Innreið gervigreindar í Kvikmyndaskóla Íslands
Kvikmyndaskóli Íslands hefur stofnað samráðshóp til að greina áhrif og hættur en einnig möguleika AI - Artificial Intelligence, gervigreindar, í kvikmyndagerð
Nefndin - sem hittist á fyrsta fundi sínum í húsakynnum skólans við Suðurlandsbraut 18, föstudaginn síðastliðinn, 9. febrúar - samanstendur af bæði kennurum og nemendum. Hópinn skipa Hrafnkell Stefánsson námsstjóri, Þórey Sigþórsdóttir fagstjóri, Logi Sigursveinsson á tækjadeild skólans og nemendurnir Robin Lilja Talbot, Naila Zahin Ana, Ásthildur Ómarsdóttir, Michelle Pröstler, Þorgeir Sigurðsson og Kristinn Júlíus Smárason.
Frá því að gervigreind kom fyrst á markað í nóvember 2022 hefur hún hrist upp í mörgum geirum samfélagsins og þar á meðal kvikmyndaiðnaðinum. Allt frá því að Aristóteles skrifaði verk sitt "Um skáldskaparlistina"á 4.öld fyrir krist hafa menn reynt að búa til form og formúlur um uppbyggingu sögu og greina frásagnarfræðina. Gervigreindin veitir mörg tækifæri en á slóðum hennar leynast einnig margar hættur. Siðferðislegar spurningar geta angrað enda er virkni gervigreindarinnar á mörkum ritstuldar. Þá eru áhugaverðar viðvaranir heimspekinga eins og Slavok Zizek sem segir gervigreindina ekki ganga út á að ná tökum á umhverfi sínu heldur að sleppa þeim.
Fjöldamargir handritshöfundar eru farnir að nýta sér gervigreindina. Fæstir nota hana til að skrifa en margir þiggja aðstoð hennar við að draga saman texta og búa til treatment og synopsis. Þá eru ótal möguleikar á að nota gervigreindina í eftirvinnslu mynda. Markaðsdeild KVÍ er þegar farin að nota hana í kynningu erlendis og í auglýsingaherferðum sínum.
Á þessum fyrsta fundi vinnuhóps KVÍ var verkefnum deilt á nefndarmeðlimi og mun hópurinn hittast aftur að tveimur vikum liðnum.
Nemendur sem eru útskrifaðir úr KVÍ eru risastór hluti íslensks kvikmyndaiðnaðar. Á venjulegu ári fylla útskrifaðir nemendur úr KVÍ allt að 30% starfsheita í kreditlistum íslenskra bíómynda. Niðurstöður kannana hafa sýnt að yfir 90% nemenda spreyta sig í faginu að námi loknu og um 40% þeirra sem útskrifast fá strax störf og vinna allan tímann við kvikmyndagerð að námi loknu.