Handrit & Leikstjórn

Fyrir þá sem vilja fylgja eigin hugmyndum alla leið

H
andrit / Leikstjórn er fyrir þá sem vilja vera höfundar að kvikmyndum sínum, skrifa handritið og leikstýra líka. Í þessu 120 eininga diplómunámi (2 ár) skrifa nemendur handrit að ýmsum tegundum kvikmynda sem þeir leikstýra og fullvinna. Auk þess skrifa þeir handrit að bíómynd í fullri lengd. Deildin hefur notið mikilla vinsælda og fjölmargir öflugir kvikmyndagerðarmenn hafa útskrifast frá henni.

Markmið námsins er að við útskrift hafi nemandinn öðlast góðan skilning á grundvallarlögmálum kvikmyndagerðar og sé fær um að vinna sjálfstætt að eigin kvikmyndaverkum, sem leikstjóri, handritshöfundur eða hvort tveggja. Sóst er eftir nemendum með listræna sýn og mikinn metnað.

Kynntu þér námskeiðin í námskrá.

Fagstjórar í Handrit & Leikstjórn

Gunnar_400x380_fagstjorar Gunnar B. Guðmundsson

Fagstjóri Handrita í Fullri Lengd
er leikstjóri og handritshöfnundur. Hefur unnið jöfnum höndum í kvikmyndum, sjónvarpi og leikhúsi. Hann hefur gert bíómyndirnar Astrópíu 2007 og Gauragang 2010 og fjölda stuttmynda eins og Karamellumyndina 2003 og Á blindflugi 1997. Hann skrifaði og leikstýrði áramótaskaupi sjónvarpssins fjórum sinnum árin 2009-2012. Gunnar Björn hefur leikstýrt 27 leiksýnungum og leikstýrði fjórðu seríu af Ævari Vísindamanni.
otto_400x380_fagstjorar Ottó Geir Borg

Fagstjóri Tegundir Handrita
hefur unnið við handritsskrif, ráðgjöf og kennslu undanfarin 20 ár. Hann hefur komið víða við í sjónvarpi og í kvikmyndum. Fyrsta kvikmynd eftir handriti hans, Astrópía, var vinsælasta kvikmynd ársins 2007 og nú nýverið kom Ég Man Þig á hvíta tjaldið og hefur sú mynd hlotið frábærar viðtökur.
Hilmar-Oddsson_400x380_fagstjorar
Hilmar Oddsson

Fagstjóri leikstjórnar
lærði kvikmyndgerð við Hochschule für Fernsehehen und Film í München í Þýskalandi. Hann frumsýndi sína fyrstu bíómynd 1986 og síðan hefur Hilmar gert 5 bíómyndir, 5 sjónvarpsmyndir og 5 stuttmyndir og yfir 25 tónlistarmyndbönd. Hann hefur gert fjölda heimildarmynda og yfir hundrað sjónvarpsþætti. Þar að auki hefur hann leikstýrt og stjórnað upptökum á tveimur “sitcom” seríum og leikstýrt auglýsingum og allra handa fræðsluefni. Hilmar hefur fjallað um kvikmyndir í sjónvarpi og eftir hann liggur fjöldi greina um kvikmyndatengd málefni. Hilmar hefur kennt kvikmyndagerð og kvikmyndaleik í tvo áratugi, m.a. við Listaháskóla Íslands og Kvikmyndaskóla Íslands, sem hann veitti forstöðu 2010 til 2017.
Námskeið
Leikin bíómynd 1 | BÍÓ 103

Á námskeiðinu vinna nemendur í ritsmiðju undir handleiðslu kennara að þróun hugmyndar að leikinni kvikmynd í fullri lengd. Einnig er farið í uppbyggingu handrita og nemendur vinna og skila 8–10 bls sögulýsingu.

Leikstjórn 1 | LST 103

Fjallað er um hlutverk og stöðu kvikmyndaleikstjórans sem handleiðslu- og samstarfsmanns leikara; samband hans og leikarans, á hverju það samband byggir og hvernig líklegast er að það beri sem mestan árangur. Unnið er í grunnþáttum þjálfunar þar sem nemendur kynnast tækniþjálfun leikarastarfsins, æfingum og aðferðum til að byggja á persónusköpun, innra líf og hvernig það tekur á sig form í gerðum og hegðun persóna.

Lög og reglur | LOR 104

Námskeiðið er byrjunaráfangi á 1. önn þar sem fjallað er um grundvallarlögmál dramatískrar frásagnar og þau rakin allt til Aristótelesar. Kynntar eru helstu kenningar og bækur um handritsgerð auk þess sem nemendur læra uppsetningu handrita. Þá vinna nemendur í ritsmiðju undir handleiðslu kennara þar sem unnið er með hugmynd að stuttmynd og hún þróuð í 7 blaðsíðna handrit. Síðan er gerð mynd eftir handritinu á námskeiðinu LOH 106 sem er síðar á önninni.

Teg. leikins sjónvarpsefnis | TLS 102

Á námskeiðinu er fjallað um nokkrar „staðlaðar“ tegundir leikins sjónvarpsefnis; gamanefni, sakamálaþætti, fjölskyldudrama o.s.frv. Nemendur vinna í hópi undir handleiðslu kennara að slíku efni í svokölluðu höfundaherbergi („writer’s room“) en þannig fá nemendur innsýn í dramatúrgíu, uppbyggingu, persónusköpun og formgerð þáttaraða. Námskeiðið er undanfari LSÞ 104 á 2. önn, þar sem nemendur skrifa handrit að kynningarþætti („pilot“) fyrir leikna sjónvarpsseríu.

Myndræn frásögn 1 | MFA 102

Í þessu námskeiði er eðli og gerð myndmálsins rannsakað. Mynddæmi eru greind og skoðað er hvaða merkingu má leggja í myndstærðir, sjónarhorn, samsetningu myndskeiða, tákn og skilaboð. Námskeiðið er einnig verklegt þar sem nemendum gefst m.a. tækifæri til að útfæra eigin senur. Auk þess verður farið í undirbúningsferli leikstjórans fyrir tökur, m.a. við gerð skotlista.

Lokaverkefni 1 | LOH 106

Nemandi gerir leikna stuttmynd upp úr handriti sem unnið er í námskeiðinu LOR 104. Áhersla er lögð á að nemendur fái reynslu af að leikstýra eigin hugverki og öðlist tilfinningu fyrir kvikmyndinni sem frásagnarmiðli.

Tæki og tækni 1 | TÆK 106

Námskeiðið er byrjunarnámskeið á 1. önn og markmið þess er að kenna nemendum grunnatriði í framleiðslu kvikmynda og meðhöndlun og notkun tækja- og tæknibúnaðar í kvikmyndagerð. Jafnframt er farið yfir grunnatriði myndmálsins.

Samstarf milli deilda | SAM 102

Nemendur í öllum deildum þurfa á hverri önn að skila 1 einingu í samstarfi við aðrar deildir. Markmiðið er að hver deild hafi aðgengi að öllum hinum og upp úr því þróist skapandi samband.

Kvikmyndasaga 1 | KMS 102

Helstu kvikmyndir sögunnar kynntar, sýndar og ræddar. Sýndar eru tíu myndir á hverri önn, alls 40 kvikmyndir. Hver önn er hugsuð sem sneiðmynd af sögunni. Myndirnar eru sýndar að mestu í tímaröð og ná allt frá þögla tímabilinu og fram á seinni hluta tuttugustu aldar.

Leikin bíómynd 2 | BÍÓ 202

Námskeiðið er framhaldsáfangi á 2. önn sem miðar að því að nemendur þrói hugmynd að leikinni bíómynd í fullri lengd sem nýtist BÍÓ 306. Takmarkið er að nemendur skili af sér 4–6 blaðsíðna útdrætti, í kjölfarið á ítarlegri undirbúningsvinnu á uppbyggingu sögunnar, karaktersköpun og frásagnaraðferð.

Leikstjórn 2 | LST 205

Haldið er áfram að fara yfir helstu grunnþætti kvikmyndaleikstjórnar með sérstakri áherslu á vinnu með leikurum. Námskeiðið er aðallega verklegt og eru ýmsar aðferðir, tól og tæki kynnt fyrir nemendum sem geta nýst þeim við slíka vinnu. Nemendur læra að gera ítarlegar áætlanir um eigið vinnuferli í gegnum æfingar með bæði leikaranemum og atvinnuleikurum.

Leikinn sjónvarpsþáttur | LSÞ 104

Á námskeiðinu er haldið áfram með verkefni nemanda úr áfanganum TLS 102. Nemendur skrifa drög að „pilot“ að leikinni sjónvarpsseríu eftir sinni eigin hugmynd. Nemendur vinna undir handleiðslu kennara og sameiginlega í svokölluðu höfundarherbergi.

Heimildarmyndir | HEH 102

Fjallað er um hin mörgu og ólíku form heimildarmynda, uppruna og sögu. Sérstök áhersla er lögð á að rannsaka mismunandi aðferðafræði við meðhöndlun viðfangsefna. Fjallað er um hugmynda- og handritsvinnu, val á aðferðum við upptökur og eftirvinnsluferlið. Nemendur þurfa að koma með hugmynd að heimildarmynd, vinna rannsóknarvinnu og skrifa handrit að stuttri heimildarmynd. Myndin er síðan framleidd á önninni á námskeiðinu LOH 206.

Listasaga 1 | LIS 102

Yfirlitsáfangi með áherslu á tengsl kvikmynda og myndlistar. Hvað geta kvikmyndir lært af myndlistinni? Einkenni ýmissa myndlistartímabila eru skoðuð. Dæmi eru tekin úr kvikmyndasögunni sem sýna náin tengsl kvikmynda við ákveðin myndverk eða myndlistarmenn, og hvernig myndlist hefur nýst kvikmyndagerðarmönnum og orðið þeim innblástur fyrir kvikmyndaverk.

Lokaverkefni 2 | LOH 206

Nemandi gerir heimildarmynd sem unnin er eftir handriti sem gert var á námskeiðinu HEH 102 fyrr á önninni.

Tæki og tækni 2 | TÆK 204

Námskeiðið er framhaldsnámskeið frá TÆK 106. Markmiðið er að styrkja enn frekar grunnþekkingu nemenda á helstu sviðum kvikmyndagerðar. Hver nemandi gerir síðan mynd sem á að sýna persónulegan stíl og færni nemanda á hans áhugasviði. Myndin á að geta staðið sem kynningarmynd um nemandann.

Samstarf milli deilda | SAM 203

Nemendur í öllum deildum þurfa á hverri önn að skila 1 einingu í samstarfi við aðrar deildir. Markmiðið er að hver deild hafi aðgengi að öllum hinum og upp úr því þróist skapandi samband.

Kvikmyndasaga 2 | KMS 202

Helstu kvikmyndir sögunnar kynntar, sýndar og ræddar. Sýndar eru tíu myndir á hverri önn, alls 40 kvikmyndir. Hver önn er hugsuð sem sneiðmynd af sögunni. Myndirnar eru sýndar að mestu í tímaröð og ná allt frá þögla tímabilinu og fram á seinni hluta tuttugustu aldar.

Leikin bíómynd 3 | BÍÓ 307

Á námskeiðinu umbreytir nemandinn sögulýsingu sinni úr BÍÓ 202 í kvikmyndahandrit í fullri lengd (85–100 blaðsíður).

Leikstjórn 3 | LST 303

Haldið er áfram með þá vinnu sem lögð hefur verið til grundvallar í fyrri leikstjórnaráföngum. Nemendur þróa áfram eigin aðferðir við vinnu með leikurum auk þess sem kynntar eru helstu stefnur í kvikmyndaleik og leikaraleikstjórn. Verkefni námskeiðsins felst í að æfa senur úr kvikmyndahandritum, leikstýra leikurum í gegnum senurnar og taka þær upp. Þar er samspil leikara og myndavélar skoðað og kynnt hvaða lögmál gilda um stöður, sjónlínur og hvaða áhrif staðsetning myndavélar hefur á leik og hreyfingu leikara. Fjallað er um aðra lykilþætti kvikmyndaleikstjórnar, eins og samstarf við tökumann og annað náið samstarfsfólk.

Leikrit/Svið | SVI 103

Námskeiðið er leiksmiðja sem haldin er í samvinnu við leiklistarbraut. Handritshöfundar þróa texta sem fyrst verða til í gegnum spunavinnu með leikurum undir handleiðslu leiðbeinanda. Höfundarnir skila svo af sér fullkláruðu handriti sem leiklistardeildin setur upp sem lokaverkefni.

Aðlögun| AÐL 102

Fjallað er um aðlögun áður útgefins prentefnis að kvikmyndaforminu. Fjallað er ítarlega um þann eðlismun sem er á milli bóka og kvikmynda sem taka verður tillit til og þekkja þegar handrit eru unnin upp úr bókum. Fjölmörg dæmi um aðlögun eru metin og greind og sérstaklega verður aðlögun í íslenskri kvikmyndasögu skoðuð. Nemendur þurfa að vinna verkefni og auk þess að skrifa 7–10 bls. handrit sem byggt er á áður útgefnum texta. Nemendur gera síðan mynd eftir handritinu síðar á önninni í LOH 306.

Lokaverkefni 3 | LOH 306

Nemendur vinna stuttmynd sem unnin er eftir handriti sem gert var á námskeiðinu AÐL 102 fyrr á önninni.

Myndmál og meðferð þess | MYN 104

Fjallað er um myndmál og myndbyggingu með því að skoða og skilgreina atriði úr kvikmyndum frá ýmsum tímum. Í samráði við leiðbeinendur sviðsetja nemendur senu úr kvikmynd og skoða hvernig myndmálið hefur áhrif á framgang hennar og upplifun áhorfandans á henni.

Samstarf milli deilda | SAM 303

Nemendur í öllum deildum þurfa á hverri önn að skila 1 einingu í samstarfi við aðrar deildir. Markmiðið er að hver deild hafi aðgengi að öllum hinum og upp úr því þróist skapandi samband.

Kvikmyndasaga 3 | KMS 302

Helstu kvikmyndir sögunnar kynntar, sýndar og ræddar. Sýndar eru tíu myndir á hverri önn, alls 40 kvikmyndir. Hver önn er hugsuð sem sneiðmynd af sögunni. Myndirnar eru sýndar að mestu í tímaröð og ná allt frá þögla tímabilinu og fram á seinni hluta tuttugustu aldar.

Leikin bíómynd 4 | BÍÓ 405

Á námskeiðinu vinnur nemandinn í samvinnu við leiðbeinanda að endurskrifum á fyrstu drögum að handritinu úr BÍÓ 308.

Leikstjórn 4 | LST 404

Námskeiðið er tengt lokaverkefni annarinnar þar sem sameiginlega er farið yfir leikstjórnarlegar útfærslur á hverju verkefni fyrir sig og þær skoðaðar jafnt út frá handriti og persónulegri afstöðu leikstjórans. Ætlast er til að nemendur nýti sér þær aðferðir sem þeir hafa lært og þróað varðandi vinnu með leikara og myndræna frásögn.

Hugmyndir 2 | HUG 202

Nemanda er kynnt námið sem fram undan er. Hugur hans er opnaður gagnvart frumlegum lausnum í heimi kvikmyndanna. Einnig er nemanda kennt að halda utan um hugmyndir sínar. Í seinna námskeiðinu er unnin undirbúningsvinna að handriti lokaverkefni annarinnar.

Valfag | VAL 102

Deildarforseti velur námskeið á sviði þar sem hann telur að nemendur sína vanti viðbótarþekkingu, t.d. myndatöku, klippingu, framleiðslu eða hljóðvinnslu. Þetta gerir hann í samráði við nemendur í byrjun annar.

Framleiðsla | FRH 102

Fjallað er um stöðu og hlutverk framleiðandans og mismunandi starfssvið hans. Fjallað er ítarlega um feril kvikmyndaverka frá hugmynd til lokadreifingar og hlutverk framleiðandans og framleiðslustjórans á hinum ýmsu framleiðslustigum. Kynntar eru helstu fjámögnunarleiðir kvikmynda og helstu samningar. Þá er einnig farið í grunnatriði höfundarréttar. Námskeiðið tengist vinnu við útskriftarverkefni LOH 408.

Lokaverkefni 4 | LOH 408

Um er að ræða einstaklingsverkefni þar sem nemandi skrifar handrit og leikstýrir 8 til 12 mínútna langri stuttmynd. Verkefnið er jafnframt útskriftarverkefni nemanda og er mikil áhersla lögð á vönduð vinnubrögð í öllum þáttum vinnslunnar. Nemandinn skal sjálfur hafa yfirumsjón með verkefninu og sinna hlutverki leikstjóra og handritshöfundar, en er hvattur til að fá með sér vel starfandi og faglegt framleiðslu- og tökuteymi þar sem öllum þáttum framleiðslunnar eru gerð góð skil. Nemendur vinna undir stjórn leiðbeinanda.

Samtíminn | SAT 102

Fjallað er um kvikmyndagerð nútímans. Hvaða stefnur og straumar hafa verið ríkjandi síðasta áratuginn, hvað er að gerast núna og hvert virðist stefna í nánustu framtíð. Á námskeiðinu er mikið lagt upp úr þátttöku nemenda í að rannsaka og finna svör við þessum spurningum. Hver og einn þeirra þarf að halda kynningu með myndsýnishornum, þar sem þeir fjalla um áhrifavalda í samtímanum.

Samstarf milli deilda | SAM 401

Nemendur í öllum deildum þurfa á hverri önn að skila 1 einingu í samstarfi við aðrar deildir. Markmiðið er að hver deild hafi aðgengi að öllum hinum og upp úr því þróist skapandi samband.

Kvikmyndasaga 4 | KMS 402

Helstu kvikmyndir sögunnar kynntar, sýndar og ræddar. Sýndar eru tíu myndir á hverri önn, alls 40 kvikmyndir. Hver önn er hugsuð sem sneiðmynd af sögunni. Myndirnar eru sýndar að mestu í tímaröð og ná allt frá þögla tímabilinu og fram á seinni hluta tuttugustu aldar.

Samningar og kjör | VER 102

Námskeiðinu er ætlað að undirbúa nemendur fyrir þáttöku á atvinnumarkaði. Fjallað er um stofnun fyrirtækja, helstu starfssamninga og skyldur sem þeim fylgja fyrir verktaka og verkkaupa, eða launþega og vinnuveitanda. Farið er yfir opinber gjöld sem standa þarf skil á s.s. virðisaukaskatt, lífeyrissjóðsgjöld, félagsgjöld o.s.fv. Nemendur vinna í hópum, og þróa sínar eigin viðskiptahugmyndir og vinna viðskiptaáætlanir. Á námskeiðinu verður einnig farið í verkefnastjórn, áætlanagerð og styrkumsóknir í samkeppnissjóði. Sérstaklega verða tekin fyrir dæmi úr myndmiðlaiðnaðinum á Íslandi.

Umsagnir nemenda

Tími minn í Kvikmyndaskólanum var æðislegur. Lærði af færasta fólkinu í bransanum og myndaði ómetanleg tengsl við fólk sem ég vinn með í dag. Núna er ég m.a að vinna í fyrstu heimildarmynd minni í fullri lengd með styrk frá Kvikmyndamiðstöð. Er einnig með tvær stuttmyndir á hátíðarrúnti um heiminn. Ein þeirra er útskriftamynd mín úr skólanum, Smástirni sem hefur m.a verið sýnd á Sarasota film festival, Citizen Jane o.fl.

​​Lovísa Lára Halldórsdóttir, Útskrifaðist vorið 2014
Árin í Kvikmyndaskólanum voru frábær. Þar sem ber hæst er tvennt. Annars vegar fékk ég að kynnast hvernig reynslumiklir handritshöfundar og leikstjórar, sem kenndu við skólann, nálgast sitt fag og ættleiddi ég samstundis þær aðferðir sem ég vissi að myndu bæta mig sem kvikmyndagerðarmann. Og hins vegar kynntist maður krökkum sem ætluðu sér langt í kvikmyndagerð og voru tilbúin að slást í för með mér að gera bíómynd í fullri lengd, Albatross sem var sýnd í kvikmyndahúsum um allt land núna fyrr árinu, en mannskapurinn sem kom að henni var mest allur árgangssystkini mín. Eftir skóla hef ég skrifað nokkur handrit og eitt þeirra komst í gegnum handritastyrksþrepin hjá Kvikmyndasjóði. Nú þegar er hafið ferli að reyna að fjármagna þá mynd sem er í fullri lengd. Á milli handrita hef ég unnið hin ýmsu störf á kvikmyndasetti til að eiga fyrir leigunni og má þar nefna Þresti eftir Rúnar Rúnars og svo Ég Man Þig eftir Óskar Axels.
Snævar Sölvi Sölvason, Útskrifaður vorið 2014