Leiklist Deild 4

Tveggja ára diplóma nám sérhæfðri leiklist fyrir kvikmyndir.

Viltu baða þig í sviðsljósinu?

Tveggja ára diplómanám í kvikmyndaleik er einstök leið í íslensku menntakerfi sem veitir klassískan grunn í leikrænni tjáningu, söng og dansi ásamt kennslu í kvikmyndagerð.

Nemendur fá sérhæfða kennslu í kvikmyndaleik og þjálfun í leikrænni tjáningu. Mikil áhersla er lögð á beitingu líkamans, raddþjálfun, söng, dans og líkamsmeðvitund. Unnið er markvisst að því að finna styrkleika hvers og eins og skapa sterka karaktera með öflug tengsl við listasamfélagið á Íslandi.

Ef þú ert með brennandi áhuga á skapandi, verklegu námi í kvikmyndagerð þá erum við að leita að þér.

Af hverju leiklist?

  1. Kvikmyndaskóli Íslands er verklegur skóli þar sem nemendur skrifa, framleiða, leika, klippa, vinna og leikstýra sínum eigin myndum á meðan á náminu stendur. Allt skólahald snýst um kvikmyndagerð frá fyrstu mínútu til útskriftar.

  2. Inntaka í skólann er á haustönn á hverju ári.

  3. Aldrei eru teknir fleiri en 15 nýnemar í bekk. Séu bekkir fullir er hægt að skrá sig á biðlista.

  4. Allir helstu kvikmyndagerðarmenn landsins kenna eða hafa kennt við skólann. Flestir þeirra eru með háskólapróf og menntun erlendis frá. Nemendum eru tryggð tengsl við reynslumikið fólk úr iðnaðinum.

  5. Kvikmyndaskóli Íslands er einkaskóli sem starfar með viðurkenningu Mennta- og barnamálaráðuneytisins.

  6. Leiklistarnám opnar dyrnar að ótal atvinnutækifærum í kvikmyndum, sjónvarpi og sviðslistum. Undir leiðsögn starfandi fagfólks í leiklist öðlast nemendur sjálfsöryggi og færni til að koma sér á framfæri í sviðsljósinu.

  7. Ef þig langar að láta ljós þitt skína á hvíta tjaldinu eða á öðrum sviðum leiklistar þá ættir þú að skoða nám í Leiklist við Kvikmyndaskóla Íslands.

  8. Kvikmyndaiðnaðurinn er í örum vexti. Nýjungar í myndmiðlun og sjónvarpi kalla á fagleg vinnubrögð og sérþekkingu. Með slíka menntun gefast þér fjölmörg tækifæri til að láta ljós þitt skína.

  9. Það má læra kvikmyndagerð á ýmsa vegu en tveggja ára nám við KVÍ er fljótlegasta leiðin sem þú finnur til að ná tökum á faginu, finna þína styrkleika og byggja um leið upp öflugt tengslanet til framtíðar.

  10. Eftir áratugi af bóknámi áttu skilið að komast í nám sem hjálpar þér að koma þínum eigin hugmyndum í framkvæmd.

  11. Kvikmyndaskóli Íslands býður í dag heimsins besta grunnnám á sínu sérsviði; að taka við byrjendum í faginu, mennta í tvö ár og útskrifa sem fagfólk.

Hæfniviðmið deildar 4

  1. Þekking

    1. Nemandi öðlist þekkingu og skilning á:

    1.1  Eigin líkama og möguleikum hans til tjáningar í spuna, dansi og leiklist.

    1.2  Leiktækni og helstu stefnum og hugtökum leiklistarinnar.

    1.3 „Complete Vocal Technique“ raddþjálfunar kerfinu

    1.4 Rödd sinni og því hvernig hann eflir getu sína sem söngvari

    1.5 Raddbeitingu og textameðferð og möguleikum eigin raddar

    1.6 Vinnu leikarans og kvikmyndagerðarmannsins með þáttöku í fjölda verkefna

    1.7 Leikhúsinu og sviðinu

    1.8 Hvernig er hægt að nýta leiklistarsöguna í skapandi starfi

    1.9 Sígildum kenningum í leiklist

    1.10 Handritsgerð og framleiðslu kvikmynda

    1.11 Hvernig best er að koma sér á framfæri

    Færni

    2. Nemandi öðlist hagnýta færni og leikni í:

    2.1 Að vinna með líkama sinn á skapandi, listrænan og faglegan hátt í spuna, dansi og leiklist

    2.2 Að glíma við flóknar senur og að takast á við áskoranir sem leikari í kvikmyndum og á sviði

    2.3 Að vinna með rödd sína og söngrödd á persónulegan og faglegan hátt

    2.4 Að vinna sem leikari í kvikmyndum af ýmsu tagi

    2.5 Leiktækniæfingum þar sem unnið er með eigin persónu, reynslu og ímyndunarafl.

    2.6 Að nota leiklistarsöguna í sköpunarstarfi

    2.7 Hugmynda- og handritsvinnu og leikni í framleiðslu stuttmynda

    2.8 Markvissum og meðvituðum undirbúningi fyrir kvikmyndaverk

    2.9 Að gera kynningargögn og kynna leikhæfileika sína

    Hæfni

    3. Nemandi öðlist hæfni til að:

    3.1 Vinna með líkama sinn á listrænan, skapandi og faglegan hátt

    3.2 Nýta sér þekkingu sína til að vinna sem skapandi listamaður í leiklist

    3.3 Koma fram sem söngvari og tjá sig á persónulegan og faglegan hátt

    3.4 Vinna með ólík svið raddar sinnar og nýta þekkingu sína á raddbeitingu og raddtækni til að vinna á faglegan og skapandi hátt

    3.5 Vinna af fullri fagmennsku sem leikari í fjölbreyttri flóru verkefna, bæði í kvikmyndum og á sviði

    3.6 Rannsaka og tileinka sér grunnþætti leiktúlkunar, leiktækni og persónusköpunar í vinnu með leiktexta

    3.7 Nýta sér leiklistarsöguna af þekkingu og í sköpunarvinnu

    3.8 Færa hugmyndir yfir á handritsform

    3.9 Vera drifkraftur kvikmyndagerðar þar sem hann ber ábyrgð á öllum þáttum framleiðslu frá hugmynd til frumsýningar, ásamt því að leika aðalhlutverk

    3.10 Beita markvissum og meðvituðum undirbúningi fyrir kvikmyndahlutverk

    3.11 Koma sjálfum sér á framfæri

  2. 1. Þekking og skilningur
    1.1 Nemandi öðlist þekkingu á eigin líkama og möguleikum hans til tjáningar í gegnum spuna, dans og leiklist.

    2. Hagnýt færni og leikni
    2.1 Nemandi öðlist leikni í að vinna með líkama sinn í spuna, dansi og leiklist.

    3. Hæfni sem hagnýting þekkingar og leikni
    3.1 Nemandi öðlist hæfni til að vinna með líkama sinn á listrænan, skapandi og faglegan hátt.

  3. 1. Þekking og skilningur

    1.1  Nemandi öðlist heildstæða þekkingu á „Complete Vocal Technique“ raddþjálfunarkerfinu

    1.2  Nemandi öðlist skilning á rödd sinni og getu hennar

    2. Hagnýt færni og leikni

    2.1  Nemandi öðlist leikni í að nota raddþjálfunarkerfi leikarans

    2.2  Nemandi öðlist færni í að vinna með söngrödd sína á persónulegan og faglegan hátt

    3. Hæfni sem hagnýting þekkingar og leikni

    3.1  Nemandi öðlist hæfni til að koma fram sem söngvari og tjá sig á persónulegan og faglegan hátt

    3.2  Nemandi nái faglegu valdi á rödd sinni og kunni að beita henni á ólíkan hátt eftir viðfangsefnum

  4. 1. Nemandi öðlist þekkingu og skilning á:
    1.1 Sígildum kenningum og aðferðum í leiklist.

    2. Nemandi öðlist hagnýta færni og leikni í:
    2.1 Markvissum og meðvituðum undirbúningi fyrir kvikmyndahlutverk.

    3. Nemandi öðlist hæfni til að:
    3.1 Beita markvissum og meðvituðum undirbúningi fyrir kvikmyndahlutverk.

Kennsluskrá

Deild 4 | Leiklist

Nemendur skrifa...

Vivian Ólafsdóttir

,,Árin mín í Kvikmyndaskólanum voru mér bæði dýrmæt og góð. Ég þroskaðist fullt sem manneskja og listamaður, kynntist mikið af góðu og mjög hæfileikaríku fólki, bæði nemendum og kennurum. Ég kynntist líka eiginmanni mínum í Kvikmyndaskólanum þannig að mér þykir alveg aukalega vænt um hann og árin mín þar.

Ég hafði áhuga á leiklist en líka kvikmyndagerð og þess vegna valdi ég Kvikmyndaskólann. Ég útskrifaðist af Leiklistardeild árið 2012 og hef leikið í allskonar auglýsingum, stutt-, tónlistar-, og bíómyndum síðan þá. Einnig skrifaði ég og setti upp söngleik með unglingadeild Mosfellsbæjar árið 2013 þar sem að við blönduðum kvikmyndagerð við. Ég hef líka leikstýrt og klippt tónlistarmyndband, en mér finnst líka alveg rosa gaman að vera á bak við kameruna og leikstýra. Leiklist nýtist í allt, mér finnst persónulega að það ætti að vera kennt í skólum, t.d. á seinasta ári í framhaldskóla, þvílík gjöf inn í framtíðina! Það að kunna að brjótast úr sínum eigin kassa, ekki vera of meðvitaður um sjálfan sig og kunna að koma fram (svo eitthvað sé nefnt) eru mjög góð og í raun mikilvæg tól að hafa í lífinu. Leiklist er líkamleg og andleg og hafa margar æfingar frá skólanum orðið að daglegum hlut í mínu lífi og er ég mjög þakklát fyrir það, því þetta eru æfingar sem veita meiri vellíðan og gott ef þær lengja ekki lífið.

Ég nota leiklist á hverjum degi þó ég sé ekki að “leika”. Í dag er ég í Heilsumeistaraskólanum og sé fram á að vinna við heilsu og leiklist, það passar mjög vel saman og eru margir möguleikar i því. Námið í Kvikmyndaskólanum er gjöf sem ég gaf sjálfri mér og hefur hún margfalt borgað sig. Mig hefur langað að skrá mig í hann aftur og prófa aðra deild, en ég er á góðum stað í bili. Ég mæli heilshugar með Kvikmyndaskólanum."

- Vivian Ólafsdóttir
Leikkona - Leynilöggan (Eddu tilnefning) | Vitjanir | Svörtu sandar

Anna Hafþórsdóttir

,,Árin mín í Kvikmyndaskólanum voru yndisleg. Það fyrsta sem kemur upp í hugann er hvað ég skemmti mér vel og hvað ég kynntist mikið af skemmtilegu fólki. Þarna innan veggja skólans fékk ég að prufa mig áfram sem listamaður, fara út fyrir þægindarammann og víkka sjóndeildarhringinn. Það var stundum erfitt og tók á, því námið er krefjandi, en mér fannst það allt þess virði því það sem ég fékk út úr þessu er í raun ólýsanlegt.

Það er fátt meira gefandi en að elta drauminn sinn og fá að læra meira og skilja meira á því sviði sem maður hefur brennandi áhuga á. Næstum öll verkefni sem ég fékk fyrst eftir útskrift voru í gegnum sambönd sem ég myndaði innan skólans. Svo heldur maður bara áfram, kynnist fleira fólki í kvikmyndabransanum og reynir að troða sér áfram. Þetta er alveg ágætlega mikið hark.

Leiktæknina sem ég lærði í kvikmyndaskólanum nota ég alltaf. Ég lærði að búa mér til “verkfærakistu” sem hjálpar mér að undirbúa mig undir hlutverk. Öll leiktækni og undirbúningur er eitthvað sem ég tók með mér úr náminu og hef verið að nota og prófa mig áfram með í öllu sem ég geri. Ég mæli með leiklistarbrautinni í Kvikmyndaskólanum. Ég fékk mikið út úr þessu námi, bæði sem listamaður og sem einstaklingur. Þetta nám einblínir auðvitað meira á kvikmyndaleik, þannig að áherslurnar eru þannig. En mér fannst kennslan góð og námið krefjandi og virkilega skemmtilegt."

- Anna Hafþórsdóttir
Leikkona - Webcam | Snjór og Salóme

Ylfa Marín Haraldsdóttir

,,Mig langađi ađ læra í skapandi og lifandi umhverfi en vissi ekki alveg að hverju ég var ađ leita ađ. Þegar eg sá síđan auglýsingu frá skólanum áttađi ég mig á því ađ kvikmyndagerđ sameinar nánast allt sem ég hef áhuga á. Ég sá tækifæri í náminu og það átti heldur betur eftir að sannreynast. Þađ sem kom mér hvađ mest á óvart varđandi námiđ var hvađ ég lærđi mikiđ inná sjálfa mig sem listamann. Námiđ gaf mér tækifæri til þess ađ prufa mig áfram og gera tilraunir sem stækkađi sjóndeildarhringinn, sumt gekk upp og annað bara alls ekki en það er eitthvað alveg ómetanlegt við það að fá að læra af mistökum sínum í öruggu umhverfi skólans.

Ég hef verið að leika og starfa í kvikmyndagerð frá því ég útskrifaðist, fór til dæmis með aðalhlutverk í kvikmyndinni Hvernig á að vera klassa drusla. Einnig hef ég fengið spennandi verkefni fyrir aftan cameru eins og búningahönnun, framkvæmdastýra kvikmynda, unnið við talsetningar og ýmislegt annað skemmtilegt. Nú er ég svo lánsöm að fá mína frumraun í að vera með í skrif teymi fyrir nýja þáttaseríu sem er í vinnslu."

- Ylfa Marín Haraldsdóttir, útskrifuð 2018

Leikkona - Hvernig á að vera klassa drusla | Veiðiferðin

Bolli Már Bjarnason

,,Ég hafði áhuga á að læra kvikmyndaleik. Hafði heyrt um skólann frá vini mínum og ákvað að taka skrefið og sækja um. Fór soldið blint inn í þetta. Námið var mjög metnaðarfullt fannst mér, kennarar góðir og áfangarnir krefjandi en skemmtilegir. Samvinnuáfangarnir á milli deilda er algjör lykill fyrir verkefni framtíðarinnar. Ég hef verið að vinna á auglýsingastofunni Pipar\TBWA, leikið í þáttum og auglýsingum ásamt því að búa til sjónvarpsþátt sjálfur. Er sjálfstætt starfandi núna í hinum ýmsu verkefnum og margt spennandi á teikniborðinu."

- Bolli Már Bjarnason, útskrifaður 2015
Leikari og kvikmyndagerðarmaður

Hekla Sólveig Gísladóttir

,,Ég ákvað að sækja um þegar ég sá link á heimasíðuna og fannst þetta mjög spennandi og flottur skóli. Það sem kom mér mest á óvart við námið var hvað ég lærði mikið inn á öll svið. Ég get reddað mer í öllum hlutverkum á setti og í eftirvinnslu því við lærðum grunninn í öllu. Eftir útskrift hef ég verið að mæta í prufur og tekið að mér lítil verkefni og verið að taka endurmenntunar námskeið í hljóði í Kvikmyndaskólanum til þess að bæta við mig."

- Hekla Sólveig Gísladóttir, útskrifuð 2020
Leikkona

Hildur Sigurðardóttir


,,Mig langaði í leiklistarnám sem var með áherslu á leik fyrir kvikmyndir og kvikmyndagerð yfir höfuð líka, þar sem ég hef alltaf haft áhuga á því. Ég kynnti mér námið og það höfðaði vel til mín. Ég var búin að leita lengi eftir skóla sem kenndi leiklist með áherslu á leik fyrir kvikmyndir/sjónvarp og Kvikmyndaskólinn er eini skólinn sinnar tegundar hér þannig ég ákvað að sækja um.

Námið var frábært í alla staði. Ég kynntist frábæru fólki, mikið að fólki sem ég get kallað bestu vini mína í dag, og einnig gott tengslanet sem er mjög dýrmætt í þessum bransa. Mér fannst mjög gott hvernig ég fékk að kynnast öllum hliðum á leiklistinni, við snertum á mörgum leiktækni aðferðum, hvernig það er að leika fyrir framan myndavél og einnig á sviði. Hvernig við getum unnið með röddina okkar á mismunandi vegu, bæði í töluðu máli og í söng. Það sem kom mér mest á óvart var hvað ég lærði mikið um sjálfa mig og hvernig ég lærði að vera meira sjálfstæð, bæði í náminu og í lífinu almennt. Einnig hvað ég lærði mikið um allar hliðar á hvað það er að búa til kvikmynd, ekki bara leiklistina sem mér finnst mjög dýrmætt.

Haustið eftir að ég útskrifaðist fór ég að vinna hjá Kvikmyndaskólanum, sem var mjög góð reynsla, þannig fékk ég að kynnast betur þeim kennurum sem voru á kenna á öðrum sviðum og það gaf mér líka tækifæri að fóta mig aðeins í bransanum. Síðan langaði mig að breyta um umhverfi og læra meira og prófa eitthvað nýtt og ákvað að flytja til Berlínar til að fara í áframhaldandi nám í leiklist fyrir kvikmyndir. Núna er ég að klára fyrsta árið mitt hér, búin að búa hér í næstum ár og mér finnst menntunin sem ég fékk í Kvikmyndaskólanum hafa gefið mér mikið og ég væri líklega ekki þar sem ég er í dag ef ég hefði ekki sótt um í Kvikmyndaskólanum."

- Hildur Sigurðardóttir, útskrifuð 2020
Leikkona