Antoníus Freyr Antoníusson - Leikstjórn og Framleiðsla
Antoníus Freyr mun útskrifast frá Leikstjórn og Framleiðslu með mynd sína "Meiriháttar menn"
Meiriháttar Menn
Eftir að afmælisveisla fer úr böndunum og endar með óviljandi manndrápi sameina tveir bestu vinir, grasreykingarmenn og upprennandi dópsalar, krafta sína til að losa sig við sönnunargögnin. En einföld líkförgun verður fljótt að flóknara vandamáli sem leiðir vinina í allskyns ógöngur.
Hver er fyrsta kvikmyndaupplifunin sem þú manst eftir?
Fyrsta kvikmyndin sem er virkilega brennd í minnið er norska stop-motion teiknimyndin “Flåklypa Grand Prix” eftir Ivo Caprino frá 1975. Ég var þriggja eða fjögurra ára þegar ég eignaðist hana á VHS og horfði stanslaust á hana sem barn.
Hvað heillar þig við kvikmyndagerð?
Það er ótrúlega margt sem heillar mig við kvikmyndagerð en aðallega er það samvinnan. Að vinna í hóp með skapandi fólki að sameiginlegu markmiði. Og það að kvikmyndagerð er iðnaður sem er mjög ungur og enn í stöðugri þróun. Alltaf nýjar áskoranir og enginn dagur eins, sem er mjög spennandi.
Hvers vegna varð þín deild fyrir valinu?
Hljómaði mest viðeigandi fyrir mig. Ég hef alltaf heillast að því að vera í fararbroddi, að skipuleggja og skapa og þessi deild hljómaði eins og góð blanda af listrænu hliðinni og "business" hliðinni af kvikmyndagerð. Framleiðslan er mjög praktísk og leikstjórnin uppfyllti skapandi þörfina. Þannig ég sé ekki eftir valinu.
Kom þér eitthvað sérstaklega á óvart í náminu?
Hversu mikið ég lærði um aðra anga kvikmyndagerðar en bara þá sem snerta mína deild. Maður fær fullt af tækifærum til að læra á tæknilegu hliðina, kameru, lýsingu og eftirvinnslu, sem nýtist mjög vel.
Hvernig lítur svo framtíðin út?
Framtíðin er bara björt. Kvikmyndaiðnaðurinn er í mikilli uppsiglingu hér á Íslandi sem og annarsstaðar í heiminum og því ættu vonandi að fylgja ýmis tækifæri fyrir ungt kvikmyndagerðarfólk.