Leikstjórn & framleiðsla Deild 1

Tveggja ára diplómanám í leikstjórn og framleiðslu kvikmynda.

Viltu láta verkin tala?

Tveggja ára diplómanám þjálfar nemendur í leikstjórn og framleiðslu á kvikmynduðu efni af fjölbreyttum toga.

Nemendur gera stuttmyndir, auglýsingar, tónlistarmyndbönd, heimildarmyndir, leikna sjónvarpsþætti og skemmtiþætti og öðlast þannig dýrmæta reynslu á sem flestum sviðum fagsins.

Af hverju Leikstjórn & Framleiðsla

  1. Kvikmyndaskóli Íslands er verklegur skóli þar sem nemendur skrifa, framleiða, leika, klippa, vinna og leikstýra sínum eigin myndum meðan á náminu stendur. Allt skólahald snýst um kvikmyndagerð frá fyrstu mínútu til útskriftar.

  2. Inntökuviðtöl eru að lágmarki tvisvar í mánuði og öllum umsóknum svarað innan 40 daga.

  3. Aldrei eru teknir fleiri en 12 nýnemar í bekk. Séu bekkir fullir er hægt að skrá sig á biðlista.

  4. Allir helstu kvikmyndagerðarmenn landsins kenna eða hafa kennt við skólann. Flestir þeirra eru með háskólapróf og menntun erlendis frá. Nemendum eru tryggð tengsl við reynslumikið fólk úr iðnaðinum.

  5. Kvikmyndaskóli Íslands er einkaskóli sem starfar með viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

  6. Með ári til viðbótar í kvikmyndafræði við geta nemendur útskrifast með BA-gráðu.

    *Námsleiðin er í viðurkenningarferli hjá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

  7. Kvikmyndanám opnar ótal atvinnutækifæri að útskrift lokinni. Þessi menntun er eftirsótt hjá fyrirtækjum í framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis. Auk þess kjósa sumir að vinna sjálfstætt eftir útskrift og skapa eigin verkefni á eigin forsendum.

  8. Ef þú hefur leiðtogahæfni, listræna taug og veist hvað þú vilt sjá, þá ættir þú að skoða nám í Leikstjórn og Framleiðslu við Kvikmyndaskóla Íslands.

  9. Kvikmyndaiðnaðurinn er í örum vexti. Nýjungar í myndmiðlun og sjónvarpi kalla á fagleg vinnubrögð og sérþekkingu. Með slíka menntun gefast þér fjölmörg tækifæri til að láta ljós þitt skína.

  10. Það má læra kvikmyndagerð á ýmsa vegu en tveggja ára nám við KVÍ er fljótlegasta leiðin sem þú finnur til að ná tökum á faginu, finna þína styrkleika og byggja um leið upp öflugt tengslanet til framtíðar.

  11. Eftir áratugi af bóknámi áttu skilið að komast í nám sem hjálpar þér að koma þínum eigin hugmyndum í framkvæmd.

  12. Kvikmyndaskóli Íslands býður í dag heimsins besta grunnnám á sínu sérsviði; að taka við byrjendum í faginu, mennta í tvö ár og útskrifa sem fagfólk.

Fagstjórar leikstjórn & framleiðslu

Hlín Jóhannesdóttir

Hlín er útskrifuð frá Mannfræði og Fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands. Hún hefur starfað við Kvikmyndagerð frá árinu 2000, sem sjálfstæður framleiðandi, framleiðslustjóri og framleiðandi hjá Zik Zak Filmworks, sem hafa hlotið yfir 100 alþjóðleg verðlaun fyrir verkefni sín, þar á meðal tilnefningu til Óskarsverðlauna. Sem framleiðandi hefur Hlín unnið með mörgum af helstu leikstjórum Íslands í framleiðslu leikinna kvikmynda sem og heimildamynda. Hún hefur einnig starfað sem rithöfundur fyrir tímarit og fréttir á netinu. Hún stofnaði kvikmyndafyrirtækið Vintage Pictures með Birgittu Jónsdóttur og á fyrirtækið Culture camp; Art Production House Ursus Parvus með Vilborgu Einarsdóttur. Myndir sem Hlín hefur framleitt, eru meðal annars "Svanurinn", "Bokeh", "This is Sanlitum" og margar fleiri.

Hilmar Oddsson

Hilmar lærði kvikmyndgerð við Hochschule für Fernsehehen und Film í München í Þýskalandi. Hann frumsýndi sína fyrstu bíómynd árið 1986 og síðan hefur Hilmar gert 5 bíómyndir, 5 sjónvarpsmyndir, 5 stuttmyndir og yfir 25 tónlistarmyndbönd. Hann hefur gert fjölda heimildamynda og yfir hundrað sjónvarpsþætti. Þar að auki hefur hann leikstýrt og stjórnað upptökum á tveimur “sitcom” þáttaröðum og leikstýrt auglýsingum og allra handa fræðsluefni. Hilmar hefur fjallað um kvikmyndir í sjónvarpi og eftir hann liggur fjöldi greina um kvikmyndatengd málefni. Hilmar hefur kennt kvikmyndagerð og kvikmyndaleik í tvo áratugi, m.a. við Listaháskóla Íslands og Kvikmyndaskóla Íslands, sem hann veitti forstöðu 2010 til 2017.

Hæfniviðmið Deildar 1

  1. Þekking

    1 Þekking og skilningur

    Nemandi öðlist:

    1.1  Verklega, fræðilega, tæknilega og faglega þekkingu á starfssviði leikstjórans.

    1.2  Verklega, fræðilega, tæknilega og faglega þekkingu á framleiðslu kvikmynda.

    1.3  Þekkingu á grundvallarlögmálum handritsgerðar.

    1.4  Þekkingu á gerð margvíslegra kvikmyndaverkefna, auglýsinga, tónlistarmyndbanda, leikinna stuttmynda, sjónvarpsmynda, stúdíóþátta og heimildamynda.

    1.5  Þekkingu á eðli og gerð myndmálsins.

    Leikni

    2 Nemandi öðlist hagnýta færni og leikni:

    2.1  Í að stýra leikurum og samstarfsfólki á persónulegan og faglegan hátt.

    2.2  Og reynslu sem framleiðandi og framleiðslustjóri.

    2.3  Í skrifum á stuttmyndahandritum.

    2.4  Í vinnu við margvísleg kvikmyndaverkefni.

    2.5  Í því að miðla sögu og dramatík á sjónrænan hátt.

    Hæfni

    3 Nemandi öðlist hæfni til að:

    3.1 Vinna sem leikstjóri með persónulegan stíl, sem á grundvelli þekkingar og leikni nær því besta út úr leikurum og öðru samstarfsfólki.

    3.2 Vinna sem skapandi framleiðandi og faglegur framleiðslustjóri í kvikmyndum.

    3.3 Finna og meta hugmyndir og vinna þær til fullbúins handrits.

    3.4 Vinna sem skapandi kvikmyndagerðarmaður og stjórnandi á ýmsum tegundum kvikmyndaverka.

    3.5 Gera tilraunir á sviði listsköpunar.
    3.6 Miðla flóknum frásögnum með myndrænum hætti.

  2. 1 ÞEKKING OG SKILNINGUR

    NEMANDI ÖÐLIST:
    1.1 Verklega, fræðilega, tæknilega og faglega þekkingu á starfssviði leikstjórans.

    Hagnýt færni og leikni
    2.1 Nemandi öðlist leikni í að stýra leikurum og öðru samstarfsfólki á faglegan hátt.

    Hæfni sem hagnýting þekkingar og leikni 

    3.1 Nemandi öðlist hæfni til að vinna sem leikstjóri með persónulegan stíl, sem á grundvelli þekkingar og leikni nær því besta út úr leikurum og öðru samstarfsfólki .

  3. 1. Þekking og skilningur
    1.1 Nemandi öðlist verklega, fræðilega, tæknilega og faglega þekkingu á framleiðslu kvikmynda.

    2. Hagnýt færni og leikni
    2.1 Nemandi öðlist leikni og reynslu sem framleiðandi og framleiðslustjóri í margvíslegum kvikmyndaverkefnum.

    3. Hæfni sem hagnýting þekkingar og leikni
    3.1 Nemandi öðlist hæfni til að vinna sem skapandi framleiðandi og faglegur framleiðslustjóri í kvikmyndum.

Kennsluskrá

Deild 1 | Leikstjórn & Framleiðsla

Fyrsta misseri

  1. Fjallað er um hlutverk og stöðu kvikmyndaleikstjórans sem handleiðslu- og samstarfsmanns leikara; samband hans og leikarans, á hverju það samband byggir og hvernig líklegast er að það beri sem mestan árangur. Unnið er í grunnþáttum þjálfunar þar sem nemendum er kynnt sú tækni sem starf leikarans byggir á, æfingum og aðferðum til að skapa raunverulega persónu með innra líf sem hefur síðan áhrif á gjörðir og hegðun persónunnar.

  2. Viðfangsefni námskeiðsins er hlutverk framleiðandans og starfssvið. Framleiðandi er forsenda þess að kvikmyndaverkefni verði að veruleika. Framleiðandinn velur verkefnið, gengur frá réttindum svo hægt sé að halda áfram, skipuleggur, verkstýrir öllum stigum framleiðslu og er ábyrgur fyrir því að klára verkið, koma því í dreifingu og selja það. Framleiðandinn er eigandi myndar. Fjallað er um hlutverkaskiptingu framleiðslu- og tökuteymis, ábyrgðarsvið, skipulag og vinnuferla framleiðanda og framleiðslustjóra. Kennd eru undirstöðuatriði í notkun á handrita- og skipulagsforriti og farið yfir hvernig framleiðslumappa er unnin og samsett. Einnig eru grunnvinnutæki framleiðandans kynnt, framleiðslu- og kostnaðaráætlanir. Nemendum er kynnt mikilvægi þess að „pitcha" verkefni og æfingar unnar í því. Starfsemi Kvikmyndastöðvar Íslands kynnt ítarlega og farið í vettfangsferð þangað. Nemendur nýta síðan þekkingu sína við framleiðslu á lokaverkefni 1. misseris.

  3. Á námskeiðinu er fjallað um ýmis lögmál hefðbundnar handritsgerðar í kvikmyndagerð, m.a. dramatíska uppbyggingu, form og stíl, samtöl, söguþráð og endi. Nemendur læra helstu grundvallaratriði í notkun handritsforrita.

  4. Í þessu námskeiði er eðli og gerð myndmálsins rannsakað. Mynd dæmi eru greind og skoðað er hvaða merkingu má leggja í myndstærðir, sjónarhorn, samsetningu myndskeiða, tákn og skilaboð. Námskeiðið er einnig verklegt þar sem nemendum gefst m.a. tækifæri til að útfæra eigin atriði. Auk þess verður kynnt undirbúningsferli leikstjórans fyrir tökur, m.a. við gerð skotlista.

  5. Í þessu námskeiði er fjallað um hlutverk, sögu, tísku og megingerðir tónlistarmyndbanda og þau skoðuð frá ýmsum sjónarhornum. Nemendur vinna í hópum að gerð tónlistarmyndbanda, auk þess að öðlast færni í klippingu og mynd vinnslu.

  6. Á þessu námskeiði er fjallað um auglýsingagerð. Sérstök áhersla er lögð á að kynna eðli, tilgang og sérstöðu auglýsinga sem kvikmyndaforms, þar sem beita þarf mikilli nákvæmni í myndmáli til að koma ákveðnum skilaboðum á framfæri. Nemendur vinna í hópum að gerð auglýsinga.

  7. Nemendur vinna að hámarki 7 mínútna langa stuttmynd í hópavinnu með öðrum deildum þar sem nemendur leggja áherslu á sérsvið sinnar deildar. Markmiðið er að verkefnið sé fullunnið kvikmyndaverk af einhverju tagi. Áhersla er lögð á að nemandur vinni með eigin hugmyndir og byggi á þeirri reynslu í vinnslu kvikmynda sem þau hafa fengið í öðrum námskeiðum misserisins.

  8. Námskeiðið er byrjunarnámskeið á 1. misseri og markmið þess er að kenna nemendum grunnatriði í framleiðslu kvikmynda og meðhöndlun og notkun tækja- og tæknibúnaðar í kvikmyndagerð. Jafnframt er farið yfir grunnatriði myndmálsins. Námskeiðið er þrískipt: 1. Undirbúningur - Framleiðsla kvikmynda. 2. Tökustaður - Kvikmynda- og hljóðupptaka. 3 . Eftirvinnsla - Klipping og frágangur.

  9. Nemendur í öllum deildum þurfa á hverju misseri að skila 1 einingu í samstarfi við aðrar deildir. Markmiðið er að hver deild hafi aðgengi að öllum hinum og upp úr því þróist skapandi samband.

  10. Helstu kvikmyndir sögunnar kynntar, sýndar og ræddar. Sýndar eru tíu myndir á hverju misseri, alls 40 kvikmyndir. Hvert misseri er hugsað sem sneiðmynd af sögunni. Myndirnar eru sýndar að mestu í tímaröð og ná allt frá þögla tímabilinu og fram á seinni hluta tuttugustu aldar. Myndirnar eru kynntar með fyrirlestrum og nemendur taka þátt í umræðum um þær.

Annað misseri

  1. Haldið er áfram að fara yfir helstu grunnþætti kvikmyndaleikstjórnar með sérstaka áherslu á vinnu með leikurum. Námskeiðið er aðallega verklegt og eru ýmsar aðferðir, tól og tæki, kynnt fyrir nemendum sem geta nýst þeim í þeirri vinnu. Nemendur læra að gera ítarlegar áætlanir um eigið vinnuferli í gegnum æfingar með leikurum.

  2. Farið er ítarlegar í efnisatriði sem byrjað var að kenna á fyrsta misseri og æfingar unnar til að sýna fram á að nemendur hafi öðlast nauðsynlegan skilning á hlutverki framleiðandans, framkvæmda- og framleiðslustjórans á undirbúnings-, töku- og eftirvinnslutímabili. Nemendur halda áfram að læra á vinnutæki framleiðandans og mikil áherlsa er lögð á markaðsáætlanir, markaðssetningu, kynningu og dreifingu. Í námskeiðinu er jafnframt unnið að því að framleiða 2. misseris mynd, öll framleiðslugögn unnin fyrir hana sem sett eru inn í framleiðslumöppu sem skilað er í lok misseris.

  3. Framhald af LST110G þar sem haldið er áfram að fjalla um meginreglur og vinnubrögð við handritsskrif. Unnið er með hefðbundin lögmál dramatískrar uppbyggingar og farið nánar í persónusköpun, fléttu og atburðarás. Skoðaðar eru mismunandi gerðir handrita, svo sem kvikmyndahandrit í fullri lengd, stuttmyndahandrit, handrit fyrir leikið sjónvarpsefni o.fl. Hver nemandi byrjar að vinna handrit að 5 til 7 mínútna langri stuttmynd, sem verður framleidd síðar á misserinu.

  4. Yfirlitsnámskeið með áherslu á tengsl kvikmynda og myndlistar. Hvað geta kvikmyndir lært af myndlistinni? Einkenni ýmissa myndlistartímabila eru skoðuð. Dæmi tekin úr kvikmyndasögunni sem sýna náin tengsl kvikmynda við ákveðin myndverk eða myndlistarmenn, og hvernig myndlist hefur nýst kvikmyndagerðarmönnum og orðið þeim innblástur fyrir kvikmyndaverk.

  5. Fjallað er um allar helstu tegundir sjónvarpsþátta; skemmtiþætti, viðtalsþætti, matreiðsluþætti, ferðaþætti, raunveruleikaþætti, getraunaþætti, barnaefni, fréttir, fréttaskýringaþætti, heimildamyndir o.s.frv. Nemendum verða kynntar helstu forsendur sem liggja að baki dagskrárgerðar í sjónvarpi og samspili tegunda þátta, sýningartíma og markhóps. Þá verða „format“-þættir síðustu ára sérstaklega skoðaðir og reynt að skilgreina hvað liggur að baki því að hugmyndir verði alþjóðlegar. Nemendur vinna hugmyndavinnu að sjónvarpsþáttum og undirbúa, í samstarfi við 3. misseri Leiklistar, kynningarefni sem nýtist til að „selja“ fulltrúum íslenskra sjónvarpsstöðva hugmyndirnar.

  6. Nemendur vinna að hámarki 7 mínútna langa stuttmynd í hópavinnu með öðrum deildum þar sem nemendur leggja áherslu á sérsvið sinnar deildar. Markmiðið er að verkefnið sé fullunnið kvikmyndaverk af einhverju tagi. Áhersla er lögð á að nemandur vinni með eigin hugmyndir og byggi á þeirri reynslu í vinnslu kvikmynda sem þau hafa fengið í öðrum námskeiðum misserisins.

  7. Námskeiðið er framhaldsnámskeið frá TÆK 106. Markmiðið er að styrkja enn frekar grunnþekkingu nemenda á helstu sviðum kvikmyndagerðar. Hver nemandi gerir síðan mynd sem á að sýna persónulegan stíl og færni nemanda á hans áhugasviði. Myndin á að geta staðið sem kynningarmynd um nemandann.

  8. Nemendur í öllum deildum þurfa á hverju misseri að skila 1 einingu í samstarfi við aðrar deildir. Markmiðið er að hver deild hafi aðgengi að öllum hinum og upp úr því þróist skapandi samband.

  9. Helstu kvikmyndir sögunnar kynntar, sýndar og ræddar. Sýndar eru tíu myndir á hverju misseri, alls 40 kvikmyndir. Hvert misseri er hugsað sem sneiðmynd af sögunni. Myndirnar eru sýndar að mestu í tímaröð og ná allt frá þögla tímabilinu og fram á seinni hluta tuttugustu aldar. Myndirnar eru kynntar með fyrirlestrum og nemendur taka þátt í umræðum um þær.

Þriðja misseri

  1. Haldið er áfram með þá vinnu sem lögð hefur verið til grundvallar í fyrri leikstjórnarnámskeiðum. Nemendur þróa áfram eigin aðferðir við vinnu með leikurum, auk þess sem kynntar eru helstu stefnur í kvikmyndaleik og leikaraleikstjórn. Verkefni námskeiðsins felst í að æfa senur úr kvikmyndahandritum, leikstýra leikurum í gegnum senurnar og taka þær upp. Þá er samspil leikara og myndavélar skoðað og kynnt hvaða lögmál gilda um stöður, sjónlínur og hvaða áhrif staðsetning myndavélar hefur á leik og hreyfingu leikara. Fjallað er um aðra lykilþætti kvikmyndaleikstjórnar, eins og samstarf við tökumann og annað náið samstarfsfólk.

  2. Í námskeiðinu er hlutverk framleiðandans á upphafs- og lokastigi framleiðslu skoðað nánar og fjallað ítarlega um verkefnaþróun og framleiðslu-, fjármögnunar-, fjárstreymis- og kostnaðaráætlanir fyrir mismunandi framleiðsluverkefni. Einnig er fjallað um gerð samframleiðslusamninga, sölusamninga og markaðssetningu, dreifingu og sölu. Nemendur vinna að gerð umsóknar til Kvikmyndastöðvar. Í námskeiðinu er jafnframt unnið að því að framleiða 3. misseris mynd, öll framleiðslugögn unnin fyrir hana og sett inn í framleiðslumöppu sem skilað er í lok misseris.

  3. Unnið er áfram að þróun stuttmyndahandrits. Farið er nánar í að styrkja persónusköpun og samtöl, jafnframt því að fylla enn betur upp í senu- og atburðalýsingar. Nemendur gera handrit að 7-12 mínútna langri stuttmynd sem verður framleidd síðar á misserinu.

  4. Frjáls tími nemenda til að stunda tilraunir. Nemendur eru hvattir til að rannsaka nýjar leiðir til listsköpunar og tjáningar og gera tilraunir með frásagnarformið. Nemendur vinna sjálfstætt og kynna vinnu sína í lok námskeiðis. Verkið skal vera 5 til 10 mínútna langt og er nemendum frjálst að nota alla þá tækni og aðferðir sem þeir vilja nýta í sköpun sinni; þetta má vera gjörningur, listaverk, tónverk, leikur og tjáning, í myndformi eða lifandi uppákoma eða allt í senn. Nemendur eru hvattir til að vinna saman að samsetningu og framsetningu verkanna á lokasýningu námskeiðis.

  5. Á námskeiðinu er fyrirbærið „fjölkameruvinnsla“  í sjónvarpi skoðað. Rannsakaðir eru innlendir  og erlendir þættir sem teknir eru upp á þennan  hátt og farið ítarlega í vinnsluferli slíkra þátta í samhengi við það helsta sem er gerast fjölkameruvinnslu dagsins í dag. Nemendur vinna í hópaverkefni, þar sem þau framleiða og fullvinna fjölkameruþátt að eigin vali. (Ath. Hér  er átt við annað efni en leikið).

  6. Nemendur leikstýra og framleiða 7 til 12 mínútna stuttmynd eftir eigin handriti. Nemendur vinna tökuáætlun, skotlista, fjárhagsáætlun, samninga, taka upp, klippa og gera stuttmynd tilbúna til sýningar. Ætlast er til að nemendur geti kynnt verkefni sitt strax í fyrsta tíma. Námskeiðið hvetur nemendur til að halda áfram að skoða og þróa eigin aðferðafræði og stíl sem höfundar og stjórnendur.

  7. Fjallað er um myndmál og mynduppbyggingu með því að skoða og skilgreina atriði úr fjölbreyttri flóru kvikmynda frá ýmsum tímabilum. Nemendur gera einstaklingsverkefni sem felst í að lýsa tilfinningu og/eða andrúmslofti og skoða hvernig myndmálið hefur áhrif á framgang þess. Hámarkslengd verkefnisins eru tvær mínútur.

  8. Nemendur í öllum deildum þurfa á hverju misseri að skila 1 einingu í samstarfi við aðrar deildir. Markmiðið er að hver deild hafi aðgengi að öllum hinum og upp úr því þróist skapandi samband.

  9. Helstu kvikmyndir sögunnar kynntar, sýndar og ræddar. Sýndar eru tíu myndir á hverju misseri, alls 40 kvikmyndir. Hvert misseri er hugsað sem sneiðmynd af sögunni. Myndirnar eru sýndar að mestu í tímaröð og ná allt frá þögla tímabilinu og fram á seinni hluta tuttugustu aldar. Myndirnar eru kynntar með fyrirlestrum og nemendur taka þátt í umræðum um þær.

Fjórða misseri

  1. Námskeiðið er tengt lokaverkefni misserisins þar sem sameiginlega er farið yfir leikstjórnarlegar útfærslur á hverju verkefni fyrir sig og þær skoðaðar jafnt út frá handriti og persónulegri afstöðu leikstjórans. Ætlast er til að nemendur nýti sér þær aðferðir sem þeir hafa lært og þróað varðandi vinnu með leikara og myndræna frásögn.

  2. Námskeiðið er upprifjun á kennsluefni fyrri framleiðslunámskeiða og miðar að því að nemendur geti undirbúið og unnið lokaverkefni sín eftir viðurkenndum verkferlum framleiðandans og framleiðslustjórans. Einnig að nemendur notist við þau skipulagsforrit, framleiðslueyðublöð og önnur vinnslutól sem hafa verið kynnt til sögunnar. Leiðbeinandi fer nákvæmlega yfir verkefni hvers og eins og aðstoðar við skipulag. Í námskeiðinu er jafnframt unnið að því að framleiða 4. misseris mynd, öll framleiðslugögn unnin fyrir hana og sett inn í framleiðslumöppu sem skilað er í lok misseris.

  3. Námskeiðið er hugsað sem stuðningur við útskriftarverkefni nemenda. Nemandi getur bæði skrifað handritið sjálfur eða fengið það frá öðrum, en ætlast er til að hann komi með skapandi hætti að þróunarferli þess. Nemendur vinna og kynna hugmyndaskissur og handritsdrög að kvikmyndaverki og er áhersla lögð á söguþráð og frásagnaraðferð, atburðarás og uppbyggingu, vel mótaðar persónur og samtöl. Jafnframt er lögð áhersla á að nemendur vinni út frá og þrói enn frekar sinn eigin persónulega stíl.

  4. Námskeiðið er stoðnámskeið við útskriftarverkefni nemenda LST425G. Í upphafi misseris fer umsjónarmaður námskeiðis yfir það með útskriftarnemendum hvar þeir telji sig helst þurfa aukinn stuðning í framleiðslu lokamyndar. Það getur tengst öllu ferlinu, allt frá handritsvinnu til lokafrágangs í eftirvinnslu. Stuðningurinn getur verið einstaklingsbundinn en best nýting fæst ef hópurinn kemur sér saman um þau svið þar sem hann telur sig þurfa frekari sérfræðiaðstoð og leiðbeiningar.

  5. Fjallað er um hin mörgu og ólíku form heimildarmynda, uppruna þeirra og sögu. Sérstök áhersla er lögð á að rannsaka mismunandi aðferðafræði við meðhöndlun viðfangsefna. Fjallað er um hugmynda- og handritsvinnu, val á aðferðum við upptökur og eftirvinnsluferlið og markaðssetningin rædd með hina ýmsu möguleika til hliðsjónar. Verkefnavinna er mikilvæg á námskeiðinu og felur í sér styttri verkefni og

    svo eina stutta heimildarmynd þar sem reynir á vandvirkni og einbeitingu nemenda.

  6. Um er að ræða einstaklingsverkefni þar sem  nemandi þróar, framleiðir og leikstýrir að  hámarki 15 mínútna löngu kvikmyndaverki að  eigin vali. Verkefnið er jafnframt útskriftar verkefni nemanda og er mikil áhersla lögð á  vönduð vinnubrögð í öllum þáttum vinnslunnar enda  er útskriftarmyndin lokapróf nemandans. 

    Nemandinn skal sjálfur hafa yfirumsjón með verkefninu og sinna hlutverki yfirframleiðanda. Nemandi skal framleiða og leikstýra verkinu en er hvattur til að fá með sér vel starfandi og faglegt framleiðslu- og tökuteymi  þar sem öllum þáttum framleiðslunnar eru gerð góð skil. Nemendur vinna undir handleiðslu  leiðbeinanda.

    Nemendur skulu gera grein fyrir undirbúning sínum að lágmarki 10 dögum fyrir áætlaðar tökur og metur skólinn hvort verkefið teljist hæft til framleiðslu á áætluðum tíma. Ef skólinn metur svo að verkefnið þarfnist meiri undirbúnings, skal nemandi fá tækifæri bæta undirbúning sinn áður en verkefni er frestað.

  7. Fjallað er um kvikmyndagerð nútímans. Hvaða stefnur og straumar hafa verið ríkjandi síðasta áratuginn, hvað er að gerast núna og hvert virðist stefna í nánustu framtíð. Á námskeiðinu er mikið lagt upp úr þátttöku nemenda í að rannsaka og finna svör við þessum spurningum. Nemendur vinna verkefni þar sem þeir fjalla um áhrifavalda í samtímanum.

  8. Nemendur í öllum deildum þurfa á hverju misseri að skila 1 einingu í samstarfi við aðrar deildir. Markmiðið er að hver deild hafi aðgengi að öllum hinum og upp úr því þróist skapandi samband.

  9. Helstu kvikmyndir sögunnar kynntar, sýndar og ræddar. Sýndar eru tíu myndir á hverju misseri, alls 40 kvikmyndir. Hvert misseri er hugsað sem sneiðmynd af sögunni. Myndirnar eru sýndar að mestu í tímaröð og ná allt frá þögla tímabilinu og fram á seinni hluta tuttugustu aldar.

  10. Námskeiðinu er ætlað að undirbúa nemendur fyrir þátttöku á atvinnumarkaði. Fjallað er um stofnun fyrirtækja, helstu starfssamninga og skyldur sem þeim fylgja fyrir verktaka. Farið er yfir opinber gjöld sem standa þarf skil á, s.s. virðisaukaskatt, lífeyrissjóðsgjöld, félagsgjöld og tryggingagjöld. Nemendur vinna að styrktarumsókn til Kvikmyndastöðvar Íslands með kostnaðaráætlun.

Nemendur skrifa...

Hjördís Rósa Ernisdóttir

,,Þessi tvö stuttu ár sem ég var í skólanum kynntist ég ótrúlega flottu fólki bæði nemendum og kennurum. Þau veittu mér innblástur í að segja sögur á listrænan máta í kvikmynda formatinu. Ég útskrifaðist síðustu áramót og síðan þá hef ég haft tækifæri til að taka þátt í erlendum og innlendum verkefnum."

- Hjördís Rósa Ernisdóttir, útskrifaður 2021

Kristján Pétur Jónsson

,,Ég hef stundað kvikmyndagerð síðan ég man eftir mér og hafði dreymt um að fara í kvikmyndanám og varð Kvikmyndaskólinn fyrir valinu. Námið var krefjandi en ég stundaði það með skemmtilegum samnemendum og kennurum. Ég var hissa og ánægður með hversu mikill partur af náminu var verklegur.
Síðan ég útskrifaðist hef ég fengið vinnu á fréttastofu sem grafískur hönnuður og klippari en í frítíma hef ég stundað verktakavinnu í ýmsum verkefnum. Þökk sé náminu virðist kvikmyndabransinn ekki eins fjarri mér og áður."

- Kristján Pétur Jónsson, útskrifaður 2021

Grafíker, Stöð 2

Thordur

Þórður K. Pálsson

,,Þau tvö ár sem ég var nemandi Kvikmyndaskólans voru frábær. Það var hér sem ég áttaði mig fyrst á því hvað ég vildi gera það sem eftir var”

- Þórður K. Pálsson
Leikstjóri - Brot (Netflix)

Sigfús Heiðar Guðmundsson

,,Það sem fékk mig til þess að sækja um KVÍ var það að ég vissi alltaf að ég vildi skapa og ekki fara þá “hefbundnu leið” í lífinu. Fyrir mig var námið gott, en þú færð bara eins mikið út úr þessu námi og þú sjálf/ur ert tilbúin í að setja í það. Maður verður að vera all in bæði í námi og eftir námið. Síðan ég útskrifaðist þá hef ég starfað við fjölda mismunandi verkefna, kennslumyndbönd, auglýsingar, live streymis framleiðslur o.s.frv, seinustu verkefni hafa hins vegar öll verið erlend set bæði bíómyndir, þættir og tölvuleikjamót."

- Sigfús Heiðar Guðmundsson, útskrifaður 2019

Atli Þór Einarsson

,,Fagfólk úr öllum áttum gerir þér kleift að víkka sjóndeildarhringinn sífellt og læra nýja hluti með hverju verkefni”

- Atli Þór Einarsson
Kvikmyndagerðarmaður