tíu ár í Los Angeles þar sem hann hóf feril sinn í kvikmyndagerð og þróaði sinn sérkennandi stíl. Síðan þá hefur hann leikstýrt fjölmörgum tónlistarmyndböndum og auglýsingaherferðum fyrir alþjóðlega listamenn og fyrirtæki, þar á meðal John Legend, Miley Cyrus, Ásgeir Trausta, Flóna, H&M og plötufyrirtæki á borð við Universal Music og Warner Music. Verk hans hafa hlotið alþjóðlega viðurkenningu og tilnefningar, meðal annars til MTV Music Video Awards, Íslensku tónlistarverðlaunanna, ÍMARK og Vimeo Staff Pick. Á síðustu árum hefur Einar skipað sér í fremstu röð auglýsingaleikstjóra á Íslandi og leikstýrt mörgum af eftirtektarverðustu sjónvarpsauglýsingaherferðum landsins. Hann vinnur nú að handritum að tveimur sjónvarpsþáttum og kvikmynd í fullri lengd í samstarfi við meðhöfund sinn Elías Kofoed-Hansen. Fyrsta heimildarþáttaröðin sem hann leikstýrði, Tilbrigði við fegurð, var frumsýnd á Stöð 2 vorið 2025.

Gagga Jónsdóttir

Gagga Jónsdóttir

Gagga Jónsdóttir er höfundur, leikstjóri og framleiðandi. Hún hefur unnið við
íslenska og erlenda kvikmyndagerð í meira en tuttugu ár; sem
aðstoðarleikstjóri, framleiðslustjóri, framleiðandi, skrifta, tökustaðastjóri og
séð um leikaraval svo eitthvað sé nefnt.
Gagga skrifaði og leikstýrði gamanmyndinni Saumaklúbbnum (2021). Hún
hefur einnig leikstýrt sjónvarpsþáttum, m.a Aftureldingu (2023) og
Borgarstjóranum (2016) auk heimildaþáttaraða. Hennar fyrsta heimildamynd í
fullri lengd - Strengur var frumsýnd 2025 og hlaut tvenn verðlaun á Brooklyn
International Film festival. Gagga hefur hlotið Edduverðlaun fyrir besta
handrit fyrir kvikmyndina Agnes Joy.

Hildur Selma Sigbertsdóttir

Hildur Selma Sigbertsdóttir

Hildur Selma Sigbertsdóttir er sjálfstætt starfandi höfundur og kennaranemi með brennandi áhuga á menningu, listum og sköpun með börnum og ungu fólki. Hún lauk BA-prófi í sviðshöfundafræði frá Listaháskóla Íslands árið 2018 og MA-gráðu í ritlist frá Háskóla Íslands árið 2023. Hildur mun ljúka viðbótardiplómu í listgreinakennslu frá LHÍ árið 2025. Hún er einn höfunda sjónvarpsþáttaraðarinnar Far, sem hefur hlotið handritsstyrki frá Kvikmyndamiðstöð Íslands.

Jón Már

Jón Már

Jón Már hefur starfað við tæknibrellur og eftirvinnslu í kvikmyndaiðnaðinum í um 15 ár og rekið sitt eigið eftirvinnslufyrirtæki síðan 2019.

Hann hefur unnið að tugum kvikmynda og þátta, bæði íslenskum og erlendum, hefur haldið utan um samvinnu erlendra eftirvinnslufyrirtækja við íslenska framleiðendur, stýrt tökum á brelluverkum og leitt VFX teymi í margs konar verkefnum.

Hann hefur tileinkað sér útsjónasemi og sköpunargáfu sem hentar íslenskri kvikmyndagerð og hlotið 5 Eddu tilnefningar fyrir verk sín.

Kevin McCormack

Kevin McCormack

Kevin McCormack er handritshöfundur og leikstjóri sem vinnur nú að eftirvinnslu fyrstu kvikmyndar sinnar, Nekudim. Hann kennir handritagerð við Kvikmyndaskóla Íslands og námskeið í AI filmmaking við Listaháskóla Íslands. Alþjóðlegur bakgrunnur hans spannar Jamaíku, New York, Rúanda og Ísland, sem mótar einstakan frásagnarstíl hans.

Kjartan Kjartansson

Kjartan Kjartansson

Kjartan Kjartansson er hljóðhönnuður með menntun frá Den Danske Filmskole. Hann hefur unnið að fjölda íslenskra og alþjóðlegra kvikmynda, sjónvarpssería og heimildamynda sem og í tónlistarbransanum við hljóðritun og hljóðblöndun. Kjartan hefur kennt við Kvikmyndaskóla Íslands frá stofnun og einnig við LHÍ og Tækniskólann. Hann er virkur fyrirlesari og vel metinn kennari á sviði hljóðlistar og kvikmyndagerðar.

Kristófer Dignus

Kristófer Dignus

Kristófer Dignus er reynslumikill handritshöfundur og leikstjóri, þekktur fyrir frumlegan myndrænan stíl og grípandi sögur. Hann hefur brennandi áhuga á karakterdrifinni kómedíu með dash af drama og leitast við að skapa sjónvarpsþætti sem áhorfendur geta tengt við á tilfinningalegan máta. Fyrri verk hans á borð við "Fólkið í blokkinni", "Jarðarförin mín (trílógían)", "Áramótaskaup", "Kennarastofan" ofl. hafa hlotið lof gagnrýnenda og verið tilnefnd (og unnið) til Edduverðlauna.

MARKELSBRÆÐUR - Þorkell Harðarson og Örn Marinó Arnarson

MARKELSBRÆÐUR

Þorkell Harðarson og Örn Marinó Arnarson hafa starfað við kvikmyndagerð síðan á síðustu öld. Fyrst á gólfinu fyrir aðra en stofnuðu til eigin rekstrar í kringum 2000. Þeir félagar ganga undir nafninu Markelsbræður. Fyrstu verkin voru heimilda- og stuttmyndir sem ferðuðust um allan heim. Árið 2019 færðu þeir sig yfir í leiknar gamanmyndir í fullri lengd og hafa frumsýnt sex myndir í fullri lengd í bíó og fengið yfir 130 þúsund manns til að mæta. Á síðustu fimm árum hafa Markelsbræður selt einn miða af hverjum þremur á íslenskar kvikmyndir í bíó.

Marteinn Steinar Þórsson

Marteinn Steinar Þórsson

Marteinn Steinar Þórsson er kvikmyndaleikstjóri og framleiðandi með áratuga reynslu í kvikmyndum og sjónvarpi. Hann útskrifaðist með BAA gráðu í kvikmyndagerð frá Ryerson University í Toronto og hefur m.a. unnið hjá RÚV, City-TV og Astral Media. Fyrsta kvikmynd hans, 1.0, var valin í aðalkeppni Sundance og vakti alþjóðlega athygli. Hann hefur síðan leikstýrt kvikmyndunum Rokland, XL og Þorpið í bakgarðinum, auk þess sem hann hefur hlotið Edduverðlaun og önnur alþjóðleg heiðursverðlaun. Marteinn sinnir nú meistaranámi í listkennslu við LHÍ og vinnur að sinni fimmtu kvikmynd.

Ólafur S.K. Þorvaldz

Ólafur S.K. Þorvaldz

Ólafur S.K. Þorvaldz útskrifaðist frá leiklistarbraut Arts Educational Schools of London árið 2003. Eftir útskrift vann hann nokkur verk á Bretlandseyjum áður en hann snéri heim og starfaði fyrsta leikárið hjá Borgarleikhúsinu. Ólafur starfaði svo hjá sjálfstæðu leikhúsunum við leik, leikstjórn og handritsgerð þar til hann tók við sem yfirhandritshöfundur hjá Latabæ. Hann skrifaði og hafði yfirsýn með handritum í seríu 3 og 4, ásamt því að fylgja eftir framleiðslunni og hafa yfirumsjón með handritavinnslu í klippi og eftirvinnslu. Árin 2014-2017 starfaði Ólafur hjá RVK Studios við Ófærð, Eiðinn, Borgarstjórann og Ófærð 2. Í dag rekur Ólafur brugghús, ásamt því að kenna handritaskrif hjá Kvikmyndaskólanum.

Óskar Þór Axelsson

Óskar Þór Axelsson

Óskar Þór Axelsson er leikstjóri og handritshöfundur með MFA gráðu í kvikmyndagerð frá New York University og BA í almennum bókmenntum frá Háskóla Íslands. Hann vakti athygli með kvikmyndinni Svartur á leik (2012) og hefur síðan leikstýrt vinsælum og verðlaunuðum kvikmynda- og sjónvarpsverkefnum á borð við Ég man þig, Stella Blómkvist, Ófærð og Napóleonsskjölin. Verk Óskars hafa hlotið alþjóðlega dreifingu og viðurkenningar, m.a. á Sundance, í Berlín og í Edduverðlaununum. Hann vinnur nú að sjónvarpsseríunum Bless bless Blesi og Vanished sem framleiddar eru í samstarfi við norrænar og evrópskar sjónvarpsstöðvar.

Reynir Lyngdal

Reynir Lyngdal

 Reynir Lyngdal er íslenskur kvikmyndaleikstjóri og handritshöfundur. Hann hefur leikstýrt bæði kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, þar á meðal Okkar eigin Osló (2010) og 112 Reykjavík (2025) ásamt SKVÍZ (2024) Hamarinn og Hraunið (2013-14 Netflix). Reynir hefur líka leikstýrt og skrifað fjögur Áramótaskaup. Verk hans einkennast af kraftmiklum sjónrænum stíl, beittum satírískum undirtónum og næmni fyrir mannlegum tilfinningum.

Stefanía “Steffí” Thors

Stefanía “Steffí” Thors

Stefanía er menntuð leikkona frá listaháskólanum DAMU í Prag, Tékklandi. Hún útskrifaðist með meistarapróf í leikhúsfræðum árið 2001 og er ein af stofnendum leikhópsins Secondhand Women. Hún bjó í Prag frá árunum 1996 til 2009 og starfaði í leikhúsi og sem aðstoðarklippari. Hún er skapandi og reynslumikill kvikmyndaklippari og hefur unnið við fjölbreytt verkefni í leiknum kvikmyndum, heimildamyndum og sjónvarpsþáttum.

Valgerður Rúnarsdóttir

Valgerður Rúnarsdóttir

Valgerður Rúnarsdóttir hefur starfað sem dansari, danshöfundur og listrænn stjórnandi í yfir 25 ár. Hún lauk BA í samtímadansi frá Listaháskólanum í Osló, meistaranámi í sviðslistum við LHÍ og MPM í verkefnastjórnun frá HR. Valgerður var um árabil dansari hjá Íslenska dansflokknum og ferðaðist síðar víða um heim með verkum Sidi Larbi Cherkaoui, auk samstarfs við Ernu Ómarsdóttur og marga aðra listamenn. Hún hefur skapað fjölda eigin verka og unnið sem danshöfundur í leikhúsi, kvikmyndum og auglýsingum. Verk hennar hafa hlotið tilnefningar og tvisvar hefur hún fengið Grímuverðlaun sem danshöfundur ársins. Hún hefur einnig leitt fjölbreytt verkefni sem framleiðandi og listrænn stjórnandi.

Þorbjörg Jónsdóttir

Þorbjörg Jónsdóttir

Þorbjörg Jónsdóttir er starfandi myndlistarmaður og kvikmyndagerðarmaður. Hún útskrifaðist með MFA gráðu í tilraunakenndri kvikmyndagerð frá CalArts og BA gráðu í myndlist frá LHÍ. Hún vinnur mest með tilraunakvikmynda-og vídjómiðilinn, í 16mm kvikmyndaverkum, video innsetningum og ljósmyndaverkum. Umfjöllunarefni verka hennar snúa meðal annars að etnógrafíu, landslagi og abstract formalisma í kvikmyndun, þar sem aðrar víddir og yfirnáttúruleg svið eru könnuð. Verk Þorbjargar hafa verið sýnd víða, bæði á kvikmyndahátíðum og í galleríum í Evrópu, Asíu og Bandaríkjunum, meðal annars á Listasafni Reykjavíkur, kvikmyndahátíðinni CPH:DOX, SEQUENCES, FID Marseille og á LACMA safninu í Los Angeles.  Kvikmyndaverk hennar KONNI (í samstarfi við Lee Lynch) var tilnefnt til Eddunnar í flokki stuttra heimildamynda árið 2024. Þorbjörg hefur kennt myndlist og kvikmyndagerð við California Institute of the Arts, Listaháskóla Íslands, Myndlistarskólann í Reykjavík og víðar. Einnig er hún stofnandi listaskólans Teenage Wasteland of the Arts ásamt eiginmanni sínum Lee Lynch, en þau hafa haldið fjölda námskeiða í kvikmyndagerð og myndlist, bæði í Kaliforníu og á Íslandi.