Leiklist Deild 4

Tveggja ára diplóma nám sérhæfðri leiklist fyrir kvikmyndir.

Viltu baða þig í sviðsljósinu?

Tveggja ára diplómanám í kvikmyndaleik er einstök leið í íslensku menntakerfi sem veitir klassískan grunn í leikrænni tjáningu, söng og dansi ásamt kennslu í kvikmyndagerð.

Nemendur fá sérhæfða kennslu í kvikmyndaleik og þjálfun í leikrænni tjáningu. Mikil áhersla er lögð á beitingu líkamans, raddþjálfun, söng, dans og líkamsmeðvitund. Unnið er markvisst að því að finna styrkleika hvers og eins og skapa sterka karaktera með öflug tengsl við listasamfélagið á Íslandi.

Ef þú ert með brennandi áhuga á skapandi, verklegu námi í kvikmyndagerð þá erum við að leita að þér.

Af hverju leiklist?

  1. Kvikmyndaskóli Íslands er verklegur skóli þar sem nemendur skrifa, framleiða, leika, klippa, vinna og leikstýra sínum eigin myndum á meðan á náminu stendur. Allt skólahald snýst um kvikmyndagerð frá fyrstu mínútu til útskriftar.

  2. Inntökuviðtöl eru að lágmarki einu sinni í mánuði og öllum umsóknum svarað innan 40 daga.

  3. Aldrei eru teknir fleiri en 12 nýnemar í bekk. Séu bekkir fullir er hægt að skrá sig á biðlista.

  4. Allir helstu kvikmyndagerðarmenn landsins kenna eða hafa kennt við skólann. Flestir þeirra eru með háskólapróf og menntun erlendis frá. Nemendum eru tryggð tengsl við reynslumikið fólk úr iðnaðinum.

  5. Kvikmyndaskóli Íslands er einkaskóli sem starfar með viðurkenningu Mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

  6. Með ári til viðbótar í kvikmyndafræði geta nemendur útskrifast með BA-gráðu.

    *Námsleiðin er í viðurkenningarferli hjá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

  7. Leiklistarnám opnar dyrnar að ótal atvinnutækifærum í kvikmyndum, sjónvarpi og sviðslistum. Undir leiðsögn starfandi fagfólks í leiklist öðlast nemendur sjálfsöryggi og færni til að koma sér á framfæri í sviðsljósinu.

  8. Ef þig langar að láta ljós þitt skína á hvíta tjaldinu eða á öðrum sviðum leiklistar þá ættir þú að skoða nám í Leiklist við Kvikmyndaskóla Íslands.

  9. Kvikmyndaiðnaðurinn er í örum vexti. Nýjungar í myndmiðlun og sjónvarpi kalla á fagleg vinnubrögð og sérþekkingu. Með slíka menntun gefast þér fjölmörg tækifæri til að láta ljós þitt skína.

  10. Það má læra kvikmyndagerð á ýmsa vegu en tveggja ára nám við KVÍ er fljótlegasta leiðin sem þú finnur til að ná tökum á faginu, finna þína styrkleika og byggja um leið upp öflugt tengslanet til framtíðar.

  11. Eftir áratugi af bóknámi áttu skilið að komast í nám sem hjálpar þér að koma þínum eigin hugmyndum í framkvæmd.

  12. Kvikmyndaskóli Íslands býður í dag heimsins besta grunnnám á sínu sérsviði; að taka við byrjendum í faginu, mennta í tvö ár og útskrifa sem fagfólk.

Fagstjórar í leiklist

Rúnar Guðbrandsson

Rúnar nam upphaflega Leiklist í Danmörku og starfaði þar um árabil sem leikari með ýmsum leikhópum. Frekari menntun hefur hann sótt m.a. til Póllands og Rússlands. Rúnar lauk MA og MPhil gráðum í Leikhúsfræðum og Leikstjórn frá De Montfort háskólanum í Leicester í Englandi og hefur lokið fyrri hluta doktorsnáms í fræðunum. Hann var fyrsti prófessor í leiktúlkun við Listaháskóla Íslands. Rúnar hefur samið og leikstýrt fjölda leiksýninga bæði hérlendis og erlendis, og fengist við leiklistarkennslu og þjálfun leikara víða í Evrópu. Hann hefur auk þess leikið í fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta.

Þórey Sigþórsdóttir

Þórey hefur unnið sem leikkona og leikstjóri á sviði og í kvikmyndum frá því hún útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands 1991. Þórey útskrifaðist með kennsluréttindi frá LHÍ árið 2004, MA gráðu í Advanced Theatre Practice frá The Royal Central School of Speech and Drama árið 2012 og MA gráðu í Hagnýtri Menningarmiðlun frá HÍ árið 2014. Þórey hefur í mörg ár kennt rödd við Listaháskóla Íslands og á ýmsum námskeiðum fyrir leikara og fólk sem vinnur með röddina. Hún hefur réttindi til að kenna raddþjálfunaraðferð Nadine George frá The Voice Studio International í London og byggir kennsluna á NGT aðferðinni. Þórey er stofnandi og listrænn stjórnandi leikfélagsins Fljúgandi Fiskar sem hefur framleitt nokkar sýningar, m.a. "Hótel Heklu" eftir Anton Helga Jónsson og Lindu Vilhjálmsdóttur og "Medeu" (multi-media) eftir Evrípídes. Þórey leikstýrði síðast verkinu "Andaðu" eftir Duncan Macmillan sem var frumsýnt við frábærar viðtökur í Iðnó í janúar 2017. Þórey hefur kennt rödd við Kvikmyndaskóla Íslands síðan 2016.

Hæfniviðmið deildar 4

  1. Þekking

    1. Nemandi öðlist þekkingu og skilning á:

    1.1  Eigin líkama og möguleikum hans til tjáningar í spuna, dansi og leiklist.

    1.2  Leiktækni og helstu stefnum og hugtökum leiklistarinnar.

    1.3 „Complete Vocal Technique“ raddþjálfunar kerfinu

    1.4 Rödd sinni og því hvernig hann eflir getu sína sem söngvari

    1.5 Raddbeitingu og textameðferð og möguleikum eigin raddar

    1.6 Vinnu leikarans og kvikmyndagerðarmannsins með þáttöku í fjölda verkefna

    1.7 Leikhúsinu og sviðinu

    1.8 Hvernig er hægt að nýta leiklistarsöguna í skapandi starfi

    1.9 Sígildum kenningum í leiklist

    1.10 Handritsgerð og framleiðslu kvikmynda

    1.11 Hvernig best er að koma sér á framfæri

    Færni

    2. Nemandi öðlist hagnýta færni og leikni í:

    2.1 Að vinna með líkama sinn á skapandi, listrænan og faglegan hátt í spuna, dansi og leiklist

    2.2 Að glíma við flóknar senur og að takast á við áskoranir sem leikari í kvikmyndum og á sviði

    2.3 Að vinna með rödd sína og söngrödd á persónulegan og faglegan hátt

    2.4 Að vinna sem leikari í kvikmyndum af ýmsu tagi

    2.5 Leiktækniæfingum þar sem unnið er með eigin persónu, reynslu og ímyndunarafl.

    2.6 Að nota leiklistarsöguna í sköpunarstarfi

    2.7 Hugmynda- og handritsvinnu og leikni í framleiðslu stuttmynda

    2.8 Markvissum og meðvituðum undirbúningi fyrir kvikmyndaverk

    2.9 Að gera kynningargögn og kynna leikhæfileika sína

    Hæfni

    3. Nemandi öðlist hæfni til að:

    3.1 Vinna með líkama sinn á listrænan, skapandi og faglegan hátt

    3.2 Nýta sér þekkingu sína til að vinna sem skapandi listamaður í leiklist

    3.3 Koma fram sem söngvari og tjá sig á persónulegan og faglegan hátt

    3.4 Vinna með ólík svið raddar sinnar og nýta þekkingu sína á raddbeitingu og raddtækni til að vinna á faglegan og skapandi hátt

    3.5 Vinna af fullri fagmennsku sem leikari í fjölbreyttri flóru verkefna, bæði í kvikmyndum og á sviði

    3.6 Rannsaka og tileinka sér grunnþætti leiktúlkunar, leiktækni og persónusköpunar í vinnu með leiktexta

    3.7 Nýta sér leiklistarsöguna af þekkingu og í sköpunarvinnu

    3.8 Færa hugmyndir yfir á handritsform

    3.9 Vera drifkraftur kvikmyndagerðar þar sem hann ber ábyrgð á öllum þáttum framleiðslu frá hugmynd til frumsýningar, ásamt því að leika aðalhlutverk

    3.10 Beita markvissum og meðvituðum undirbúningi fyrir kvikmyndahlutverk

    3.11 Koma sjálfum sér á framfæri

  2. 1. Þekking og skilningur
    1.1 Nemandi öðlist þekkingu á eigin líkama og möguleikum hans til tjáningar í gegnum spuna, dans og leiklist.

    2. Hagnýt færni og leikni
    2.1 Nemandi öðlist leikni í að vinna með líkama sinn í spuna, dansi og leiklist.

    3. Hæfni sem hagnýting þekkingar og leikni
    3.1 Nemandi öðlist hæfni til að vinna með líkama sinn á listrænan, skapandi og faglegan hátt.

  3. 1. Þekking og skilningur

    1.1  Nemandi öðlist heildstæða þekkingu á „Complete Vocal Technique“ raddþjálfunarkerfinu

    1.2  Nemandi öðlist skilning á rödd sinni og getu hennar

    2. Hagnýt færni og leikni

    2.1  Nemandi öðlist leikni í að nota raddþjálfunarkerfi leikarans

    2.2  Nemandi öðlist færni í að vinna með söngrödd sína á persónulegan og faglegan hátt

    3. Hæfni sem hagnýting þekkingar og leikni

    3.1  Nemandi öðlist hæfni til að koma fram sem söngvari og tjá sig á persónulegan og faglegan hátt

    3.2  Nemandi nái faglegu valdi á rödd sinni og kunni að beita henni á ólíkan hátt eftir viðfangsefnum

  4. 1. Nemandi öðlist þekkingu og skilning á:
    1.1 Sígildum kenningum og aðferðum í leiklist.

    2. Nemandi öðlist hagnýta færni og leikni í:
    2.1 Markvissum og meðvituðum undirbúningi fyrir kvikmyndahlutverk.

    3. Nemandi öðlist hæfni til að:
    3.1 Beita markvissum og meðvituðum undirbúningi fyrir kvikmyndahlutverk.

Kennsluskrá

Deild 4 | Leiklist

Fyrsta misseri

  1. Nemendur fá grunnþekkingu á lögmálum hreyfingar og líkamlegrar tjáningar sem nýtist í listsköpun leikarans. Á námskeiðinu er lögð áhersla á líkamann sem tjáningartæki og unnið er að því að gera nemendur meðvitaða um líkama sinn og hreyfingar. Nemendur kanna margar ólíkar leiðir í dansi og hreyfingum til að tjá og túlka sögur, persónur, tilfinningar o.s.frv. Nemendur læra að aðlaga (umbreyta) hversdags hreyfingum í dans, hreyfa sig frjálst og í takt við tónlist í samræmi við eigin hreyfigetu. Þá er lögð áhersla á að nemendur læri markvissa upphitunartækni sem nýtist þeim í vinnu sinni og námi. Að auki er rætt við nemendur um mikilvægi þess að hugsa vel um það verkfæri þeirra sem líkaminn er, með reglulegri líkamsrækt, góðum svefni og hollu mataræði. Nemendur vinna undir stjórn kennara að sviðsverki þar sem líkamstjáning er í forgrunni sem sýnt er í lok námskeiðis

  2. Námskeiðið er tvískipt. Annar hlutinn „Texti“ (2 einingar) lýtur að raddbeitingu í töluðu máli og textameðferð. Hinn hlutinn „Söngur“ (2 einingar) lýtur að söng.

    Texti: Kennari/leiðbeinandi veitir nemendum innsýn í grunnþætti raddbeitingar og textameðferðar með öndunar- og upphitunaræfingum og þjálfar aðferðir sem kveikja líkamsvitund og ímyndunarafl nemenda. Unnið er að uppbyggingu raddarinnar með stuttum textum og ljóðum. Áhersla er lögð á að nemendur séu meðvitaðir um mikilvægi samspils raddar og líkamsbeitingar. Námskeiðinu lýkur með kynningu þar sem nemendur flytja stutta texta.

    Söngur: Nemendum eru kynnt undirstöðuatriði í „Complete Vocal Technique“ söngtækninni. Kenndar eru skjótar og hagnýtar úrlausnir sem virka strax á röddina. Á kynningu flytja nemendur 1–2 sönglög sem hæfa rödd þeirra, með undirleik.

  3. Námskeiðið er tvískipt. Leiktækni (4 einingar) og Leiktúlkun (4 einingar).

    Leiktækni: Námskeiðið snýst um tækni, þjálfun og sköpun leikarans. Til að byrja með verður því farið í atriði er lúta að leiktækni, sjálfu handverki leikarans. Leikarinn sjálfur og tjáningarmeðöl hans verða skoðuð, en unnið verður með textabrot og söngva úr ýmsum áttum. Þetta er “vinna leikarans með sjálfan sig”, (An Actors work on himself) með vísan í Stanislavski. Undirbúningsvinna (Pre-expressive work), byggð á „hinum síendurteknu lögmálum” (Recurrent Principles) eins og Eugenio Barba hefur sett þau fram. Áherslan verður fyrst um sinn á formið (tækni) fremur en innihaldið. Leitað verður fanga víða, t.d. í æfingum ferla Grotowskis og Barba, Biomechanik Meyerholds, Laban – tækni, View- point, Suzuki – þjálfun, Commedia dell´Arte o.fl. Nemendum verður síðan gert að nýta sér þá tækni sem þeir hafa tileinkað sér á skapandi hátt og verður þá unnið með ýmis konar spunatækni og samsetningar.

    Leiktúlkun: Nemendum eru kynntar aðferðir við greiningu leiktexta og sótt í smiðju Stanislavskis í þeim efnum; bæði hina „vitsmunlegu greiningu“ (Cognative Analyses), eða „vinnu við borð“ sem hann beitti á fyrri hluta ferils síns, og „aðferð líkamlegra gjörða“, sem hann þróaði undir lok ferils síns. Unnið verður með hugtök eins og; kafla, fléttu, undirtexta, forsendur, kringumstæður, ásetning, hindrun, líkamlega gjörð, innra líf (hugsun, tilfinningu), hvað „EF“, líkamlegt minni, tilfinninga minni, skynminni, innlifun, upplifun, o.fl. Unnið er með aðgengilegt leikverk sem hentar hópnum (ný – klassík).

  4. Nemendur vinna að hámarki 7 mínútna langa stuttmynd í hópavinnu með öðrum deildum þar sem nemendur leggja áherslu á sérsvið sinnar deildar. Markmiðið er að verkefnið sé fullunnið kvikmyndaverk af einhverju tagi. Áhersla er lögð á að nemandur vinni með eigin hugmyndir og byggi á þeirri reynslu í vinnslu kvikmynda sem þau hafa fengið í öðrum námskeiðum misserisins.

  5. Námskeiðið er byrjunarnámskeið á 1. misseri og markmið þess er að kenna nemendum grunnatriði í framleiðslu kvikmynda og meðhöndlun og notkun tækja- og tæknibúnaðar í kvikmyndagerð. Jafnframt er farið yfir grunnatriði myndmálsins. Námskeiðið er þrískipt: 1. Undirbúningur - Framleiðsla kvikmynda. 2. Tökustaður - Kvikmynda- og hljóðupptaka. 3 . Eftirvinnsla - Klipping og frágangur.

  6. Nemendur í öllum deildum þurfa á hverju misseri að skila 1 einingu í samstarfi við aðrar deildir. Markmiðið er að hver deild hafi aðgengi að öllum hinum og upp úr því þróist skapandi samband.

  7. Helstu kvikmyndir sögunnar kynntar, sýndar og ræddar. Sýndar eru tíu myndir á hverju misseri, alls 40 kvikmyndir. Hvert misseri er hugsað sem sneiðmynd af sögunni. Myndirnar eru sýndar að mestu í tímaröð og ná allt frá þögla tímabilinu og fram á seinni hluta tuttugustu aldar. Myndirnar eru kynntar með fyrirlestrum og nemendur taka þátt í umræðum um þær.

Annað misseri

  1. Námskeiðin eru kennd saman og nemendur 2. og 3. misseris sækja í sameiginlega tíma. Námskeiðin skiptast í tvær lotur þar sem kennd er sértæk hreyfilist og er nemendum ætlað að öðlast grunnhæfni á ólíkum sviðum sem öll snúast um að vinna með líkamann og hreyfingu hans. Í fyrri lotunni kynnast nemendur sirkuslistum og/eða fimleikum. Lögð er áhersla á hvernig leikarinn getur náð aukinni líkamlegri hæfni og líkamsvitund með sirkusáhöldum og hreyfingum og/eða með fimleikaæfingum. Nemendur læra einnig hvernig á að nýta sér einföld brögð í leiklist, þá bæði í leiksýningum og skemmtiatriðum. Farið verður yfir frægar leiksýningar sem hafa notað sirkus og/eða fimleika til árangurs (Vesturport, Peter Brook, Pippen og fleira). Í þessari lotu byggir nemandinn upp líkamlegt sjálfstraust og einbeitingu.

    Í seinni lotunni er lögð áhersla á að nemendur þjálfi liðleika og styrk líkamans, t.d. í gegnum jóga, en með jóga upphitun má einnig stilla samband líkama við öndun og skerpa einbeitingu. Þá er unnið með þær leiklistarkenningar sem snúa að þvi að tengja leiklist við hreyfingu, s.s. kenningar Jacques Le'Cock um sjö orkustig spennu („7 levels of tension") þar sem fléttast saman vinna með öndun, fókus, hraða og takt til að búa til persónur og aðstæður. Tilgangur lotunnar er að gera nemendur meðvitaða um það hvernig má nýta líkamann til að miðla innra lífi og segja sögu.

  2. Námskeiðið er tvískipt;

    Texti (2 einingar, 30 kennslustundir), lýtur að raddbeitingu í töluðu máli og textameðferð og Söngur (2 einingar, 30 kennslustundir sem lýtur að söng.

    Texti: Haldið er áfram að þjálfa rödd leikarans með öndunar- og raddæfingum og áhersla lögð á samhæfingu ólíkra þátta. Unnið er að uppbyggingu raddarinnar með líkamlegum æfingum og margvíslegum textum. Nemendur þróa, í samráði við kennara, eigið upphitunarkerfi sem tengir líkama, huga og rödd. Unnið er með texta úr leikbókmenntum og völdum atriðum úr kvikmyndum með áherslu á samhæfingu ólíkra þátta; andstæður slökunar og spennu. Rík áhersla er lögð á samþættingu raddar, huga og líkamstjáningar, og frumkvæði í vinnubrögðum. Námskeiðinu lýkur með kynningu þar sem nemendur flytja mismunandi texta.

    Söngur: Haldið er áfram að þjálfa söngrödd leikarans og tækni með „Complete Vocal Technique" aðferðinni. Áhersla er lögð á sjálfstæð, skapandi vinnubrögð nemenda með vali á ólíkum sönglögum sem byggja upp söngröddina og auka úthald og blæbrigði. Nemendur prófa ólíka hluti og eru hvattir til að ögra sjálfum sér í vali á sönglögum. Á kynningu flytja nemendur 1-2 sönglög með undirleik.

  3. Námskeiðið er tvískipt. Annar hlutinn, Tækni (2 einingar, 30 kennslustundir), lýtur að leiktækni. Hinn hlutinn, Túlkun (4 einingar, 60 kennslustundir), lýtur að leiktúlkun.

    Tækni: Þetta námskeið er beint framhald af Leiklist 1. Mikilvægi daglegrar þjálfunar er ítrekað og nemendur hvattir til að beita þeim leiktækniæfingum sem þeir hafa tileinkað sér á skapandi hátt. Ímyndunaraflið virkjað og ýmiskonar samsetningatækni þjálfuð. Frekari leiktækniaðferðum bætt í vopnabúrið (Brecht, Verfremdung) og unnið með þær á skapandi hátt. Leitað er innblásturs í súrrealisma, expressionisma og leikhúsi fáránleikans. Leikverk (eða textar, t.d. ljóð) af þeim meiði verður lagt til grundvallar vinnunni. Í lok námskeiðisins sýna nemendur afraksturinn í samsettri – „montage“ sýningu.

    Túlkun: Með þær aðferðir Stanislavskis í leiktúlkun og greiningu sem nemendur tileinkuðu sér í Leiklist 1 í farteskinu, halda þeir áfram að þróa sig sem leikara. Unnið verður með leikverk og valin atriði úr því sett undir smásjána, krufin og túlkuð. Nú með enn meiri áherslu á persónusköpun og andrúmsloft. Í því tilliti verður leitað í smiðju Michael Chechov, kenningar hans og aðferðir kynntar nemendum í skapandi vinnu með leikverkið. Í lok námskeiðs sýna nemendur fullæfð atriði úr verkinu í opnum tíma.

  4. Nemendur fá þjálfun í spuna gegnum ólíkar aðferðir, t.d. Haraldinn (The Harold), leikhússport og/eða ýmis afsprengi Commedia dell ´Arte. Námskeiðinu lýkur með spunasýningu.

  5. Námskeiðið er í samvinnu við Handrita- og Leikstjórnardeild í námskeiðinu HAN313G. Námskeiðinu er tvískipt; í fyrri hlutanum vinna nemendur ásamt handritshöfundum undir stjórn kennara í spunavinnu að söguþræði og persónusköpun. Höfundarnir skrifa síðan handrit og leikararnir máta textann á vinnsluskeiðinu. Höfundar ljúka síðan verkinu og kynna handrit í lok námskeiðs. Á síðari hluta námskeiðsins vinna nemendur með leikstjóra að uppsetningu verksins á leiksviði sem lýkur með sýningu.

  6. Námskeiðið er framhaldsnámskeið frá TÆK 106. Markmiðið er að styrkja enn frekar grunnþekkingu nemenda á helstu sviðum kvikmyndagerðar. Hver nemandi gerir síðan mynd sem á að sýna persónulegan stíl og færni nemanda á hans áhugasviði. Myndin á að geta staðið sem kynningarmynd um nemandann.

  7. Nemendur í öllum deildum þurfa á hverju misseri að skila 1 einingu í samstarfi við aðrar deildir. Markmiðið er að hver deild hafi aðgengi að öllum hinum og upp úr því þróist skapandi samband.

  8. Helstu kvikmyndir sögunnar kynntar, sýndar og ræddar. Sýndar eru tíu myndir á hverju misseri, alls 40 kvikmyndir. Hvert misseri er hugsað sem sneiðmynd af sögunni. Myndirnar eru sýndar að mestu í tímaröð og ná allt frá þögla tímabilinu og fram á seinni hluta tuttugustu aldar. Myndirnar eru kynntar með fyrirlestrum og nemendur taka þátt í umræðum um þær.

Þriðja misseri

  1. Námskeiðin eru kennd saman og nemendur 2. og 3. missera sækja sameiginlega tíma. Námskeiðin skiptast í tvær lotur þar sem kennd er sértæk hreyfilist, þar sem nemendum er ætlað að öðlast grunnhæfni á ólíkum sviðum sem öll snúast um að vinna með líkamann og hreyfingu hans.

    Í fyrri lotunni kynnast nemendur sviðsbardagalistum, bæði með og án vopna. Mikil áhersla er lögð á öryggi við æfingar og í framkvæmd bardagaatriða. Nemendur fá þjálfun í að leika bardagaatriði fyrir bæði myndavél og svið. Í seinni lotunni læra nemendur nokkra dansa frá mismunandi tímabilum sögunnar. Farið verður yfir hvernig klæðaburður, hefðir og samfélag hefur haft áhrif á líkamsburð og hegðun á mismunandi tímum. Áhersla er lögð á að nemendur læri að vinna með hreyfingar og texta samtímis og flytja fyrir áhorfendur.

  2. Námskeiðið snýst eingöngu um söng og er framhald af LEI206G (Söngur 2) þar sem haldið er áfram að þjálfa rödd leikarans og tækni með „Complete Vocal Technique“ aðferðinni. Litið er yfir farinn veg og rifjuð upp helstu tækniatriði. Nemendur setja sér markmið fyrir misserið og velja hvaða sönglög þau vilja vinna með og þróa fyrir lokatónleika undir handleiðslu söngkennara. Auk þess er unnið með leikstjóra/danshöfundi að sviðsetningu fyrir lokatónleikana, sem geta tekið á sig form söngleiks, kabaretts, revíu eða skemmtidagskrár, þar sem þess er gætt að allir fái hlutverk við hæfi.

  3. Námskeiðið lýtur að kvikmyndaleik og nemendum verða kynnt vinnubrögð innblásin af bandarísku „Aðferðinni“ (The Method, – Strassberg, Adler, Meisner) til mótvægis við evrópska nálgun (t.d. aðferðir Mike Leigh). Unnið verður með atriði úr kvikmyndahandritum, þær greindar, gerðar tilraunir með þær fyrir framan myndavélar, ólíkar leiðir að sama atriði kannaðar og afraksturinn skoðaður og ræddur jafnóðum.

  4. Nemendur kynnast samskiptum leikara og leikstjóra og fá innsýn í vinnubrögð ólíkra leikstjóra. Rík áhersla er lögð á einlægni og trúverðugleika í skapandi vinnu leikarans og samband leikarans og leikstjórans sérstaklega skoðað. Ítarlega er farið í skipulagt vinnuferli leikarans og hvaða verkfæri standa honum til boða á hverju stigi vinnunnar. Nemendur vinna og æfa með leikstjórnarnemum á 2. misseri í atriða vinnu, taka upp æfingarferlið og gera nákvæmar áætlanir um eigið vinnuferli í gegnum æfingar. Í lok námskeiðs er kynning á efni og verkferlinu.

  5. Leiklistarsagan frá sjónarhóli leikarans. Yfirlitsáfangi um sögu, hlutverk og áhrif leiklistar um víða veröld frá örófi alda og fram á okkar daga með megináherslu á vinnu og þjálfun, túlkun og tjáningu leikarans hverju sinni. Kennslan er jafnt fræðileg sem verkleg og fá nemendur því tækifæri til að spreyta sig á æfingum og lögmálum sem leikarar hafa þróað og tileinkað sér gegnum tíðina og glíma við ólíka leikstíla. Nemendur þurfa að lesa sér til um efnið og afla sér heimilda, skrifa stutta ritgerð og gera kynningarverkefni.

  6. Á námskeiðinu fá nemendur þjálfun í að undirbúa sig í leikaravinnu í tökum á kvikmynduðu efni, auk þess að fá æfingu í að vinna með leikstjóra á tökustað. Námskeiðinu er ætlað að búa nemendur undir vinnu sem leikarar í kvikmyndaverki. Nemendur undirbúa og æfa mismunandi senur sem eru svo teknar upp með atvinnuleikstjórum. Þannig fá nemendur innsýn og þjálfun í vinnu leikara á tökustað. Nemendur klippa saman senurnar á síðari hluta námskeiðisins.

  7. Fjallað er um allar helstu tegundir dagskrárgerðar í sjónvarpi; skemmtiþætti, viðtalsþætti, matreiðsluþætti, ferðaþætti, raunveruleikaþætti, getraunaþætti, barnaefni, fréttir, fréttaskýringaþætti, heimildarmyndir o.s.frv. Nemendum eru kynntar helstu forsendur sem liggja að baki dagskrárgerðar í sjónvarpi og samspili tegundar þátta, sýningartíma og markhóps. Þá verða „format“-þættir síðustu ára sérstaklega skoðaðir og reynt að átta sig á hvað liggur að baki því að hugmyndir verða alþjóðlegar. Nemendur vinna hugmyndavinnu að sjónvarpsþáttum og undirbúa, í samstarfi við 2. misseri í Leikstjórn og Framleiðslu, kynningarefni sem nýtist til að „selja“ fulltrúum íslenskra sjónvarpsstöðva hugmyndirnar.

  8. Fjallað er um myndmál og mynduppbyggingu með því að skoða og skilgreina atriði úr fjölbreyttri flóru kvikmynda frá ýmsum tímabilum. Nemendur gera einstaklingsverkefni sem felst í að lýsa tilfinningu og/eða andrúmslofti og skoða hvernig myndmálið hefur áhrif á framgang þess. Hámarkslengd verkefnisins eru tvær mínútur.

  9. Nemendur í öllum deildum þurfa á hverju misseri að skila 1 einingu í samstarfi við aðrar deildir. Markmiðið er að hver deild hafi aðgengi að öllum hinum og upp úr því þróist skapandi samband.

  10. Helstu kvikmyndir sögunnar kynntar, sýndar og ræddar. Sýndar eru tíu myndir á hverju misseri, alls 40 kvikmyndir. Hvert misseri er hugsað sem sneiðmynd af sögunni. Myndirnar eru sýndar að mestu í tímaröð og ná allt frá þögla tímabilinu og fram á seinni hluta tuttugustu aldar. Myndirnar eru kynntar með fyrirlestrum og nemendur taka þátt í umræðum um þær.

Fjórða misseri

  1. Námskeiðið er á lokamisseri og ætlast er til þess að nemendur nýti sér þá færni sem þeir hafa þroskað með sér í undangengnum áföngum. Nemendur vinna að gerð dansmyndar, þar sem áhersla er lögð á ferlið frá hugmynd að veruleika. Hér er líkaminn settur undir smásjána og birtingarmyndir líkamans í kvikmynduðu efni hafðar til hliðsjónar. Nemendur búa til verkefnamöppu þar sem haldið er utan um

    vinnuferlið en í henni á að vera hugmyndabanki (mood board) og tökuhandrit dansmyndar. Nemendur öðlast færni í að mynda og klippa myndefni þar sem dans/hreyfing er þungamiðja. Að námskeiði loknu á nemandi að hafa öðlast dýpri skilning á líkama sínum sem verkfæri til listsköpunar, sérstaklega í tengslum við myndmiðla.

  2. Nemendum kynnt vinna með hljóðnema og þeir fá tækifæri til að gera tilraunir með eigin rödd og upptökutækni. Þeir fá einnig þjálfun í talsetningu undir handleiðslu fagfólks. Þá vinnur nemandi í samvinnu við kennara að 3–5 mínútna langri kvikmynd (senu) þar sem leikið er á blæbrigði raddarinnar. Áhersla er lögð á vandaða hljóðupptöku og vinnslu. Verkefnum á námskeiðinu er ætlað að styðja við vinnu nemenda við lokamynd.

  3. Undirbúningur fyrir lokaverkefni. Sköpun, en einkum þó persónusköpun, verður í brennidepli. Byggt verður á þeim grunni sem nemendur fengu í Leiklist 3, en auk þess verða aðferðir Mike Leigh lagðar til grundvallar.

  4. Námskeiðinu er ætlað að undirbúa nemendur fyrir leiklistarstörf eftir að námi lýkur. Farið verður í gegnum ýmis praktísk atriði varðandi uppbyggingu ferilsins, svo sem gerð ferilskrár, framhalds- og endurmenntun, og hvaða tækifæri eru í boði. Nemendur fá þjálfun í undirbúningi og þátttöku í áheyrnarprufum (auditions) og aðstoð og leiðbeiningar við að vinna að stuttri kynningarmynd um sjálfa sig (show-real).

  5. Á námskeiðinu er fjallað um ýmis grundvallarlögmál hefðbundinnar handritsgerðar í kvikmyndagerð. Fjallað verður um uppbyggingu, form og stíl, samtöl, söguþráð og endi. Nemendur læra helstu grundvallaratriði í notkun á handritsforritum. Þeir nemendur sem áhuga hafa á að skrifa sjálfir handritið að lokaverkefni sínu á 4. misseri geta nýtt þetta námskeið til undirbúnings.

  6. Lokaverkefni á 4. misseri er sjálfstætt einstaklingsverkefni að eigin vali unnið í samráði við  leiðbeinanda. Hér er um að ræða kvikmyndaverk af einhverju tagi; að hámarki 15 mínútur  að lengd. Verkefnið er útskriftarverkefni nemanda og er mikil áhersla lögð á  vönduð vinnubrögð í öllum þáttum vinnslunnar enda er útskriftarmyndin lokapróf nemandans. 

    Nemandinn skal sjálfur hafa yfirumsjón með verkefninu og sinna hlutverki yfirframleiðanda. Nemandi skal vera í burðarhlutverki í verkinu ásamt að vera aðalhöfundur þess, það er að segja myndin byggi á hugmynd nemanda. Nemandi er hvattur til að fá með sér vel starfandi og faglegt framleiðslu- og tökuteymi  þar sem öllum þáttum framleiðslunnar eru gerð góð skil.

    Nemendur skulu gera grein fyrir undirbúning sínum að lágmarki 10 dögum fyrir áætlaðar tökur og metur skólinn hvort verkefið teljist hæft til framleiðslu á áætluðum tíma. Ef skólinn metur svo að verkefnið þarfnist meiri undirbúnings, skal nemandi fá tækifæri bæta undirbúning sinn áður en verkefni er frestað.

  7. Fjallað er um kvikmyndagerð nútímans. Hvaða stefnur og straumar hafa verið ríkjandi síðasta áratuginn, hvað er að gerast núna og hvert virðist stefna í nánustu framtíð. Á námskeiðinu er mikið lagt upp úr þátttöku nemenda í að rannsaka og finna svör við þessum spurningum. Nemendur vinna verkefni þar sem þeir fjalla um áhrifavalda í samtímanum.

  8. Nemendur í öllum deildum þurfa á hverju misseri að skila 1 einingu í samstarfi við aðrar deildir. Markmiðið er að hver deild hafi aðgengi að öllum hinum og upp úr því þróist skapandi samband.

  9. Helstu kvikmyndir sögunnar kynntar, sýndar og ræddar. Sýndar eru tíu myndir á hverju misseri, alls 40 kvikmyndir. Hvert misseri er hugsað sem sneiðmynd af sögunni. Myndirnar eru sýndar að mestu í tímaröð og ná allt frá þögla tímabilinu og fram á seinni hluta tuttugustu aldar. Myndirnar eru kynntar með fyrirlestrum og nemendur taka þátt í umræðum um þær.

  10. Námskeiðinu er ætlað að undirbúa nemendur fyrir þátttöku á atvinnumarkaði. Fjallað er um stofnun fyrirtækja, helstu starfssamninga og skyldur sem þeim fylgja fyrir verktaka. Farið er yfir opinber gjöld sem standa þarf skil á; s.s. virðisaukaskatti, lífeyrissjóðsgjöld, félagsgjöld og tryggingagjöld. Nemendur vinna að styrktarumsókn til Kvikmyndastöðvar Íslands með kostnaðaráætlun.

Nemendur skrifa...

Vivian Ólafsdóttir

,,Árin mín í Kvikmyndaskólanum voru mér bæði dýrmæt og góð. Ég þroskaðist fullt sem manneskja og listamaður, kynntist mikið af góðu og mjög hæfileikaríku fólki, bæði nemendum og kennurum. Ég kynntist líka eiginmanni mínum í Kvikmyndaskólanum þannig að mér þykir alveg aukalega vænt um hann og árin mín þar.

Ég hafði áhuga á leiklist en líka kvikmyndagerð og þess vegna valdi ég Kvikmyndaskólann. Ég útskrifaðist af Leiklistardeild árið 2012 og hef leikið í allskonar auglýsingum, stutt-, tónlistar-, og bíómyndum síðan þá. Einnig skrifaði ég og setti upp söngleik með unglingadeild Mosfellsbæjar árið 2013 þar sem að við blönduðum kvikmyndagerð við. Ég hef líka leikstýrt og klippt tónlistarmyndband, en mér finnst líka alveg rosa gaman að vera á bak við kameruna og leikstýra. Leiklist nýtist í allt, mér finnst persónulega að það ætti að vera kennt í skólum, t.d. á seinasta ári í framhaldskóla, þvílík gjöf inn í framtíðina! Það að kunna að brjótast úr sínum eigin kassa, ekki vera of meðvitaður um sjálfan sig og kunna að koma fram (svo eitthvað sé nefnt) eru mjög góð og í raun mikilvæg tól að hafa í lífinu. Leiklist er líkamleg og andleg og hafa margar æfingar frá skólanum orðið að daglegum hlut í mínu lífi og er ég mjög þakklát fyrir það, því þetta eru æfingar sem veita meiri vellíðan og gott ef þær lengja ekki lífið.

Ég nota leiklist á hverjum degi þó ég sé ekki að “leika”. Í dag er ég í Heilsumeistaraskólanum og sé fram á að vinna við heilsu og leiklist, það passar mjög vel saman og eru margir möguleikar i því. Námið í Kvikmyndaskólanum er gjöf sem ég gaf sjálfri mér og hefur hún margfalt borgað sig. Mig hefur langað að skrá mig í hann aftur og prófa aðra deild, en ég er á góðum stað í bili. Ég mæli heilshugar með Kvikmyndaskólanum."

- Vivian Ólafsdóttir
Leikkona - Leynilöggan (Eddu tilnefning) | Vitjanir | Svörtu sandar

Anna Hafþórsdóttir

,,Árin mín í Kvikmyndaskólanum voru yndisleg. Það fyrsta sem kemur upp í hugann er hvað ég skemmti mér vel og hvað ég kynntist mikið af skemmtilegu fólki. Þarna innan veggja skólans fékk ég að prufa mig áfram sem listamaður, fara út fyrir þægindarammann og víkka sjóndeildarhringinn. Það var stundum erfitt og tók á, því námið er krefjandi, en mér fannst það allt þess virði því það sem ég fékk út úr þessu er í raun ólýsanlegt.

Það er fátt meira gefandi en að elta drauminn sinn og fá að læra meira og skilja meira á því sviði sem maður hefur brennandi áhuga á. Næstum öll verkefni sem ég fékk fyrst eftir útskrift voru í gegnum sambönd sem ég myndaði innan skólans. Svo heldur maður bara áfram, kynnist fleira fólki í kvikmyndabransanum og reynir að troða sér áfram. Þetta er alveg ágætlega mikið hark.

Leiktæknina sem ég lærði í kvikmyndaskólanum nota ég alltaf. Ég lærði að búa mér til “verkfærakistu” sem hjálpar mér að undirbúa mig undir hlutverk. Öll leiktækni og undirbúningur er eitthvað sem ég tók með mér úr náminu og hef verið að nota og prófa mig áfram með í öllu sem ég geri. Ég mæli með leiklistarbrautinni í Kvikmyndaskólanum. Ég fékk mikið út úr þessu námi, bæði sem listamaður og sem einstaklingur. Þetta nám einblínir auðvitað meira á kvikmyndaleik, þannig að áherslurnar eru þannig. En mér fannst kennslan góð og námið krefjandi og virkilega skemmtilegt."

- Anna Hafþórsdóttir
Leikkona - Webcam | Snjór og Salóme

Ylfa Marín Haraldsdóttir

,,Mig langađi ađ læra í skapandi og lifandi umhverfi en vissi ekki alveg að hverju ég var ađ leita ađ. Þegar eg sá síđan auglýsingu frá skólanum áttađi ég mig á því ađ kvikmyndagerđ sameinar nánast allt sem ég hef áhuga á. Ég sá tækifæri í náminu og það átti heldur betur eftir að sannreynast. Þađ sem kom mér hvađ mest á óvart varđandi námiđ var hvađ ég lærđi mikiđ inná sjálfa mig sem listamann. Námiđ gaf mér tækifæri til þess ađ prufa mig áfram og gera tilraunir sem stækkađi sjóndeildarhringinn, sumt gekk upp og annað bara alls ekki en það er eitthvað alveg ómetanlegt við það að fá að læra af mistökum sínum í öruggu umhverfi skólans.

Ég hef verið að leika og starfa í kvikmyndagerð frá því ég útskrifaðist, fór til dæmis með aðalhlutverk í kvikmyndinni Hvernig á að vera klassa drusla. Einnig hef ég fengið spennandi verkefni fyrir aftan cameru eins og búningahönnun, framkvæmdastýra kvikmynda, unnið við talsetningar og ýmislegt annað skemmtilegt. Nú er ég svo lánsöm að fá mína frumraun í að vera með í skrif teymi fyrir nýja þáttaseríu sem er í vinnslu."

- Ylfa Marín Haraldsdóttir, útskrifuð 2018

Leikkona - Hvernig á að vera klassa drusla | Veiðiferðin

Bolli Már Bjarnason

,,Ég hafði áhuga á að læra kvikmyndaleik. Hafði heyrt um skólann frá vini mínum og ákvað að taka skrefið og sækja um. Fór soldið blint inn í þetta. Námið var mjög metnaðarfullt fannst mér, kennarar góðir og áfangarnir krefjandi en skemmtilegir. Samvinnuáfangarnir á milli deilda er algjör lykill fyrir verkefni framtíðarinnar. Ég hef verið að vinna á auglýsingastofunni Pipar\TBWA, leikið í þáttum og auglýsingum ásamt því að búa til sjónvarpsþátt sjálfur. Er sjálfstætt starfandi núna í hinum ýmsu verkefnum og margt spennandi á teikniborðinu."

- Bolli Már Bjarnason, útskrifaður 2015
Leikari og kvikmyndagerðarmaður

Hekla Sólveig Gísladóttir

,,Ég ákvað að sækja um þegar ég sá link á heimasíðuna og fannst þetta mjög spennandi og flottur skóli. Það sem kom mér mest á óvart við námið var hvað ég lærði mikið inn á öll svið. Ég get reddað mer í öllum hlutverkum á setti og í eftirvinnslu því við lærðum grunninn í öllu. Eftir útskrift hef ég verið að mæta í prufur og tekið að mér lítil verkefni og verið að taka endurmenntunar námskeið í hljóði í Kvikmyndaskólanum til þess að bæta við mig."

- Hekla Sólveig Gísladóttir, útskrifuð 2020
Leikkona

Hildur Sigurðardóttir


,,Mig langaði í leiklistarnám sem var með áherslu á leik fyrir kvikmyndir og kvikmyndagerð yfir höfuð líka, þar sem ég hef alltaf haft áhuga á því. Ég kynnti mér námið og það höfðaði vel til mín. Ég var búin að leita lengi eftir skóla sem kenndi leiklist með áherslu á leik fyrir kvikmyndir/sjónvarp og Kvikmyndaskólinn er eini skólinn sinnar tegundar hér þannig ég ákvað að sækja um.

Námið var frábært í alla staði. Ég kynntist frábæru fólki, mikið að fólki sem ég get kallað bestu vini mína í dag, og einnig gott tengslanet sem er mjög dýrmætt í þessum bransa. Mér fannst mjög gott hvernig ég fékk að kynnast öllum hliðum á leiklistinni, við snertum á mörgum leiktækni aðferðum, hvernig það er að leika fyrir framan myndavél og einnig á sviði. Hvernig við getum unnið með röddina okkar á mismunandi vegu, bæði í töluðu máli og í söng. Það sem kom mér mest á óvart var hvað ég lærði mikið um sjálfa mig og hvernig ég lærði að vera meira sjálfstæð, bæði í náminu og í lífinu almennt. Einnig hvað ég lærði mikið um allar hliðar á hvað það er að búa til kvikmynd, ekki bara leiklistina sem mér finnst mjög dýrmætt.

Haustið eftir að ég útskrifaðist fór ég að vinna hjá Kvikmyndaskólanum, sem var mjög góð reynsla, þannig fékk ég að kynnast betur þeim kennurum sem voru á kenna á öðrum sviðum og það gaf mér líka tækifæri að fóta mig aðeins í bransanum. Síðan langaði mig að breyta um umhverfi og læra meira og prófa eitthvað nýtt og ákvað að flytja til Berlínar til að fara í áframhaldandi nám í leiklist fyrir kvikmyndir. Núna er ég að klára fyrsta árið mitt hér, búin að búa hér í næstum ár og mér finnst menntunin sem ég fékk í Kvikmyndaskólanum hafa gefið mér mikið og ég væri líklega ekki þar sem ég er í dag ef ég hefði ekki sótt um í Kvikmyndaskólanum."

- Hildur Sigurðardóttir, útskrifuð 2020
Leikkona