Útskrift Vetur 2022 - Helga Dís Hálfdánardóttir, Skapandi Tækni
Helga Dís Hálfdánardóttir útskrifast frá Skapandi Tækni með mynd sína “Tarfurinn”
“Tarfurinn” er heimildamynd um Víði “Tarf” Þorgeirsson sem er meðlimur í Outlaws á Íslandi. Við skyggnumst inn í líf hans, hver hann var og hver hann er í dag.
Hver er fyrsta kvikmynda upplifunin sem þú manst eftir?
Fyrsta kvikmynda upplifun mín var myndin “Never Ending Story” í Stjörnubíói. Ég hef verið um þriggja ára aldur og ég man að ég fór með mömmu og Halla bróður mínum. Í myndinni gerðist mjög dramatískur atburður þar sem hvítur hestur sökk í mýrarfen og samkvæmt bróður mínum varð dagurinn algjörlega ónýtur eftir það, ég grenjaði víst alla leiðina heim og mamma lét þau orð falla við bróður minn; “Við skulum ekki fara aftur með Helgu Dís í bíó”.
Hvað heillar þig við kvikmyndagerð?
Það sem heillar mig mest við kvikmyndagerð er hvernig hún endurspeglar samfélagið og hefur áhrif á það á sama tíma. Hún getur verið áskorun fyrir áhorfendur, jafnvel breytt viðhorfum og gildum áhorfenda, og varpað ljósi á ýmis málefni sem annars eiga ekki rödd eða málsvara og komið þeim upp á yfirborðið.
Hvers vegna varð þín deild fyrir valinu?
Ég valdi Skapandi Tækni af því ég vildi læra að ná tökum á að segja sögur sjónrænt og læra ferlið frá upphafi til enda. Mér finnst mjög áhugavert hvernig það er hægt að hafa áhrif á skilningarvitin í gegnum tæknina með hljóði og mynd.
Og hvernig lítur svo framtíðin út?
Kvikmyndaskólinn þroskaði mig mjög mikið, hann var mér mjög lærdómsríkur og ég er virkilega þakklát fyrir að hafa verið nemandi í honum. Ég kynntist frábærum leiðbeinendum, lærði mikið á stuttum tíma og er komin með verkfæri í farteskið til að láta hugmyndir verða að veruleika.
Það veit Óðinn.