Ari Róbertsson - Handrit og Leikstjórn 

Ari mun útskrifast frá Handrit og Leikstjórn með mynd sína "Sjáaldur auga míns"

Sjáaldur auga míns 

Myndin er fjölskyldusaga sem spannar tímabil í lífi þriggja kynslóða. Aðalsteinn og Valdís eru ungt par sem eiga von á barni og flytja inn á æskuheimili Aðalsteins. Þau eru tilbúin að takast á við fjölskylduhlutverkið þegar skuggahliðar fortíðar vekja upp hjá honum blendnar tilfinningar sem skapa erfiðar áskoranir fyrir hann sem verðandi föður. Myndin er með sálfræðilegan undirtón og sýnir hvernig fortíðin eltihrellir Aðalstein og hvernig það hefur áhrif á líf hans og sonar hans og framtíð hans verður ekki sú sama og hann ætlaði sér.


Hver er fyrsta kvikmyndaupplifunin sem þú manst eftir? 

Ég man nú ekki alveg eftir fyrstu kvikmyndaupplifun minni en ég man mjög vel eftir því þegar ég sá “Inception” í bíó árið 2010. Sú mynd hafði mikil áhrif á mig og hefur eflaust haft eitthvað með það að gera að ég fékk áhuga á kvikmyndagerð. Ég var náttúrulega bara níu ára gutti þegar ég sá myndina og skildi ekkert hvað var í gangi en þetta var bara svo töff og sturluð kvikmynd og ég held að kvikmyndaáhuginn hafi fyrst vaknað þá.


Hvað heillar þig við kvikmyndagerð? 

Það sem heillar mig mest við kvikmyndagerð er að geta sagt sögur á sjónrænan hátt og miðlað þeim þannig að áhorfendur geti túlkað þær á mismunandi máta og á persónulegan hátt.


Hvers vegna varð þín deild fyrir valinu?

Ég hef áhuga á því hvernig sögur eru settar fram og hvernig sögur eru sagðar og frá hvaða sjónarhorni sagan er sögð og þess vegna valdi ég Handrit og Leikstjórn.


Kom þér eitthvað sérstaklega á óvart í náminu?

Það kom mér skemmtilega á óvart hvað það var mikill drifkraftur og samvinna í náminu allt frá byrjun. Það kom mér líka á óvart hvað það fer mikil vinna í að gera eina stuttmynd. Það er mikill lærdómur í því að hella sér út í gerð eigin verka og samnemenda og skemmtilegt að vinna með góðu fólki.


Hvernig lítur svo framtíðin út?

Hún er bara spennandi og ég er með nokkur spennandi verkefni sem ég er að vinna að. Og svo á eftir að koma í ljós hvaða tækifæri bíða mín í framtíðinni.