Á aðeins 2 mánuðum hafa 84 myndir verið framleiddar í Kvikmyndaskólanum
Kvikmyndaskóli Íslands (KVÍ) er stærsta framleiðslufyrirtæki landsins með yfir hundrað nemendur sem sinna listagyðjunni á hverjum einasta degi
Á hverju ári framleiðir KVÍ yfir þúsund mínútur af gæðaefni frá efnilegustu kvikmyndaskáldum landsins undir leiðsögn bestu kvikmyndagerðarmanna iðnaðarins.
Á venjulegu ári fylla útskrifaðir nemendur úr KVÍ allt að 30% starfsheita í kreditlistum íslenskra bíómynda. Niðurstöður kannana hafa sýnt að 96% nemenda spreyta sig í faginu að námi loknu og um 40% þeirra sem útskrifast fá strax störf og vinna allan tímann við kvikmyndagerð að námi loknu.
Núna í lok október, aðeins tveimur mánuðum eftir að nemendur og kennarar tóku til starfa á haustönn skólans 2022, voru þau búin að framleiða og frumsýna 84 myndir. Þar af höfðu sex myndir verið framleiddar í alþjóðlegu deild skólans (IFS) en þar stundar nám ungt fólk frá hinum ýmsu löndum eins og til dæmis Kína, Mexíkó, Svíþjóð, Hong Kong, Nepal og Indlandi.
Tuttugu og sjö myndir hafa verið framleiddar í kúrsinum Myndmál og meðferð þess (MYN), fjörutíu myndir í Tæki og tækni 107 (TÆK), ellefu myndir í Tæki og tækni 2 (TÆK), fjórar í kúrsinum Tónlistarmyndbönd (TON), ein í kúrsinum Auglýsingar (AUG), ein í kúrsinum Listasaga (LIS) og ein í kúrsinum Tilraun 102 (TIL).