Egill Andri Reynisson - Leikstjórn og Framleiðsla
Egill Andri mun útskrifast frá Leikstjórn og Framleiðslu með mynd sína "Horfin"
Horfin
Myndin fjallar um Brynju, konu sem leitar að 7 ára dóttur sinni eftir að hún kemur ekki heim úr skólanum á réttum tíma. Hana grunar að hún hafi verið tekin þegar útlitið versnar… En ekki er allt sem sýnist.
Hver er fyrsta kvikmyndaupplifunin sem þú manst eftir?
Ég held að það sé ekkert eitt ljóst svar við þessari spurningu fyrir mitt leyti. Ein mynd sem ég man eftir að hafa horft á þegar ég var yngri heima hjá ömmu og afa var ´Litla lirfan ljóta´ frá árinu 2002. Hún var brennd í heilann á mér því mér fannst köngulóin svo óhugnanleg. Annars veit ég fyrir vissu að fyrsta bíóferðin sem ég man eftir var ferðin á ´Avatar´, hreinlega því ég hafði aldrei séð annað eins.
Hvað heillar þig við kvikmyndagerð?
Það er margt sem heillar mig við kvikmyndagerð en það er sumt sem stendur upp úr. Hún blandar saman tækni sem ég hef mikinn áhuga á og listrænni sköpun sem kitlar ímyndunaraflið. Enn fremur er samvinna lykilatriði en í gegnum árin hef ég lært að elska hópvinnu. Síðast en ekki síst myndi ég segja að hún sé listformið sem á auðveldast með að framkalla tilfinningar úr mér sem mér finnst afskaplega fallegt sem tilfinningavera.
Hvers vegna varð þín deild fyrir valinu?
Ég vissi alltaf að ég vildi fara í leikstjórn þannig að spurningin var bara hvort ég vildi leggja áherslu á framleiðslu eða handrit. Framleiðsla varð fyrir valinu því námið hljómaði hreinlega fjölbreyttara og praktískara. Ég er mjög skipulögð týpa og ég hef lengi haft áhuga á framleiðsluferli kvikmynda.
Kom þér eitthvað sérstaklega á óvart í náminu?
Áður en að ég mætti í skólann var ég hræddur um að ég myndi upplifa mig fáfróðan meðal samnemenda minna sem yrðu einhverjir ofurnördar en það var ekki raunin. Þekking nemenda var jafn ólík og sérsvið þeirra og allir féllu inn í hópinn frekar hratt.
Hvernig lítur svo framtíðin út?
Ég veit ekki alveg hvað mér finnst mest spennandi. Mig langar að koma mér á sett sem fyrst og afla mér reynslu. Í framhaldi langar mig svo að elta áhugasviðið sem heillar mig mest og mögulega sérhæfa mig í því erlendis.