KVÍ á Alþjóðlegri ráðstefnu kvikmyndaháskóla í San Sebastian á Spáni
Dagana 10.-13.október síðastliðna var haldin árleg ráðstefna CILECT (Centre International de Liaison des Écoles de Cinéma et de Télévision) sem eru alþjóðleg samtök sjónvarps- og kvikmyndaskóla í heiminum
Fulltrúar Kvikmyndaskóla Íslands á ráðstefnunni voru Ágústa Margrét Jóhannsdóttir, Börkur Gunnarsson og Hrafnkell Stefánsson
Aðalsalur ráðstefnunnar var yfir hundrað ára gamalt leikhús, Victoria Eugenia Theater, í miðbæ San Sebastian. Á ráðstefnunni voru á fjórða tug fyrirlesara sem fjölluðu ýmist um nýja tækni í kvikmyndageiranum, ný áhersluatriði í vinnunni eða nýja strauma og stefnur.
Þá voru haldnir stjórnarfundir í ýmsum deildum CILECT en fulltrúar Kvikmyndaskóla Íslands sóttu fundi evrópsku deildarinnar sem nefnist GEECT (Groupement Européen des Écoles de Cinéma et de Télévision).
CILECT var stofnað í Cannes í Frakklandi árið 1954 en til hinnar frægu kvikmyndaborgar höfðu verið kallaðir fulltrúar frá frægustu kvikmyndaháskólum heimsins; frá Frakklandi, Ítalíu, Póllandi, Spáni, Bretlandi, Bandaríkjunum og þáverandi Sovétríkjunum.
Í dag eru innan CILECT yfir 180 kvikmynda menntastofnanir á háskólastigi frá 65 löndum, 6 heimsálfum með yfir 9000 kennurum innanborðs og yfir 55.000 nemendur stunda nám innan veggja þeirra. Þegar með eru talin alumni þessara skóla er um 1,330,000 manns sem eru beint eða óbeint undir regnhlíf samtakanna.
Kvikmyndaskóli Íslands hefur verið í CILECT frá árinu 2011 og tekur þátt í starfsemi samtakanna út um allan heim.