Guðný Stefanía Tryggvadóttir - Skapandi Tækni
Guðný Stefanía mun útskrifast frá Skapandi Tækni með mynd sína "Háafell"
Háafell
Myndin er heimildarmynd um geitabóndann Jóhönnu Bergmann Þorvaldsdóttur frá Háafelli í Borgarfirði, hún segir frá sögu sinni og björgun íslenska geitastofnsins.
Hver er fyrsta kvikmyndaupplifunin sem þú manst eftir?
Fyrsta kvikmyndaupplifunin mín var þegar amma mín fór með mig á fyrstu Harry Potter myndina í bíó. Það var frábært þar sem ég er mikill Harry Potter aðdáandi og sérstaklega gott að eiga skemmtilega fyrstu kvikmyndaupplifun með ömmu sinni. Ég ólst upp úti í sveit þar sem var langt í næsta bíó, svo ég kunni alltaf að meta að amma var til í að bjóða mér í bíó þegar ég kom að gista.
Hvað heillar þig við kvikmyndagerð?
Það sem heillar mig mest við kvikmyndagerð er klippingin, í klippiherberginu er mjög ánægjulegt að setja myndina saman smátt og smátt eins og púsluspil. Þessari eftirvinnslu fylgir friðsæld og ánægjuleg ró sem heillar mig svo við klippiferlið. Það gleður mig mjög að líta á vel samsetta mynd og vera stolt af vel unnu verki.
Hvers vegna varð þín deild fyrir valinu?
Ég valdi tæknideild vegna þess að ég hafði klippt mikið áður en ég byrjaði í Kvikmyndaskólanum, ásamt því var ég mikill áhugaljósmyndari. Í eftirvinnslunni og þá sérstaklega klippi liggur mitt áhugasvið. Einnig getur mín sköpunargleði fengið að njóta sín í Skapandi Tækni.
Kom þér eitthvað sérstaklega á óvart í náminu?
Það sem kom mér mest á óvart var að námið var mun erfiðara en ég bjóst við. Það var mjög krefjandi að vinna á setti en það fékk mig líka til að kunna enn betur að meta vinnuna sem fer í kvikmyndagerð, að skapa alls konar fjölbreyttar og skemmtilegar myndir og að vinna í eftirvinnslunni. Þessum verkefnum fylgdu miklir erfiðleikar en ég hef lært að sýna þrautseigju og gera mitt besta við öll verkefni sem ég hef unnið að.
Hvernig lítur svo framtíðin út?
Ég stefni á að finna starf við klippingu eða eftirvinnslu hjá sjónvarpsstöð, framleiðslufyrirtæki eða kvikmyndaframleiðanda. Þar að auki er heill hafsjór af möguleikum við alls konar sjálfstæð verkefni víðsvegar.