Sérhæfð kennsla í kvikmyndaleik

L
eiklistardeild Kvikmyndaskóla Íslands býður upp á krefjandi list- og fagnám sem þjálfar öguð vinnubrögð leikarans fyrir kvikmyndir og sviðslistir.

Mikil áhersla er lögð á líkamsbeitingu, raddþjálfun, söng og líkamsmeðvitund til að finna styrkleika hvers og eins. Nemendur hljóta þjálfun í að leika í kvikmyndum og öðrum myndmiðlum undir leiðsögn skapandi listamanna úr röðum leikara, leikstjóra, söngvara, dansara og kvikmyndagerðamanna sem starfa við list sína og tengja nemendur við listasamfélagið.

Nemendur þjálfa grunntækni í listsköpun leikarans og einnig undirstöðuatriði kvikmyndagerðar, handritsgerðar, framleiðslu, kvikmyndatöku, hljóðvinnu, klipps og eftirvinnslu. Sérstaða þessarar leiklistardeildar er að nemendur hljóta víðtæka þjálfun í að leika í kvikmyndum og öðrum myndmiðlum í hópvinnu með öðrum deildum skólans.

Leiklistardeildin er krefjandi tveggja ára nám og markmiðið er að nemendur fái að blómstra og dafna í skapandi og öruggu umhverfi. Tekið er inn í deildina tvisvar á ári og eru nemendur valdir með inntökuprófum og viðtölum.

Leiklistardeildin er ákjósanlegur valkostur fyrir ungt fólk sem hefur áhuga á skapandi og krefjandi starfi leiklistarinnar og er góður grunnur fyrir störf í kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð, sviðslistum eða fyrir framhaldsnám á einhverju sviði listgreinarinnar.

  • Leikur & Hreyfing

    Kolbrún Anna Björnsdóttir
  • Leikur & Rödd

    Þórey Sigþórsdóttir
  • Leiklist

    Rúnar Guðbrandsson
  • Sýnishorn úr Myndum nemenda

Sýnishorn úr Myndum

Námskeið
Leikur og hreyfing 1 | LEH 103
Leikur og rödd 1 | LER 104
Leiklist 1 | LEL 108
Lokaverkefni 1 | LOL 106
Tæki og tækni 1 | TÆK 106
Samstarf milli deilda | SAM 101
Kvikmyndasaga 1 | KMS 102
Leikur og hreyfing 2 | LEH 204
Leikur og rödd 2 | LER 204
Leiklist 2 | LEL 206
Spuni/Grín | SPG 103
Leiksmiðja og leikhús| LEI 106
Tæki og tækni 2 | TÆK 204
Samstarf milli deilda | SAM 201
Kvikmyndasaga 2 | KMS 202
Leikur og hreyfing 3 | LEH 304
Leikur og rödd 3 | LER 303
Leiklist 3 | LEL 304
Leikstjórinn | VML 102
Leiklistarsaga | LLS 103
Leikinn sjónvarpsþáttur | LSJ 104
Sjónvarpsþættir | SJL 103
Myndmál og meðferð þess | MYN 104
Samstarf milli deilda | SAM 301
Kvikmyndasaga 3 | KMS 302
Leikur og hreyfing 4 | LEH 403
Leikur og rödd 4 | LER 403
Leiklist 4 | LEL 404
Fagið og framtíðin | FOF 203
Handritsgerð | HHO 102
Lokaverkefni 4. önn | LOL 208
Samtíminn | SAT 102
Samstarf milli deilda | SAM 401
Kvikmyndasaga 4 | KMS 402
Samningar og kjör | VER 102

Umsagnir nemenda

Þessi tvö ár sem ég var í skólanum voru jafn frábær og þau voru krefjandi. Það var allur skalinn af tilfinningum krufinn á þessum tíma og líðanin alveg eftir því. En það var sama hvað gekk á þá var leikgleðin alltaf til staðar og ánægjan af því að vera að skapa og kynnast sjálfum sér á þennan nýjann hátt eitthvað sem ég vildi óska að allir upplifi á lífsleiðinni. Það er hluti af því sem heldur mér gangandi í dag, að vera skapandi og opin fyrir tækifærum á hverjum degi.Það er eitt dæmi sem ég nefni alltaf þegar ég er spurð út í námið, það er hvaða áhrif skólinn hafði á mig frá fyrsta degi. Ég átti það til að svara ekki fyrir mig, standa ekki nógu mikið upp fyrir mínum skoðunum. En strax á fyrstu önn í náminu þá var fólkið í kringum mig farið að taka eftir því hvað ég var farin að standa á mínu. Mér var bent á þetta reglulega og það gladdi mig jafn mikið og alla hina, loksins var hægt að rökræða við mig! Haha. En þessi tími var algjört gull, tvö ár voru bara of fljót að líða. Fólkið í skólanum, bæði nemendur og þessir frábæru kennarar sem eru ennþá til staðar fyrir mann, mörgum árum eftir útskrift er eitthvað sem ég get verið virkilega þakklát fyrir. Hvað gerðist eftir skólann? Eftir útskrift kom smá sjokk. Hvað nú?
Maður er búinn að vera í endlausum tökum og verkefnum á þessum tíma sem maður er í náminu en svo kemur útskriftin og þú stendur allt í einu alveg á eigin fótum.

(more…)

Þórunn Guðlaugs, Útskrifuð haustönn 2010

Árin mín í KVÍ voru án nokkurs vafa einhver bestu ár lífs míns og klárlega ein besta skyndiákvörðun sem ég hef tekið. Ég fékk ábendingu um að það væru auka inntökupróf fyrir leiklistardeild KVÍ eftir 2 daga og ég lét bara vaða. Skemst er frá því að segja að ég komst inn í stórmerkilegan leiklistarbekk þar sem að við byrjuðum 10 en útskrifuðumst aðeins tvö, en við urðum fyrir mikilli ‘blóðtöku’ þegar skólaárinu seinkaði vegna deilna við menntamálaráðuneytið sem blessunarlega leystist! Venjulega er leiklistarbekkur 10-12 manns svo ég og Saga Guðjónsdóttir sem útskrifaðist með mér vorum algjör tilraunadýr hvað þetta varðaði en skólinn gerði gjörsamlega allt sem hann gat til að styðja okkur svo við myndum ekki verða af neinu sem venjulegur bekkur myndi fá en einnig svo við myndum nú ekki fá upp í kok af hvoru öðru. En ég verð að segja að þær áhyggjur voru algerlega gripnar úr lausu lofti því ég hefði enganvegin getað óskað mér betri bekkjarsystur til að fara með mér í gegnum þetta allt saman en hana Sögu. Í raun nostraði skólinn algjörlega við okkur því við fengum jafn langar kennslu stundir og aðrir þrátt fyrir að vera í hálfgerðri einkakennslu í ‘leik og rödd’, ‘leik og söng’ og leiklistarsögu á meðan við fengum líka hóptíma ýmist með önninni fyrir ofan eða neðan okkur. Í stuttu máli myndi ég segja að aldrei fyrr hafði ég upplifað eftirvæntingu við það eitt að komast aftur í skólann eftir helgi eða lengri frí fyrr en ég byrjaði í KVÍ, svo góður var andinn innan veggja skólans og sambandið við alla starfsmenn frá Rektor, deildarforsetum, kennurum til Nikulásar lukkudýrs. Námið var ótrúlega persónulegt og í raun hannað eftir mínum þörfum sem var stórkostlegur kostur því það gaf mér möguleikann á að vaxa og dafna sem listamaður í stað þess að vera þvingaður í að gera hitt eða þetta sem ég hafði ekki áhuga á að gera á þeim tímapunkti..

Bjarki Kristjánsson, Útskrifaður haustönn 2012

Árin mín í Kvikmyndaskólanum voru yndisleg. Það fyrsta sem kemur upp í hugann er hvað ég skemmti mér vel og hvað ég kynntist mikið af skemmtilegu fólki. Þarna innan veggja skólans fékk ég að prufa mig áfram sem listamaður, fara út fyrir þægindarammann og víkka sjóndeildarhringinn. Það var stundum erfitt og tók á því námið er krefjandi en mér fannst það allt þess virði því það sem ég fékk út úr þessu er í raun ólýsanlegt. Það er fátt meira gefandi en að elta drauminn sinn og fá að læra meira og skilja meira á því sviði sem maður hefur brennandi áhuga á. Næstum öll verkefni sem ég fékk fyrst eftir útskrift voru í gegnum í sambönd sem ég myndaði innan skólans. Svo heldur maður bara áfram, kynnist fleira fólki í kvikmyndabransanum og reynir að troða sér áfram. Þetta er alveg ágætlega mikið hark. Leiktæknina sem ég lærði í kvikmyndaskólanum nota ég alltaf. Ég lærði að búa mér til “verkfærakistu” sem hjálpar mér að undirbúa mig undir hlutverk. Öll leiktækni og undirbúningur er eitthvað sem ég tók með mér úr náminu og hef verið að nota og prófa mig áfram með í öllu sem ég geri. Ég mæli með leiklistarbrautinni í Kvikmyndaskólanum. Ég fékk mikið út úr þessu námi, bæði sem listamaður og sem einstaklingur. Þetta nám einblínir auðvitað meira á kvikmyndaleik, þannig að áherslurnar eru þannig. En mér fannst kennslan góð og námið krefjandi og virkilega skemmtilegt.

Anna Hafþórsdóttir, Útskrifuð vorið 2011

Árin mín í Kvikmyndaskólanum voru mér bæði dýrmæt og góð. Ég þroskaðist fullt sem manneskja og listamaður, kynntist mikið af góðu og mjög hæfileikaríku fólki, bæði nemendum og kennurum. Ég kynntist líka eiginmanni mínum í Kvikmyndaskólanum, þannig að mér þykir alveg extra vænt um hann og árin mín þar. Ég hafði áhuga á leiklist en líka kvikmyndagerð og þess vegna valdi ég Kvikmyndaskólann. Ég útskrifaðist af leiklistardeild 2012 og hef leikið í allskonar auglýsingum, stutt-, tónlistar-, og bíómyndum síðan þá. Einnig skrifaði ég og setti upp söngleik með unglingadeild Mosfellsbæjar 2013 þar sem að við blönduðum kvikmyndagerð við. Ég hef líka leikstýrt og klippt tónlistarmyndbandi, en mér finnst líka alveg rosa gaman að vera á bak við kameruna og leikstýra. Leiklist nýtist í allt, mér finnst persónulega að það ætti að vera kennt í skólum, t.d. á seinasta ári í framhaldskóla, þvílík gjöf inní framtíðina! Það að kunna að brjótast úr sínum eigin kassa, ekki vera of meðvitaður um sjálfan sig og kunna að koma fram (svo eitthvað sé nefnt) eru mjög góð og í raun mikilvæg tól að hafa í lífinu. Leiklist er líkamleg og andleg og hafa margar æfingar frá skólanum orðið að daglegum hlut í mínu lífi og er ég mjög þakklát fyrir það, því þetta eru æfingar sem veita meiri vellíðan og gott ef þær lengja ekki lífið. Ég nota leiklist á hverjum degi þó ég sé ekki að “leika”. Í dag er ég í Heilsumeistaraskólanum og sé fram á að vinna við heilsu og leiklist, það passar mjög vel saman og eru margir möguleikar i því. Námið í Kvikmyndaskólanum er gjöf sem ég gaf sjálfri mér og hefur hún margfalt borgað sig. Mig hefur langað að skrá mig í hann aftur og prófa aðra deild, en ég er á góðum stað í bili. Ég mæli heilshugar með Kvikmyndaskólanum.

Vivian Ólafsdóttir, Útskrifuð haustið 2011