Handrit & leikstjórn Deild 3

Tveggja ára diplómanám í leikstjórn og gerð handrita fyrir kvikmyndir.

Viltu skrifa framtíðina?

Tveggja ára diplómanám þar sem nemendur læra að færa hugmyndir sínar í handrit og leikstýra alla leið á hvíta tjaldið.

Nemendur skrifa handrit að ýmsum tegundum kvikmynda sem þeir leikstýra síðan og fullvinna. Auk þess skrifa þeir handrit að bíómynd í fullri lengd. Deildin hefur notið mikilla vinsælda og fjölmargir öflugir kvikmyndagerðarmenn hafa útskrifast frá henni.

Ef þú ert með brennandi áhuga á skapandi, verklegu námi í kvikmyndagerð þá erum við að leita að þér.

Af hverju Handrit & leikstjórn?

  1. Kvikmyndaskóli Íslands er verklegur skóli þar sem nemendur skrifa, framleiða, leika, klippa, vinna og leikstýra sínum eigin myndum á meðan á náminu stendur. Allt skólahald snýst um kvikmyndagerð frá fyrstu mínútu til útskriftar.

  2. Inntaka í skólann er á haustönn á hverju ári.

  3. Aldrei eru teknir fleiri en 15 nýnemar í bekk. Séu bekkir fullir er hægt að skrá sig á biðlista.

  4. Allir helstu kvikmyndagerðarmenn landsins kenna eða hafa kennt við skólann. Flestir þeirra eru með háskólapróf og menntun erlendis frá. Nemendum eru tryggð tengsl við reynslumikið fólk úr iðnaðinum.

  5. Kvikmyndaskóli Íslands er einkaskóli sem starfar með viðurkenningu Mennta- og barnamálaráðuneytisins.

  6. Tveggja ára diplómanám þar sem nemendur læra að færa hugmyndir sínar í handrit og leikstýra alla leið á hvíta tjaldið.

    Nemendur skrifa handrit að ýmsum tegundum kvikmynda sem þeir leikstýra síðan og fullvinna. Auk þess skrifa þeir handrit að bíómynd í fullri lengd. Deildin hefur notið mikilla vinsælda og fjölmargir öflugir kvikmyndagerðarmenn hafa útskrifast frá henni.

  7. Kvikmyndanám opnar ótal atvinnutækifæri að útskrift lokinni. Þessi menntun er eftirsótt hjá fyrirtækjum í framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis. Auk þess kjósa sumir að vinna sjálfstætt eftir útskrift og skapa eigin verkefni á eigin forsendum.

  8. Ef þú hefur listræna sýn og metnað til að segja þínar eigin sögur þá ættir þú að leggja stund á Handrit og Leikstjórn við Kvikmyndaskóla Íslands.

  9. Kvikmyndaiðnaðurinn er í örum vexti. Nýjungar í myndmiðlun og sjónvarpi kalla á fagleg vinnubrögð og sérþekkingu. Með slíka menntun gefast þér fjölmörg tækifæri til að láta ljós þitt skína.

  10. Það má læra kvikmyndagerð á ýmsa vegu en tveggja ára nám við KVÍ er fljótlegasta leiðin sem þú finnur til að ná tökum á faginu, finna þína styrkleika og byggja um leið upp öflugt tengslanet til framtíðar.

  11. Eftir áratugi af bóknámi áttu skilið að komast í nám sem hjálpar þér að koma þínum eigin hugmyndum í framkvæmd.

  12. Kvikmyndaskóli Íslands býður í dag heimsins besta grunnnám á sínu sérsviði; að taka við byrjendum í faginu, mennta í tvö ár og útskrifa sem fagfólk.

Hæfniviðmið Deildar 3

  1. Þekking

    1. Þekking og skilningur

    Nemandi öðlist:

    1.1  Þekkingu á vinnsluferli handritagerðar á leiknum bíómyndum í fullri lengd.

    1.2  Þekkingu á ýmsum tegundum handritaskrifa fyrir ólíka miðla.

    1.3  Verklega, fræðilega, tæknilega og faglega þekkingu á starfssviði leikstjórans.

    1.4  Þekkingu á gerð margvíslegra kvikmyndaverkefna með áherslu á leiknar stuttmyndir.

    1.5  Þekkingu á starfssviði framleiðenda í kvikmyndum.

    1.6  Þekkingu á skipulagi í handritaskrifum.

    1.7 Þekkingu á eðli og gerð myndmálsins.

    Leikni
    2. Nemandi öðlist hagnýta færni og leikni í að:

    2.1  Skrifa handrit að bíómynd í fullri lengd.

    2.2  Skrifa ýmsar tegundir af handritum.

    2.3  Stýra leikurum og öðru samstarfsfólki á persónulegan og faglegan hátt.

    2.4  Vera leikstjóri og stjórnandi í leiknum kvikmyndum af ýmsu tagi.

    2.5  Skilja framleiðsluferla kvikmynda og helstu samninga.

    2.6  Meta og greina verkefnastöðu og skipuleggja sig.

    2.7  Miðla sögu og dramatík á sjónrænan hátt.

    Hæfni
    3. Nemandi öðlist hæfni til að:

    3.1  Vinna að stórum handritsverkefnum eins og handriti að kvikmynd í fullri lengd.

    3.2  Starfa sem skapandi handritshöfundur í fjölbreyttum tegundum verkefna.

    3.3  Vinna sem leikstjóri með persónulegan stíl, sem á grundvelli þekkingar og leikni nær því besta út úr leikurum og öðru samstarfsfólki.

    3.4  Vinna sem skapandi kvikmyndagerðarmaður og stjórnandi í ólíkum kvikmyndaverkum.

    3.5  Tileinka sér starf framleiðanda í eigin kvikmyndagerð.

    3.6  Skipuleggja störf sín í handritaskrifum.

    3.7  Miðla flóknum frásögnum með myndrænum hætti.

  2. 1. Þekking og skilningur

    1.1 Nemandi öðlist verklega, fræðilega, tæknilega og faglega þekkingu á starfssviði leikstjórans.

    2. Hagnýt færni og leikni

    2.1 Nemandi öðlist leikni í að stýra leikurum og öðru samstarfsfólki á faglegan hátt.

    3. Hæfni sem hagnýting þekkingar og leikni

    3.1 Nemandi öðlist hæfni til að vinna sem leikstjóri með persónulegan stíl, sem á grundvelli þekkingar og leikni nær því besta út úr leikurum og öðru samstarfsfólki.

  3. 1. Þekking og skilningur

    1.1 Nemandi öðlist þekkingu á handritaskrifum fyrir ólíka miðla og af ólíkum tegundum. 

    2. Hagnýt færni og leikni

    2.1 Nemandi öðlist leikni í að skrifa ýmsar tegundir af handritum.

    3. Hæfni sem hagnýting þekkingar og leikni

    3.1 Nemandi öðlist hæfni til að starfa sem skapandi handritshöfundur í fjölbreyttum tegundum verkefna.

Kennsluskrá

Deild 3 | Handrit & leikstjórn

Nemendur skrifa...

Ólöf Birna Torfadóttir

,,Ég var búin að vinna sem sminka á nokkrum settum hjá nemendum sem voru í kvikmyndaskólanum og töluðu mjög vel um námið. Ég var lengi búin að pæla í því að skrifa mínar eigin sögur, svo rakst ég á auglýsingu á facebook frá skólanum og sótti strax um. Fyrir mér var þetta nám gríðarlega mikilvægt og kenndi mér nógu mikið til að ég hafði öll þau vopn sem þurfti til að skrifa góðar sögur og fara í það að gera bíómyndir.

Það sem kom skemmtilega á óvart var líka kennara valið, en leiðbeinendur voru nánast alltaf fólk sem er ferskt í bransanum að segja okkur og kenna okkur hvernig bransinn virkar nákvæmlega núna sem er gríðarlega mikilvægt því hann þróast hratt iðnaðurinn. Það sem kom líka á óvart var hversu mikið ég lærði af öllu, ég var á handrit og leikstjórn en í leiðinni lærði ég líka t.d. að klippa og framleiða sjálf, sem hefur hjálpað mér eftir skólann að vinna sjálfstætt að mínum eigin stuttmyndum og svo klassa druslu sem var fyrsta myndin í fullri lengd.

Eftir útskrift stofnaði ég lítið félag kvikmyndagerðarmanna sem heitir MyrkvaMyndir og saman gerðum við tvær stuttmyndir og framleiddum eina á íslandi fyrir nemanda úr the London Film School. 2019 breyttist félagið í framleiðslufyrirtæki sem framleiddi bíómyndina Hvernig á að vera klassa drusla, sem kom svo í bíó 2021 en ég skrifaði og leikstýrði myndinni.
Núna erum við aftur lögð af stað í aðra framleiðslu á mynd sem heitir Topp 10 möst og er spennandi gamanmynd í fullri lengd. Stefnum á tökur á henni í haust 2022.

- Ólöf Birna Torfadóttir, útskrifuð 2016

Leikstjóri og handritshöfundur - Hvernig á að vera klassa drusla

Nina Petersen

,,Ég hafði alltaf haft áhuga á kvikmyndum og skapandi greinum. Ég fann ekkert nám í Háskólanum sem vakti áhuga minn á þennan hátt sem Kvikmyndaskólinn gerði og ákvað því að taka smá áhættu og skrá mig í eitthvað sem ég vissi lítið sem ekkert um. Ég var hrikalega spennt fyrir náminu og að byrja í skólanum, þannig það fór ekki á milli mála að ég væri að velja réttu leiðina fyrir mig.

Þegar ég skráði mig á Handrit/Leikstjórn þá hafði ég aldrei séð né lesið handrit. Ég var snögg að læra formatið og hvernig ætti að skrifa á skapandi hátt, með hjálp kennara sem voru virkilega góðir í að miðla sinni eigin kunnáttu og reynslu úr bransanum. Ég kynntist öðrum nemendum strax og eignaðist virkilega góða vini sem ég lærði líka mikið af.

Árin í skólanum liðu hratt, því það var gaman alla daga - sama hvert verkefnið var. Ég fékk frjálsar hendur þegar kom að verkefnum og skapandi hugsun og lærði að vinna sjálfstætt, sem var mjög góður undirbúningur fyrir komandi ár í störfum tengdum kvikmyndagerð. Strax eftir útskrift fór ég að vinna á skrifstofunni hjá framleiðslufyrirtækinu, Pegasus. Þar lærði ég ýmislegt tengt framleiðslu og þróun, en mikilvægast af öllu var að ég fékk enn meiri reynslu í skrifum og þróun á efni fyrir bíó og sjónvarp. Frá árinu 2019 hef ég unnið sjálfstætt sem handritshöfundur og síðan þá hef ég fengið tækifæri til að vinna að ótrúlega skemmtilegum verkefnum. Ég skrifaði Leynilögguna ásamt Hannesi Þóri og Sveppa, sem var sýnd í kvikmyndahúsum á Íslandi og erlendis og var tilnefnd til Eddunar í mörgum flokkum, m.a. fyrir handrit. Í dag er ég á fullu að þróa og skrifa bæði bíómynd og seríu sem ég er mjög spennt fyrir."

- Nína Petersen

Handritshöfundur - Leynilöggan (Eddu tilnefning)

Snævar Sölvi Sölvason

,,Árin í Kvikmyndaskólanum voru frábær. Það sem ber hæst er tvennt. Annars vegar fékk ég að kynnast hvernig reynslumiklir handritshöfundar og leikstjórar, sem kenndu við skólann, nálgast sitt fag og ættleiddi ég samstundis þær aðferðir sem ég vissi að myndu bæta mig sem kvikmyndagerðarmann. Og hins vegar kynntist maður krökkum sem ætluðu sér langt í kvikmyndagerð og voru tilbúin að slást í för með mér að gera bíómynd í fullri lengd, "Albatross", sem var sýnd í kvikmyndahúsum um allt land fyrir nokkru, en mannskapurinn sem kom að henni var mest allur árgangssystkini mín. 

Eftir skóla hef ég skrifað nokkur handrit og eitt þeirra komst í gegnum handritastyrksþrepin hjá Kvikmyndasjóði. Nú þegar er hafið ferli að reyna að fjármagna þá mynd sem er í fullri lengd.

Á milli handrita hef ég unnið hin ýmsu störf á kvikmyndasetti til að eiga fyrir leigunni og má þar nefna "Þresti" eftir Rúnar Rúnars og svo "Ég Man Þig "eftir Óskar Axels."

- Snævar Sölvi Sölvason

Leikstjóri og Handritshöfundur - Albatross | Eden

Teitur Magnússon

,,Draumur um að vera viðloðandi við kvikmyndagerð var eitthvað sem byrjaði við 6-7 ára aldurinn en hafði legið í dvala frá táningsárunum. Það var svo í lok 2014 þegar ég fékk mér snjallsíma í fyrsta skipti og var ítrekað að taka upp allskonar myndbönd af samstarfsfólki mínu á lager sem ég vann á. Í einum kaffitímanum var ég manaður í að sækja um í Kvikmyndaskólann sem og ég gerði.

Námið var mjög athyglisvert, en þrátt fyrir að lengd námsins sé heldur stutt þá tel ég mig hafa fengið allt úr skólanum sem ég gat mögulega fengið á þessum 2 árum. Það sem stóð upp úr var lokaönnin, en þar fyrst fannst mér að ég hafi fengið nægan tíma í útskriftarverkefnið mitt og naut mikils stuðnings frá kvikmyndagerðarfólki úr bransanum. Það sem kom mest á óvart var tengslanetið sem myndaðist í skólanum, en ég vinn enn þann dag í dag með mikið af fólkinu sem ég kynntist í náminu.

Eftir útskrift gerði ég tvær stuttmyndir en fór svo fljótlega að skrifa handrit í fullri lengd eftir það og skrifaði nokkur í nokkurs konar æfingarskyni. Það leiddi svo fljótlega í kvikmyndina UGLUR sem ég skrifaði, leikstýrði og framleiddi. Myndin var sýnd á kvikmyndahátíðum víða og er þessa dagana í sýningu í Bíó Paradís. Í dag er ég að vinna í að koma næstu kvikmynd af stað en það er út frá handriti sem ég byrjaði að skrifa árið 2018. Einnig er ég að vinna með tveimur öðrum í að skrifa þáttaseríu."

- Teitur Magnússon
Handritshöfundur, leikstjóri og framleiðandi - Uglur

Þorsteinn Sturla Gunnarsson

,,Ég sótti um í Kvikmyndaskólann því að mig langaði að læra fagið en á sama tíma kynnast og tengjast kvikmyndabransanum á Íslandi og Kvikmyndaskólinn virtist vera hárréttur staður til að gera bæði. Námið var bæði krefjandi og skemmtilegt og ég fékk tækifæri til að spreyta mig á alls kyns verkefnum sem að mótuðu mína rödd sem leikstjóri og handritshöfundur. Auk minna eigin verkefna fékk ég líka tækifæri til að hjálpa fullt af samnemendum með handritin sín og að móta þeirra sýn, sem var gífurlega skemmtilegur lærdómur. Hápunktur námsins var þó án efa fólkið sem ég kynntist, bæði samnemendur og kennarar. Þetta er allt fyrsta flokks fólk og ég vonast til að vinna með sem flestum þeirra í framtíðinni. Eftir útskrift hef ég síðan verið að undirbúa handrit að bíómynd í fullri lengd, auk þess að skrifa sjónvarpsseríu með góðum hópi af fólki. Starf sem að ég fékk í gegnum tengsl sem ég myndaði í skólanum."

- Þorsteinn Sturla Gunnarsson, útskrifaður 2021
Handritshöfundur