Anna Birna Jakobsdóttir - Leikstjórn og Framleiðsla

Anna Birna mun útskrifast frá Leikstjórn og Framleiðslu þann 27.maí næstkomandi með mynd sína “Dansandi á rósum”.

Dansandi á rósum er falleg og fyndin saga sem fjallar um Baldur sem tekur við vinnu sem liðveitandi Mána, stráks sem er einhverfur. Máni á sér einn draum sem er að keppa í stærstu danskeppni landsins. Þetta virðist ómögulegt þar sem Máni kann ekki að dansa og móðir hans vill vernda hann of mikið frá heiminum. Baldur hjálpar Mána að gera draum sinn að veruleika, hann fær vinkonu sína til að hjálpa sér að undirbúa Mána fyrir keppnina og kenna honum að dansa. Þeir enda svo á því að fara í keppnina þar sem þeir sýna rosalega danssýningu.

-Hver er fyrsta kvikmynda upplifunin sem þú manst eftir?

Kvikmyndagerð var kynnt inn í grunnskólann hjá mér í fjórða bekk. Þar fengum við ipad og við áttum að fara út að taka upp stuttmyndir. Þar var okkur kennt línuna, uppsetningu á Ping pong og fleira sem maður gerði svo sem aldrei almennilega grein fyrir fyrr en maður mætti í Kvikmyndaskólann. Þetta var fyrsta kynning á kvikmyndagerð. Fyrir það horfði ég ekkert mikið á kvikmyndir þar sem ég átti svo fáar. Lína langsokkur var hins vegar oft fyrir valinu :) 

-Hvað heillar þig við kvikmyndagerð?

Ég horfi á kvikmyndagerð sem skemmtilega atvinnu, mér finnst að það eigi að vera gaman að gera bíó, ekki of mikið stress eins og það verður oft. Við erum að gera efni til að skemmta áhorfandanum.

-Hvers vegna varð Leikstjórn og Framleiðsla fyrir valinu?

Ég valdi framleiðslu og leikstjórn þar sem mér fannst það mest spennandi fyrir mig. Námið höfðaði meira til mín og mig langaði að vita meira um framleiðsluna.

-Og hvernig lítur svo framtíðin út?

Úff, það er erfitt að segja. Ég varð ólétt á öðru árinu mínu í skólanum og breyttist margt við það. Ég ákvað þó að klára skólann og mætti með barnið mitt 9 daga gamalt í skólann. Það gekk ótrúlega vel með hann að klára þetta nám og er nú spurning hvað gerist næst. Viðhorf manns breytast smá eftir að maður eignast börn. Mig langar að gera bíó, en þegar ég hef almennilega tök á því.