Elísa Gyrðisdóttir - Leiklist
Elísa Gyrðisdóttir mun útskrifast frá Leiklist með mynd sína “Undiralda”
“Undiralda” er svört kómedía sem heldur jafnframt varlega utanum viðkvæmt málefni. Sagan er um Eyju, skemmtilega en kaldhæðna konu sem mætir á ættarmót og sogast þar inn í gamalt meðvirkni mynstur í boði skrautlegra fjölskyldumeðlima. Hún ákveður að brjótast út og láta frænda sinn horfast í augu við þá staðreynd að hann misnotaði hana í æsku. Hann tæklar það á óvæntan hátt en þau þurfa að takast á við það sem flýtur upp á yfirborðið í fjölskyldunni í kjölfarið á þessu. Sagan er byggð á raunverulegum atburðum.
Hver er fyrsta kvikmynda upplifunin sem þú manst eftir og hafði áhrif á þig?
Kvikmyndaupplifanir sem standa upp úr eru líklega þegar ég fór á “Börn náttúrunnar” í bíó á 6 ára afmælinu mínu og “Twin Peaks” sem ég sá þegar ég var 11 ára.
Hvað heillar þig við kvikmyndagerð?
Það sem heillar mig við kvikmyndir sem listform er að þú getur tekið fólk með inn í þinn heim. Það sem heillar mig er að margir skapa listaverkið saman, þú getur ekki gert (góða) bíómynd ein/nn/tt. Það er svo sjaldgæf stemning sem myndast við þessar aðstæður þegar allir eru að halda undir sama listaverkið. Og svo er þetta bara svo ógeðslega gaman.
Hvers vegna varð Leiklist fyrir valinu?
Ég reyndi mitt allra besta til að verða ekki leikari. En hér erum við. Það er margt praktískara til en ekkert skemmtilegra. Ég man ekki eftir mér öðruvísi en að hafa hugsað “hvernig gera þau þetta, hvernig myndi ég gera þetta” í hvert skipti sem ég horfði á bíómyndir, alveg heilluð af leiknum. Ég fór á leiklistarbraut í menntaskóla en kaótísk æska, áföll og átröskun höfðu þau áhrif að ég hafði ekki sjálfsmildina til að leyfa mér að njóta þess að gera þetta. Þegar ég vann í sjálfri mér og þroskaðist upp úr því var þetta augljóst fyrsta val.
Kom þér eitthvað sérstaklega á óvart í náminu?
-Hversu mikið allskonar ólík reynsla er að nýtast mér, það er til dæmis ekkert ólíkt að plana brúðkaup og stór barnaafmæli eða framleiða stuttmynd þannig lagað.
-Hversu gaman mér finnst allt á öllum brautum, hefði nánast verið til í að læra þetta allt.
-Hversu góðu sambandi maður nær við kennarana og ekki síst samnemendur.
-Hvað maður getur náð stórum breytingum fram á stuttum tíma.
Og hvernig lítur svo framtíðin út?
Framtíðin er mjög spennandi í mínum augum, mér finnst ég hafa kunnáttu og getu til að bæði taka þátt í annara verkefnum og skapa mín eigin. Mig langar að skrifa gamanþætti, gera hlaðvörp, leika í bíómyndum og talsetja, fá að kynnast allskonar mismunandi karakterum og lifa þeirra lífi í smá stund og vonandi gefa eitthvað af mér í leiðinni!