Haggai Birnir Moshesson - Leikstjórn og Framleiðsla
Haggai Birnir mun útskrifast frá Leikstjórn og Framleiðslu með mynd sína "Síðasta sumar"
Síðasta sumar
Sigrún flytur út á land í sumarvinnu við heimahjúkrun. Þar kynnist hún Sævari og myndar tengsl við hann yfir sumarið.
Hver er fyrsta kvikmyndaupplifunin sem þú manst eftir og hafði áhrif á þig?
Ég held að mín elsta minning tengd kvikmyndum sé að horfa á “Monsters Inc” með pabba mínum þó hún hafi kannski ekki haft mikil áhrif á mig sem kvikmyndagerðarmann þá er hún uppáhalds teiknimyndin mín enn þann dag í dag. En Star Wars er myndin sem hafði lang mest áhrif á mig og lét mig velta fyrir mér hvað færi í að gera bíómyndir og leiddi síðan til þess að ég fór að kanna málið.
Hvað heillar þig við kvikmyndagerð?
Fyrst og fremst það að þetta sé samvinna og á sama tíma listform, þar sem að, ef fólk gerir hlutina rétt, eru allir að vinna saman að sama sköpunarverki og ég sé það ennþá betur eftir tímann minn í þessum skóla hversu mikilvægt er að hafa gott teymi sem maður treystir og ber virðingu fyrir.
Hvers vegna varð Leikstjórn og Framleiðsla fyrir valinu?
Satt að segja þá byrjaði ég á braut Handrita og Leikstjórnar og ákvað síðan að skipta yfir í framleiðslu. Ég fann að ég vildi frekar eyða meiri tíma í að vinna með fólki á setti heldur en að sitja mikið einn við tölvu að skrifa. Þegar ég finn að ég brenn fyrir handriti þá finnst mér meiriháttar að sitja við tölvuna og skrifa, en ég er mjög þakklátur fyrir reynsluna sem ég fékk úr samskiptum við fólk. Ég lærði meira um kvikmyndagerð sem heild af því að framleiða.
Kom þér eitthvað sérstaklega á óvart í náminu?
Það kom mér á óvart hvað ég hef mikinn áhuga á hlutum sem ég hélt ég hefði ekki áhuga á, eins og að klippa, lýsa eða hljóðvinna. Líka hvað andinn í skólanum er góður og hvað fólk er tilbúið að fórna miklu fyrir hvert annað.
Hvað langar þig að gera í kvikmyndaiðnaðinum að námi loknu?
Ég byrjaði í þessum skóla af því að ég sagði “mig langar að búa til bíómynd” þegar ég var spurður um hvað ég vil gera áður en ég dey. Mynd sem ég skrifa, leikstýri, klippi og framleiði sjálfur. Núna þegar ég er búinn í skólanum finnst mér því markmiði mínu vera náð en ég er samt engan veginn saddur af kvikmyndagerð og ég bíð spenntur eftir að ástríðan kvikni fyrir næsta verkefni.