Hafsteinn Eyvar Jónsson - Skapandi Tækni

Hafsteinn Eyvar mun útskrifast frá Skapandi Tækni með mynd sína "Dýpi Viskunnar"

Dýpi Viskunnar

Myndin er gaman/hryllingsmynd um listsafnara sem verður dolfallinn af bölvuðu málverki. Bölvunin, eða nánar tiltekið draugurinn í málverkinu, hræðir manninn ekkert, en hún er það sem hann telur að muni gera málverkasafnið hans að því besta í heimi. En hann lendir í hættu á að missa allt og alla í kringum sig þegar málverkið streitist gegn eiganda sínum með því að rústa öllu í umhverfinu og hræða ástvini hans.


Hver er fyrsta kvikmyndaupplifunin sem þú manst eftir?

Þegar foreldrar mínir sýndu mér og systrum mínum “Cactus Jack” og hótuðu því að sýna okkur aldrei aftur kvikmynd ef okkur þætti hún ekki nógu fyndin. Þannig ég man eftir því að hlæja mjög skýrt þegar eitthvað fyndið gerðist.


Hvað heillar þig við kvikmyndagerð?

Mér finnst gaman að fá fólk til að hlæja og tilfinningin er góð þegar mér líður eins og ég sé fyndinn gæi. Hins vegar þegar grínefni er í beinni eða uppi á sviði, þá er margt sem getur farið úrskeiðis sem hræðir mig mjög mikið, ég þarf að fá tíma til að ritskoða mig og þess vegna hefur minn áhugi á gríni haldist að mestu í leiknu efni á skjánum þar sem enginn möguleiki er á að maður gefi óvart frá sér feitt ófyndið klúður út í heiminn.

Hvers vegna varð þín deild fyrir valinu?

Ég hef í rauninni áhuga á flestöllum sviðunum: handritsskrifum, leikstjórn, kvikmyndatöku og leik, en reyndar ekki framleiðslu, hún heillar ekki. En ég valdi Skapandi Tækni því ég var hræddur um að ef ég myndi ekki ná langt að þá hefði ég allavega fínt atvinnuöryggi.


Kom þér eitthvað sérstaklega á óvart í náminu?

Ég endaði á að vera mjög feginn að hafa valið Skapandi Tækni því ég bjóst við að leggja mikla áherslu á að verða klippari, því mér hefur alltaf liðið mjög kjánalega þegar ég hef haldið á myndavél en svo fann ég mikinn áhuga á tökumannsstöðunni eftir að hafa lært meira á þær. Nú er það meðal annars það skemmtilegasta sem ég geri að plana skot.


Hvernig lítur svo framtíðin út?

Frekar löng og dimm göng af fátækt sem ég þarf að koma mér út úr, það er ekki ódýrt að leigja íbúð og greiða skólagjöldin með takmarkaða fjárhagslega hjálp á sama tíma. En ljósið í endanum virðist vera svakalega bjart.