Saga Kvikmyndaskóla Íslands
Saga Kvikmyndaskóla Íslands
Fyrstu námskeiðin undir nafni Kvikmyndaskóla Íslands voru haldin haustið 1992 í húsakynnum MÍR félagsins að Vatnsstíg 10. Nemendur voru 23 og kennarar og fyrirlesarar 17, þar af margir af helstu kvikmyndagerðarmönnum landsins. Námskeiðin stóðu yfir í 3 mánuði og lauk með framleiðslu tveggja leikinna stuttmynda. Stofnandi skólans var Böðvar Bjarki Pétursson kvikmyndagerðarmaður. Á þessum fyrstu námskeiðum voru ýmsir sem síðar hafa orðið virkir í kvikmyndaiðnaðinum.
Á árabilinu 1992 til 2000 voru haldin margvísleg námskeið á vegum skólans sem flest höfðu það að markmiði að undirbúa ungmenni til frekara náms eða starfa í kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðinum. Megináherslan var lögð á mjög umfangsmikil námskeið sem stóðu yfir í eina önn. Á sumrin voru síðan skemmri námskeið af ýmsu tagi. Árið 2000 var tekin ákvörðun um að efla rekstur Kvikmyndaskóla Íslands og að fella starfsemi hans að hinu almenna skólakerfi í landinu. Í samvinnu við fjölda sérfræðinga var hafist handa við hönnun nýrrar námskrár. Jafnframt var haldið áfram að kenna einnar annar nám, en nú með breyttu sniði, þannig að námið var í raun fyrsta önnin í væntanlegu tveggja ára námi.
Fyrsta námskrá skólans var síðan send Mennta- og menningarmálaráðuneytinu síðla árs 2002. Haustið 2003 veitti Tómas Ingi Olrich, þáverandi Mennta- og menningarmálaráðherra, skólanum svo formlega viðurkenningu ráðuneytisins á tveggja ára námsbraut í kvikmyndagerð á framhaldsskólastigi. Með því var stigið fyrsta skrefið í því að Kvikmyndaskóli Íslands yrði viðurkenndur og formlegur skóli í íslensku menntakerfi.
Áfram var unnið að þróun námskrár og haustið 2004 var kynnt að þrjár nýjar brautir væru í undirbúningi og árið 2005 var svo lögð inn til Mennta- og menningarmálaráðuneytis námskrá að þremur nýjum brautum við skólann. Þar var mörkuð sú stefna að bjóða upp á nám á sérhæfðum sviðum eins og tíðkast við flesta af betri kvikmyndaskólum erlendis. Tveimur árum síðar veitti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi Mennta- og menningarmálaráðherra, Kvikmyndaskólanum viðurkenningu á þremur nýjum sérsviðum eftir margvíslegt þróunarstarf. Árið 2009 framlengdi Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra viðurkenningu á fjórum brautum skólans.
Kvikmyndaskólinn hefur allt frá upphafi starfað í nánum tengslum við hagsmunasamtök kvikmyndagerðarmanna og við starfandi framleiðslufyrirtæki og sjónvarpsstöðvar. Unnin hafa verið margvísleg verkefni í samvinnu við sjónvarpsstöðvarnar. Þá hafa á vegum Kvikmyndaskólans verið haldin fjölmörg námskeið í samvinnu við aðra skóla á öllum skólastigum.
Kvikmyndaskólinn starfaði í upphafi sem hluti af öðru félagi en árið 1998 var stofnað um hann sérstakt félag, Kvikmyndaskóli Íslands ehf, í helmingseigu Böðvars Bjarka og Ingu Bjarkar Sólnes. Böðvar Bjarki keypti síðan hlut Ingu Bjarkar. Árið 2000 keyptu samtök rafiðnaðarmanna 50% hlut í skólanum og markmiðið var að fella það að þeirra skólakerfi sem var mjög öflugt á þeim tíma. Vegna áfalla sem rafiðnaðarmenn urðu fyrir í sínum rekstri, sem varð til þess að þeir lokuðu eða lögðu niður alla sína skóla nema einn, þá var rekstur Kvikmyndaskólans endurskipulagður. Stofnað var eignarhaldsfélagið Telemakkus ehf, sem er að mestu í eigu Böðvars Bjarka Péturssonar og fjölskyldu hans, og tók það yfir reksturinn og endurskipulagði hann. Skólinn hlaut margvíslegan stuðning frá kvikmyndafyrirtækjum sem reyndist mjög mikilvægur á viðkvæmu uppbyggingarskeiði.
Gæfa skólans hefur frá upphafi verið að kvikmyndagerðarmenn og kennarar hafa verið fúsir að starfa við skólann. Á annað hundrað leiðbeinenda og fyrirlesara hefur starfað við skólann, bæði innlendir og erlendir. Flestir þeirra eru starfandi í greininni. Skólinn hefur útskrifað á sjötta hundrað nemenda af ýmsum námskeiðum skólans. Útskrifaðir nemendur starfa nú víðsvegar í íslenskum kvikmynda- og sjónvarpsiðnaði og hafa haft þar margvísleg áhrif.
Mikill hreyfanleiki hefur einkennt starfsmenn skólans enda er það í eðli rekstrarins. Stjórnendur, kennarar og leiðbeinendur eru starfandi kvikmyndagerðarmenn sem taka tímabundið að sér störf við skólann á milli verkefna. Á meðal þeirra sem gengt hafa skólameistarastöðu í skólanum eru Guðmundur Bjartmarsson, Kristín Jóhannesdóttir, Ásdís Thoroddsen og Hilmar Oddsson.
Skólinn hefur staðið fyrir og tekið þátt í ýmsum námskeiðum og samvinnuverkefnum í gegnum árin. Má þar nefna: Símenntunarnámskeið í samvinnu við sjónvarpsstöðvarnar, þátttöku í ýmsum verkefnum í samvinnu við Nýsköpunarsjóð námsmanna, margvísleg verkefni í samvinnu við Skjá 1, námskeið um notkun myndmiðla í kennslu í samvinnu við Kennarasambandið, námskeið í fréttavinnslu í samvinnu við nemendur í Hagnýtri fjölmiðlun hjá Háskóla Íslands, framleiðsla heimildamyndar um skapandi starf í leikskóla í samvinnu við Leikskólann Sæborg, rekstur leiklistarskóla fyrir börn og unglinga í samvinnu við Borgarleikhúsið, sumarnámskeið í kvikmyndagerð í samvinnu við Stöð 2 og Kvikmyndasjóð, framleiðslu á sex leiknum sjónvarpsmyndum (RRX 3. reglan) í samvinnu við RÚV, námskeið í kvikmyndagerð í samvinnu við Hitt húsið, framleiðslu heimildamyndar um Elliðaárdalinn í samvinnu við 5 grunnskóla og Orkuveituna, námskeið í sjónrænni miðlun í samvinnu við Sagnfræðiskor Háskóla Íslands, handritanámskeið í samvinnu við Leikskáldafélagið og Kvikmyndasjóð, námskeið í stuttmyndagerð í samvinnu við Verzlunarskólann, námskeið í gerð heimildaþátta fyrir útvarp í samvinnu við Háskólann á Grænlandi, Kvikmyndaskólann i Svíþjóð (DI) og danska ríkisútvarpið (DR) með stuðningi Leonardo áætlunar Evrópusambandsins.
Árið 2008 var ákveðið að taka þá stefnu að færa skólastarf Kvikmyndaskóla Íslands á háskólastig og var kennsluskrá skólans löguð að því skólastigi. Jafnframt var hafinn undirbúningur að stofnun alþjóðlegrar deildar við skólann. Árið 2012 var skólinn tekinn inn sem fullgildur meðlimur inn í Cilect, alþjóðasamtök kvikmyndaskóla.