Höfundar „Á ferð með mömmu“ í forystu Kvikmyndaskólans
Einvalalið kennara í Kvikmyndaskóla Íslands á vorönn
Rúmlega hundrað nemendur eru á vorönn 2023 í Kvikmyndaskóla Íslands (KVÍ) og til að leiðbeina þeim eru árangursríkustu kvikmyndagerðar- og listamenn landsins. Þeirra á meðal eru Hilmar Oddsson fagstjóri Leikstjórnardeildar KVÍ og Hlín Jóhannesdóttir fagstjóri Framleiðsludeildarinnar en þau frumsýndu á dögunum bíómyndina "Á ferð með mömmu" sem nú þegar er farin að vinna til alþjóðlegra verðlauna. Þá kenna einnig Rúnar Guðbrandsson, fagstjóri Leiklistardeildarinnar og Þórey Sigþórsdóttir fagstjóri Leiks & raddar á vorönninni en Rúnar frumsýndi á dögunum "Marat/Sade" í Borgarleikhúsinu með landsliði leikara og Þórey Sigþórsdóttir frumsýndi nýlega "Ég lifi enn" í Tjarnarleikhúsinu, bæði leikverkin hafa fengið afbragðs góðar viðtökur. Arnar Benjamín Kristjánsson kennir einnig við Kvikmyndaskólann en hann er fyrrum nemandi skólans og einn framleiðenda "Villibráðarinnar" sem frumsýnd var í janúar síðastliðinn og er nú þegar orðin tekjuhæsta íslenska kvikmyndin síðan mælingar hófust árið 1992.
Nemendur sem eru útskrifaðir úr KVÍ eru risastór hluti íslensks kvikmyndaiðnaðar. Á venjulegu ári fylla útskrifaðir nemendur úr KVÍ allt að 30% starfsheita í kreditlistum íslenskra bíómynda. Niðurstöður kannana hafa sýnt að 96% nemenda spreyta sig í faginu að námi loknu og um 40% þeirra sem útskrifast fá strax störf og vinna allan tímann við kvikmyndagerð að námi loknu.
Auk þeirra kennara KVÍ sem þegar hafa verið nefndir skipa hópinn meðal annars:
María Reyndal, Reynir Lyngdal, Ninna Pálmadóttir, Marsibil Sæmundardóttir, Teitur Guðmundsson, Jón Már Gunnarsson, Logi Hilmarsson, Arnar Már, Baldvin Albertsson, Vera Sölvadóttir, Lee Lorenzo Lynch, Ágústa Margrét Jóhannsdóttir, Olaf de Fleur, Heiðar Sumarliðason, Kjartan Kjartansson, Elvar Gunnarsson, Gunnar B. Guðmundsson, Tinna Ágústsdóttir, Þórunn Clausen, Sigrún Gylfadóttir, Tinna Pálmadóttir, Kolbrún Anna Björnsdóttir, Arna Magnea Danks, Jói Jóhannesson, Jóel Sæmundsson, Sara Nassim, Ólöf Birna Torfadóttir, Oddný Sen og Dögg Mósesdóttir. Allt saman hámenntaðir og/eða margverðlaunaðir listamenn, sérfræðingar í sínu fagi.
Þess má geta að kynjaskiptingin er jöfn í kennaraliði KVÍ auk þess sem kjarnafög KVÍ eru kennd eingöngu af kvenfólki en Kjarnanum stýrir Dr. Oddný Sen.