Leiklist

Sérhæfð kennsla í kvikmyndaleik

A
lvöru leiklistarnám í kvikmyndaleik og sviðslistum. Í þessu 120 eininga diplómunámi (2 ár) öðlast nemendur klassískan grunn í leiklist auk kennslu í kvikmyndagerð. Undir leiðsögn starfandi fagfólks í leiklist, söng og dansi fá nemendur trausta menntun og hæfni til að koma sér á framfæri. Einstök deild í íslensku menntakerfi.

Mikil áhersla er lögð á líkamsbeitingu, raddþjálfun, söng og líkamsmeðvitund til að finna styrkleika hvers og eins. Nemendur leika í kvikmyndum og öðrum myndmiðlum undir leiðsögn skapandi listamanna úr röðum leikara, leikstjóra, söngvara, dansara og kvikmyndagerðamanna sem tengja nemendur við listasamfélagið á Íslandi.

Nemendur nema listsköpun leikarans og læra jafnframt undirstöðuatriði kvikmyndagerðar, handritsgerðar, framleiðslu, kvikmyndatöku, hljóðvinnu, klipps og eftirvinnslu.

Kynntu þér námskeiðin í námskrá.

Fagstjórar í leiklist

kolbrun_400x380_fagstjorar Kolbrún Anna Björnsdóttir

Fagstjóri Leiks & Hreyfingar
lauk B.A.-hons. gráðu í leiklist frá Royal Welsh College of Music and Drama árið 1998 og hefur unnið sem sjálfstætt starfandi listamaður á fjölbreyttum vettvangi síðan. Kolbrún lauk kennaramenntun frá Kennaraháskóla Íslands árið 2006 og hefur kennslureynslu á öllum skólastigum, frá leikskóla- til háskólastigs. Þá lauk hún meistaranámi í hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands árið 2013.
runar_400x380_fagstjorar
Rúnar Guðbrandsson

Fagstjóri Leiklistar
nam upphaflega leiklist í Danmörku og starfaði þar um árabil sem leikari með ýmsum leikhópum. Frekari menntun hefur hann sótt m.a. til Póllands og Rússlands. Rúnar lauk MA og MPhil gráðum í leikhúsfræðum og leikstjórn frá De Montfort háskólanum í Leicester í Englandi og hefur lokið fyrri hluta doktorsnáms í fræðunum.Hann var fyrsti prófessor í leiktúlkun við Listaháskóla Íslands. Rúnar hefur samið og leikstýrt fjölda leiksýninga hérlendis og erlendis og fengist við leiklistarkennlsu og þjálfun leikara víða í Evrópu. Hann hefur auk þess leikið í fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta.
thorey_400x380_fagstjorar
Þórey Sigþórsdóttir

Fagstjóri Leik & Raddar
hefur unnið sem leikkona og leikstjóri á sviði og í kvikmyndum frá því hún útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands 1991. Þórey útskrifaðist með kennsluréttindi frá Lhí árið 2004, MA gráðu í Advanced Theatre Practice frá The Royal Central School of Speech and Drama 2012 og MA gráðu í Hagnýtri Menningarmiðlun frá HÍ 2014. Þórey hefur í mörg ár kennt rödd við Listháháskóla Íslands og ýmsum námskeiðum fyrir leikara og fólk sem vinnur með röddina. Hún hefur réttindi til að kenna raddþjálfunaraðferð Nadine George frá The Voice Studio International í London og byggir kennsluna á NGT aðferðinni. Þórey er stofnandi og listrænn stjórnandi leikfélagsins Fljúgandi Fiskar sem hefur framleitt nokkar sýningar m.a. Hótel Heklu eftir Anton Helga Jónsson og Lindu Vilhjálmsdóttur, Medeu (multi-media) eftir Evrípídes. Þórey leikstýrði síðast verkinu Andaðu eftir Duncan Macmillan sem var frumsýnt við frábærar viðtökur í Iðnó í janúar 2017. Þórey hefur kennt rödd við Kvikmyndaskóla Íslands síðan 2016.
Námskeið
Leikur og hreyfing 1 | LEH 103

Nemendur fá grunnþekkingu á lögmálum hreyfingar og líkamlegrar tjáningar sem nýtist í listsköpun leikarans. Undir stjórn kennara setja nemendur saman upphitunaræfingar í ólíka „pakka“ sem hægt er að nýta sér á margvíslegan hátt. Til dæmis í upphitun fyrir leikin atriði, undirbúning fyrir langa vinnutörn, fyrir reglulegar líkamsæfingar og grunnvinnu í persónusköpun. Einnig verður skoðað hvernig hægt er að setja saman hreyfingar, dans og tækniæfingar út frá ólíkri aðferðafræði. Unnið er með spuna þar sem byggt er á þekkingu á eigin líkama og hreyfigetu. Nemendur vinna undir stjórn kennara að sviðsverki þar sem líkamstjáning er í forgrunni sem sýnt er í lok námskeiðs.

Leikur og rödd 1 | LER 104

Námskeiðið er tvískipt. Annar hlutinn „Texti“ (2 einingar) lýtur að raddbeitingu í töluðu máli og textameðferð. Hinn hlutinn „Söngur“ (2 einingar) lýtur að söng. Texti: Kennari/leiðbeinandi veitir nemendum innsýn í grunnþætti raddbeitingar og textameðferðar með öndunar- og upphitunaræfingum og þjálfar aðferðir sem kveikja líkamsvitund og ímyndunarafl nemenda. Unnið er að uppbyggingu raddarinnar með stuttum textum og ljóðum. Áhersla er lögð á að nemendur séu meðvitaðir um mikilvægi samspils raddar og líkamsbeitingar. Námskeiðinu lýkur með kynningu þar sem nemendur flytja stutta texta. Söngur: Nemendum eru kynnt undirstöðuatriði í „Complete Vocal Technique“ söngtækninni. Kenndar eru skjótar og hagnýtar úrlausnir sem virka strax á röddina. Á kynningu flytja nemendur 1–2 sönglög sem hæfa rödd þeirra, með undirleik.

Leiklist 1 | LEL 107

Námskeiðið er tvískipt. Leiktækni (4 einingar). Leiktúlkun (4 einingar). Leiktækni: Námskeiðið snýst um tækni, þjálfun og sköpun leikarans. Til að byrja með verður því farið í atriði er lúta að leiktækni, – sjálfu handverki leikarans. Leikarinn sjálfur og tjáningarmeðöl hans verða skoðuð, en unnið verður með textabrot og söngvar úr ýmsum áttum. Þetta er “vinna leikarans með sjálfan sig”, (An Actors work on himself) eins og Stanislavski kallaði það. Undirbúningsvinna (Pre-expressive work), byggð á „hinum síendurteknu lögmálum” (Recurrent Principles) eins og Eugenio Barba hefur sett þau fram. Áherslan verður fyrst um sinn á formið (tækni) fremur en innihaldið. Leitað verður fanga víða, t.d. í æfingferla Grotowskis og Barba, Biomechanik Meyerholds, Laban – tækni, View- point, Suzuki – þjálfun, Commedia dell´Arte o.fl. Nemendum verður síðan gert að nýta sér þá tækni sem þeir hafa tileinkað sér á skapandi hátt og verður þá unnið með ýmis konar spunatækni og samsetningar. Leiktúlkun: Nemendum eru kynntar aðferðir við greiningu leiktexta og sótt í smiðju Stanislavskis í þeim efnum, – bæði hina „vitsmunlegu greiningu“ (Cognative Anayses), eða „vinnu við borð“ sem hann beitti á fyrri hluta ferils sins og „aðferð líkamlegra gjörða“, sem hann þróaði undir lok ferils síns. Unnið með hugtök eins og; fafla, flétta, undirtexti, forsendur, kringumstæða, ásetning, hindrun, líkamleg gjörð, innra líf (hugsun, tilfinning), hvað „EF“, líkamlegt minni, tilfinninga minni, skyn – minni, innlifun, upplifun, o.fl. Unnið er með aðgengilegt leikverk sem hentar hópnum (ný – klassík).

Lokaverkefni 1 | LOL 106

Nemandi skal skila kvikmyndaverki, 4–6 mín., þar sem hann er í aðalhlutverki. Æskilegt er að efnið sé frumsamið og hafi skarpa persónusköpun og alvöru texta. Nemendur framleiða verkefnið sjálfir og velja sitt samstarfs- og tæknifólk. Leiðbeinandi verður að samþykkja handrit og hefur yfirumsjón með verkefninu.

Tæki og tækni 1 | TÆK 106

Námskeiðið er byrjunarnámskeið á 1. önn og markmið þess er að kenna nemendum grunnatriði í framleiðslu kvikmynda og meðhöndlun og notkun tækja- og tæknibúnaðar í kvikmyndagerð. Jafnframt er farið yfir grunnatriði myndmálsins.

Samstarf milli deilda | SAM 102

Nemendur í öllum deildum þurfa á hverri önn að skila 1 einingu í samstarfi við aðrar deildir. Markmiðið er að hver deild hafi aðgengi að öllum hinum og upp úr því þróist skapandi samband.

Kvikmyndasaga 1 | KMS 102

Helstu kvikmyndir sögunnar kynntar, sýndar og ræddar. Sýndar eru tíu myndir á hverri önn, alls 40 kvikmyndir. Hver önn er hugsuð sem sneiðmynd af sögunni. Myndirnar eru sýndar að mestu í tímaröð og ná allt frá þögla tímabilinu og fram á seinni hluta tuttugustu aldar.

Leikur og hreyfing 2 | LEH 204

Námskeiðin LEH 204 og LEH 304 eru kennd saman og nemendur 2. og 3. sækja sameiginlega tíma. Námskeiðin skiptast í tvær til þrjár lotur þar sem kennd er sértæk hreyfilist, þar sem nemendum er ætlað að öðlast grunnhæfni á ólíkum sviðum sem öll snúast um að vinna með líkamann og hreyfingu hans. Meðal þess sem kennt verður eru samkvæmisdansar, fimleikar/leikfimi, sviðsbardagtækni og nútímadans. Fleiri tegundir af hreyfilist geta komið til í þróun námskeiðsins, en markmiðið er alltaf að nemandi nái betra valdi á líkama sínum og getu til að beita honum á sértækum sviðum. Öllum lotum lýkur með stuttri sýningu.

Leikur og rödd 2 | LER 204

Námskeiðið er tvískipt. Annar hlutinn „Texti“ (2 einingar, 30 kennslustundir) lýtur að raddbeitingu í töluðu máli og textmeðferð. Hinn hlutinn „Söngur“ (2 einingar, 30 kennslustundir) lýtur að söng. Texti: Haldið er áfram að þjálfa rödd leikarans með öndunar- og raddæfingum og áhersla lögð á samhæfingu ólíkra þátta. Unnið er að uppbyggingu raddarinnar með líkamlegum æfingum og margvíslegum textum. Nemendur þróa í samráði við kennara eigið upphitunarkerfi sem tengir líkama, huga og rödd. Unnið er með texta úr leikbókmenntunum og völdum senum úr kvikmyndum með áherslu á samhæfingu ólíkra þátta; andstæður slökunar og spennu. Rík áhersla er lögð á samþættingu raddar, huga og líkamstjáningar og frumkvæði í vinnubrögðum. Námskeiðinu lýkur með kynningu þar sem nemendur flytja mismunandi texta. Söngur: Haldið er áfram að þjálfa söngrödd leikarans og tækni með „Complete Vocal Technique“ aðferðinni. Áhersla er lögð á sjálfstæð, skapandi vinnubrögð nemenda með vali á ólíkum sönglögum sem byggja upp söngröddina og auka úthald og blæbrigði. Nemendur prófa ólíka hluti og eru hvattir til að ögra sjálfum sér í vali á sönglögum. Á kynningu flytja nemendur 1–2 sönglög með undirleik.

Leiklist 2 | LEL 206

Námskeiðið er tvískipt. Annar hlutinn „Tækni“ (2 einingar, 30 kennslustundir) lýtur að leiktækni. Hinn hlutinn „Túlkun“ (4 einingar, 60 kennslustundir) lýtur að leiktúlkun. Leiktækni: Þetta námskeið er beint framhald af Leiktækni 1. Mikilvægi daglegrar þjálfunar er ítrekað og nemendur hvattir til að beita þeim leiktækniæfingum sem þeir hafa tileinkað sér á skapandi hátt. Ímyndunaraflið virkjað og ýmis konar samsetningatækni þjálfuð. Frekari leiktækniaðferðum bætt í vopnabúrið (Brecht, Verfremdung) og unnið með þær á skapandi hátt. Leitað verður innblásturs í súrrealisma, expressionisma og leikhúsi fáránleikans. Leikverk (eða textar, t.d. ljóð) af þeim meiði verður lagt til grundvallar vinnunni. Í lok námskeiðsins sýna nemendur afraksturinn í samsettri – „montage“ sýningu. Leiktúlkun: Með þær aðferðir Stanislavskis í leiktúlkun og greiningu sem nemendur tileinkuðu sér í Leiktúlkun 1 í farteskinu halda þeir áfram að þróa sig sem leikara. Unnið verður með leikverk og valin atriði úr því sett undir smásjána, krufin og túlkuð. Nú með enn meiri áherslu á persónusköpun og andrúmsloft. Í því tilliti verður leitað í smiðju Michael Chechov, – kenningar hans og aðferðir kynntar nemendum í skapandi vinnu með leikverkið. Í lok námskeiðs sýna nemendur fullæfð atriði úr verkinu í opnum tíma.

Spuni/Grín | SPG 103

Nemendur fá þjálfun í spuna gegnum ólíkar aðferðir, t.d. Haraldinn (The Harold), leikhússport og/eða ýmis afsprengi Commedia dell ´Arte. Námskeiðinu lýkur með spunasýningu.

Leiksmiðja og leikhús| LEI 106

Námskeiðið er í samvinnu við handrita- og leikstjórnardeild í námskeiðinu SVI 104. Námskeiðinu er tvískipt; í fyrri hlutanum vinna nemendur ásamt handritshöfundum undir stjórn kennara í spunavinnu að söguþræði og persónusköpun. Höfundarnir skrifa síðan handrit og leikararnir máta textann á vinnsluskeiðinu. Höfundar ljúka síðan verkinu og kynna handrit í lok námskeiðs. Á síðari hluta námskeiðsins vinna nemendur með leikstjóra að uppsetningu verksins á leiksviði sem lýkur með sýningu.

Tæki og tækni 2 | TÆK 204

Námskeiðið er framhaldsnámskeið frá TÆK 106. Markmiðið er að styrkja enn frekar grunnþekkingu nemenda á helstu sviðum kvikmyndagerðar. Hver nemandi gerir síðan mynd sem á að sýna persónulegan stíl og færni nemanda á hans áhugasviði. Myndin á að geta staðið sem kynningarmynd um nemandann.

Samstarf milli deilda | SAM 201

Nemendur í öllum deildum þurfa á hverri önn að skila 1 einingu í samstarfi við aðrar deildir. Markmiðið er að hver deild hafi aðgengi að öllum hinum og upp úr því þróist skapandi samband.

Kvikmyndasaga 2 | KMS 202

Helstu kvikmyndir sögunnar kynntar, sýndar og ræddar. Sýndar eru tíu myndir á hverri önn, alls 40 kvikmyndir. Hver önn er hugsuð sem sneiðmynd af sögunni. Myndirnar eru sýndar að mestu í tímaröð og ná allt frá þögla tímabilinu og fram á seinni hluta tuttugustu aldar.

Leikur og hreyfing 3 | LEH 304

Námskeiðin LEH 204 og LEH 304 eru kennd saman og nemendur 2. og 3. sækja sameiginlega tíma. Námskeiðin skiptast í tvær til þrjár lotur þar sem kennd er sértæk hreyfilist, þar sem nemendum er ætlað að öðlast grunnhæfni á ólíkum sviðum sem öll snúast um að vinna með líkamann og hreyfingu hans. Meðal þess sem kennt verður eru samkvæmisdansar, fimleikar/leikfimi, sviðsbardagtækni og nútímadans. Fleiri tegundir af hreyfilist geta komið til í þróun námskeiðsins, en markmiðið er alltaf að nemandi nái betra valdi á líkama sínum og getu til að beita honum á sértækum sviðum. Öllum lotum lýkur með stuttri sýningu.

Leikur og rödd 3 | LER 303

Námskeiðið snýst eingöngu um söng og er framhald af LRS 302 (Söngur 2) þar sem haldið er áfram að þjálfa rödd leikarans og tækni með „Complete Vocal Technique“ aðferðinni. Litið er yfir farinn veg og rifjuð upp helstu tækniatriði. Nemendur setja sér markmið fyrir önnina og velja hvaða sönglög þau vilja vinna með og þróa fyrir lokatónleika undir handleiðslu söngkennara. Auk þess er unnið með leikstjóra/danshöfundi að sviðsetningu fyrir lokatónleikana, sem geta tekið á sig form söngleiks, kabaretts, revíu eða skemmtidagskrár, þar sem þess er gætt að allir fái hlutverk við hæf.

Leiklist 3 | LEL 304

Námskeiðið lýtur að kvikmyndaleik og nemendum verða kynnt vinnubrögð innblásin af amerísku „Aðferðinni“ (The Method, – Strassberg, Adler, Meisner). Unnið verður með senur úr kvikmyndahandritum, þær greindar, gerðar tilraunir með þær fyrir framan myndavélar, ólíkar leiðir að sömu senu kannaðar og afraksturinn skoðaður og ræddur jafnóðum.

Leikstjórinn | VML 102

Nemendur kynnast samskiptum leikara og leikstjóra og fá innsýn í vinnubrögð ólíkra leikstjóra. Rík áhersla er lögð á einlægni og trúverðugleika í skapandi vinnu leikarans og samband leikarans og leikstjórans sérstaklega skoðað. Ítarlega er farið í skipulagt vinnuferli leikarans og hvaða verkfæri standa honum til boða á hverju stigi vinnunnar. Nemendur vinna og æfa með leikstjórnarnemum á 2. önn í senuvinnu, taka upp æfingarferlið og gera nákvæmar áætlanir um eigið vinnuferli í gegnum æfingar. Í lok námskeiðs er kynning á efni og verkferlinu.

Leiklistarsaga | LLS 103

Leiklistarsagan frá sjónarhóli leikarans. Yfirlitsáfangi um sögu, hlutverk og áhrif leiklistar um víða veröld frá örófi alda og fram á okkar daga með megináherslu á vinnu og þjálfun, túlkun og tjáningu leikarans hverju sinni. Kennslan er jafnt fræðileg sem verkleg og fá nemendur því tækifæri til að spreyta sig á æfingum og lögmálum sem leikarar hafa þróað og tileinkað sér gegnum tíðina og glíma við ólíka leikstíla. Nemendur þurfa að lesa sig til um efnið og afla sér heimilda, skrifa stutta ritgerð og gera kynningarverkefni.

Leikinn sjónvarpsþáttur | LSJ 102

Nemendur 3. annar í leiklistardeild vinna samstarfsverkefni með hinum þremur deildunum að tveimur leiknum 15–20 mínútna „pilots“ að leiknum sjónvarpsseríum. Leiklistarnemendur leika helstu hlutverk í þáttunum en einnig eru ráðnir inn –2 atvinnuleikarar á móti nemendum. Markmiðið með námskeiðinu er að nemendur öðlist reynslu af að vinna með fagfólki að gerð leikins sjónvarpsefnis og fái innsýn í verkaskiptingu og mikilvægi samvinnu í stóru framleiðsluteymi.

Sjónvarpsþættir | SJL 103

Fjallað er um allar helstu tegundir dagskrárgerðar í sjónvarpi; skemmtiþætti, viðtalsþætti, matreiðsluþætti, ferðaþætti, raunveruleikaþætti, getraunaþætti, barnaefni, fréttir, fréttaskýringaþætti, heimildarmyndir o.s.frv. Nemendum eru kynntar helstu forsendur sem liggja að baki dagskrárgerð í sjónvarpi og samspili tegundar þátta, sýningartíma og markhóps. Þá verða „format“-þættir síðustu ára sérstaklega skoðaðir og reynt að átta sig á hvað liggur að baki því að hugmyndir verða alþjóðlegar. Nemendur vinna hugmyndavinnu að sjónvarpsþáttum og undirbúa, í samstarfi við 2. önn í Leikstjórn og framleiðslu, kynningarefni sem nýtist til að „selja“ fulltrúum íslenskra sjónvarpsstöðva hugmyndirnar.

Myndmál og meðferð þess | MYN 104

Fjallað er um myndmál og myndbyggingu með því að skoða og skilgreina atriði úr kvikmyndum frá ýmsum tímum. Í samráði við leiðbeinendur sviðsetja nemendur senu úr kvikmynd og skoða hvernig myndmálið hefur áhrif á framgang hennar og upplifun áhorfandans á henni.

Samstarf milli deilda | SAM 303

Nemendur í öllum deildum þurfa á hverri önn að skila 1 einingu í samstarfi við aðrar deildir. Markmiðið er að hver deild hafi aðgengi að öllum hinum og upp úr því þróist skapandi samband.

Kvikmyndasaga 3 | KMS 302

Helstu kvikmyndir sögunnar kynntar, sýndar og ræddar. Sýndar eru tíu myndir á hverri önn, alls 40 kvikmyndir. Hver önn er hugsuð sem sneiðmynd af sögunni. Myndirnar eru sýndar að mestu í tímaröð og ná allt frá þögla tímabilinu og fram á seinni hluta tuttugustu aldar.

Leikur og hreyfing 4 | LEH 403

Námskeiðið er á lokaönn og ætlað sem stuðningsnámskeið við lokaverkefni nemandans. Hér er líkaminn settur undir smásjána og birtingarmyndir líkamans í kvikmyndasögunni hafðar til hliðsjónar. Nemendur leyta sér innblásturs í dansleikhúsmyndverkum, tónlistarmyndböndum, þöglum kvikmyndum o.s.frv. Nemendur byggja ofan á þann grunn sem þeir hafa fengið í líkamsþjálfun á síðustu þremur önnum og laga vinnu sína að kvikmyndaforminu. Áhersla er lögð á sjálfstæði í líkamsvitund út frá þeirri uppbyggingu líkamans og hreyfigetu sem nemendur hafa tileinkað sér til sköpunar og líkamstjáningar. Nemendur vinna saman að gerð kvikmyndaverks þar sem áhersla er lögð á líkamstjáningu og kvikmyndaformið.

Leikur og rödd 4 | LER 403

Nemendum kynnt vinna með hljóðnema og þeir fá tækifæri til að gera tilraunir með eigin rödd og upptökutækni. Þeir fá einnig þjálfun í talsetningu undir handleiðslu fagfólks. Loks vinnur nemandi í samvinnu við kennara að 3–5 mínútna langri kvikmynd (senu) þar sem leikið er á blæbrigði raddarinnar. Áhersla er lögð á vandaða hljóðupptöku og vinnslu. Verkefnum á námskeiðinu er ætlað að styðja við vinnu nemenda við lokamynd.

Leiklist 4 | LEL 404

Undirbúningur fyrir lokaverkefni. Sköpun, en einkum þó persónusköpun í brennidepli. Byggt verður á þeim grunni sem nemendur fengu í Leiklist 3, en auk þess verða aðferðir Mike Leigh lagðar til grundvallar.

Fagið og framtíðin | FOF 203

Námskeiðinu er ætlað að undirbúa nemendur fyrir leiklistarstörf eftir að námi lýkur. Farið verður í gegnum ýmis praktísk atriði varðandi uppbyggingu ferilsins, svo sem gerð ferilskrár, framhalds- og endurmenntun, og hvaða tækifæri eru í boði. Nemendur fá þjálfun undirbúningi og þátttöku í áheyrnarprufum (audition) og aðstoð og leiðbeiningar við að vinna að stuttri kynningarmynd um sjálfa sig (show-real).

Handritsgerð | HHO 102

Á námskeiðinu er fjallað um ýmis grundvallarlögmál hefðbundinnar handritsgerðar í kvikmyndagerð. Fjallað verður um uppbyggingu, form og stíl, samtöl, söguþráð og endi. Nemendur læra helstu grundvallaratriði í notkun á handritsforritum. Þeir nemendur sem áhuga hafa á að skrifa sjálfir handritið að lokaverkefni sínu á 4. önn geta nýtt þetta námskeið til undirbúnings.

Lokaverkefni 4. önn | LOL 208

Lokaverkefni 4. annar er einstaklingsverkefni að eigin vali unnið í samráði við leiðbeinanda. Hér er um að ræða kvikmyndaverk af einhverju tagi og er æskileg lengd 6 til 15 mínútur. Nemandi er aðalhöfundur verksins. Það þýðir að hugmyndin (má vera byggð á bók, leikverki eða hverju sem nemandi vill nota sem hugmyndakveikju) kemur frá nemandanum. Hann velur sér samstarfsaðila og geta þeir bæði verið fólk innan og utan skólans. Nemandi stýrir einnig öllum verkferlum frá undirbúningi framleiðslu til fullnaðareftirvinnslu. Skilyrði er að nemandi sé í burðarhlutverki í myndinni og gerð er krafa um metnaðarfull vinnubrögð í öllum þáttum vinnslunnar.

Samtíminn | SAT 102

Fjallað er um kvikmyndagerð nútímans. Hvaða stefnur og straumar hafa verið ríkjandi síðasta áratuginn, hvað er að gerast núna og hvert virðist stefna í nánustu framtíð. Á námskeiðinu er mikið lagt upp úr þátttöku nemenda í að rannsaka og finna svör við þessum spurningum. Hver og einn þeirra þarf að halda kynningu með myndsýnishornum, þar sem þeir fjalla um áhrifavalda í samtímanum.

Samstarf milli deilda | SAM 403

Nemendur í öllum deildum þurfa á hverri önn að skila 1 einingu í samstarfi við aðrar deildir. Markmiðið er að hver deild hafi aðgengi að öllum hinum og upp úr því þróist skapandi samband.

Kvikmyndasaga 4 | KMS 402

Helstu kvikmyndir sögunnar kynntar, sýndar og ræddar. Sýndar eru tíu myndir á hverri önn, alls 40 kvikmyndir. Hver önn er hugsuð sem sneiðmynd af sögunni. Myndirnar eru sýndar að mestu í tímaröð og ná allt frá þögla tímabilinu og fram á seinni hluta tuttugustu aldar.

Samningar og kjör | VER 101

Námskeiðinu er ætlað að undirbúa nemendur fyrir þáttöku á atvinnumarkaði. Fjallað er um stofnun fyrirtækja, helstu starfssamninga og skyldur sem þeim fylgja fyrir verktaka og verkkaupa, eða launþega og vinnuveitanda. Farið er yfir opinber gjöld sem standa þarf skil á s.s. virðisaukaskatt, lífeyrissjóðsgjöld, félagsgjöld o.s.fv. Nemendur vinna í hópum, og þróa sínar eigin viðskiptahugmyndir og vinna viðskiptaáætlanir. Á námskeiðinu verður einnig farið í verkefnastjórn, áætlanagerð og styrkumsóknir í samkeppnissjóði. Sérstaklega verða tekin fyrir dæmi úr myndmiðlaiðnaðinum á Íslandi.

Umsagnir nemenda

Árin mín í Kvikmyndaskólanum voru mér bæði dýrmæt og góð. Ég þroskaðist fullt sem manneskja og listamaður, kynntist mikið af góðu og mjög hæfileikaríku fólki, bæði nemendum og kennurum. Ég kynntist líka eiginmanni mínum í Kvikmyndaskólanum, þannig að mér þykir alveg extra vænt um hann og árin mín þar. Ég hafði áhuga á leiklist en líka kvikmyndagerð og þess vegna valdi ég Kvikmyndaskólann. Ég útskrifaðist af leiklistardeild 2012 og hef leikið í allskonar auglýsingum, stutt-, tónlistar-, og bíómyndum síðan þá. Einnig skrifaði ég og setti upp söngleik með unglingadeild Mosfellsbæjar 2013 þar sem að við blönduðum kvikmyndagerð við. Ég hef líka leikstýrt og klippt tónlistarmyndbandi, en mér finnst líka alveg rosa gaman að vera á bak við kameruna og leikstýra. Leiklist nýtist í allt, mér finnst persónulega að það ætti að vera kennt í skólum, t.d. á seinasta ári í framhaldskóla, þvílík gjöf inní framtíðina! Það að kunna að brjótast úr sínum eigin kassa, ekki vera of meðvitaður um sjálfan sig og kunna að koma fram (svo eitthvað sé nefnt) eru mjög góð og í raun mikilvæg tól að hafa í lífinu. Leiklist er líkamleg og andleg og hafa margar æfingar frá skólanum orðið að daglegum hlut í mínu lífi og er ég mjög þakklát fyrir það, því þetta eru æfingar sem veita meiri vellíðan og gott ef þær lengja ekki lífið. Ég nota leiklist á hverjum degi þó ég sé ekki að “leika”. Í dag er ég í Heilsumeistaraskólanum og sé fram á að vinna við heilsu og leiklist, það passar mjög vel saman og eru margir möguleikar i því. Námið í Kvikmyndaskólanum er gjöf sem ég gaf sjálfri mér og hefur hún margfalt borgað sig. Mig hefur langað að skrá mig í hann aftur og prófa aðra deild, en ég er á góðum stað í bili. Ég mæli heilshugar með Kvikmyndaskólanum.

Vivian Ólafsdóttir, Útskrifuð haustið 2011

Árin mín í Kvikmyndaskólanum voru yndisleg. Það fyrsta sem kemur upp í hugann er hvað ég skemmti mér vel og hvað ég kynntist mikið af skemmtilegu fólki. Þarna innan veggja skólans fékk ég að prufa mig áfram sem listamaður, fara út fyrir þægindarammann og víkka sjóndeildarhringinn. Það var stundum erfitt og tók á því námið er krefjandi en mér fannst það allt þess virði því það sem ég fékk út úr þessu er í raun ólýsanlegt. Það er fátt meira gefandi en að elta drauminn sinn og fá að læra meira og skilja meira á því sviði sem maður hefur brennandi áhuga á. Næstum öll verkefni sem ég fékk fyrst eftir útskrift voru í gegnum í sambönd sem ég myndaði innan skólans. Svo heldur maður bara áfram, kynnist fleira fólki í kvikmyndabransanum og reynir að troða sér áfram. Þetta er alveg ágætlega mikið hark. Leiktæknina sem ég lærði í kvikmyndaskólanum nota ég alltaf. Ég lærði að búa mér til “verkfærakistu” sem hjálpar mér að undirbúa mig undir hlutverk. Öll leiktækni og undirbúningur er eitthvað sem ég tók með mér úr náminu og hef verið að nota og prófa mig áfram með í öllu sem ég geri. Ég mæli með leiklistarbrautinni í Kvikmyndaskólanum. Ég fékk mikið út úr þessu námi, bæði sem listamaður og sem einstaklingur. Þetta nám einblínir auðvitað meira á kvikmyndaleik, þannig að áherslurnar eru þannig. En mér fannst kennslan góð og námið krefjandi og virkilega skemmtilegt.

Anna Hafþórsdóttir, Útskrifuð vorið 2011