Arnór Fannar Rúnarsson - Skapandi Tækni
Arnór mun útskrifast þann 27.maí næstkomandi frá Skapandi Tækni með mynd sína “Í dimmri fegurð”
Allt virðist vera í blússandi sóma hjá hinum sjarmerandi og vinsæla leikara Daníel, en hann leikur aðalhlutverkið í eftirsóttustu leiksýningu Íslands um þessar mundir. En ekki er allt sem sýnist og virðist Daníel lenda í hverju áfallinu á eftir öðru í sínu persónulega einkalífi. Hann reynir þó að halda því algjörlega út á fyrir sig. En hversu langt er hægt að fara með andlegu heilsuna fyrir listina og stöðu sína í samfélaginu?
-Hver er fyrsta kvikmynda upplifunin sem þú manst eftir?
Það var þegar ég fór í bíó á “The Lion King” 3 ára gamall.
-Hvað heillar þig við kvikmyndagerð?
Það sem heillar mig við kvikmyndagerð er að búa eitthvað til og sjá einhverja sögu verða að veruleika.
-Hvers vegna varð Skapandi Tækni fyrir valinu?
Frá því ég var lítill hef ég alltaf haft áhuga á að taka upp myndbönd og er mér minnistæðast þegar ég var í grunnskóla og fékk gamla VHS myndbandstökutækið frá langafa mínum og bjó til fullt af stuttmyndum og endurgerðum við félagarnir t.d. þætti sem voru mjög vinsælir á þeim tíma, þættina “70 mínútur” á Popptíví.
-Kom þér eitthvað sérstaklega á óvart í náminu?
Það sem kom mér mest á óvart var að ég kynntist öðrum deildum skólans þó ég væri sjálfur á tæknibraut.
-Og hvernig lítur svo framtíðin út?
Framtíðin lítur vel út þar sem ég er kominn með vinnu hjá RÚV og gengur það mjög vel og hef einnig verið að taka upp fyrir Stöð 2.