Kvikmyndaskólinn að sprengja utan af sér húsnæðið vegna árangurs IFS
Kvikmyndaskóli Íslands (KVÍ) hefur sprengt húsnæðið utan af sér. Aðalástæðan er opnun alþjóðlegrar deildar skólans (International Film School - IFS) síðasta haust
Mikill áhugi reyndist fyrir deildinni og barst gríðarlegur fjöldi fyrirspurna um hana allstaðar að úr heiminum. Það leiddi til 44 umsókna um skólavist og eftir inntökupróf voru 6 teknir inn í deildina. Þau hófu nám í september síðastliðinn. Sama var uppi á teningnum fyrir vorönnina og bárust 38 umsóknir um vist og stóðust 7 nemar inntökuprófin sem hófu nám níunda febrúar síðastliðinn. Nemendurnir koma allstaðar að; frá Nepal, Kína, Bandaríkjunum, Svíþjóð, Spáni, Indlandi, Mexíkó og víðar.
Kvikmyndaskóli Íslands sem er með til umráða 2300 fm svæði á Suðurlandsbraut 18 hefur haft 18 kennslustofur til umráða ef stúdíóin tvö og bíósalurinn eru talin með auk þriggja kaffistofa, sautján skrifstofa fyrir prófessora og leiðbeinendur, hlaðvarpsstúdíós, tækjageymslu, fundarherbergis og fagstjóraherbergis. Nú hefur stærstu skrifstofunni verið breytt í nítjándu kennslustofuna til að geta sinnt kennslu og er tuttugasta stofan í smíðum.
Nemendur sem eru útskrifaðir úr KVÍ eru risastór hluti íslensks kvikmyndaiðnaðar. Á venjulegu ári fylla útskrifaðir nemendur úr KVÍ allt að 30% starfsheita í kreditlistum íslenskra bíómynda. Niðurstöður kannana hafa sýnt að 96% nemenda spreyta sig í faginu að námi loknu og um 40% þeirra sem útskrifast fá strax störf og vinna allan tímann við kvikmyndagerð að námi loknu.