Leynist í þér handritshöfundur?
Kvikmyndaskóli Íslands býður upp á fría vinnustofu í handritagerð þann 14. maí næstkomandi, fyrir fólk á aldrinum 18-29 ára
Kvikmyndaskólinn er fulltrúi Northern Script á Íslandi, sem er sam norrænn viðburður haldinn til að efla handrits skrif á Norðurlöndunum. Að því tilefni bjóðum við upp á handrita vinnustofu þann 14.maí næstkomandi og verður hún leidd af Kolbrúnu Önnu Björnsdóttur, handritshöfundi Vitjana sem nú eru í sýningum á RÚV. Fyrir utan þá kunnáttu sem fólk nær í á námskeiðinu, sem nær yfir grunn vinnuaðferðir við uppsetningu og skipulag handrits, mun þátttakendum verða boðið að senda inn sín handrit eftir vinnustofuna og úr innsendum verður valinn einn þátttakandi sem fær tækifæri á að taka þátt í vikulangri vinnustofu sem haldin verður í Finnlandi í nóvember næstkomandi.
Þetta er augljóslega frábært tækifæri til að þróa góðar hugmyndir og er opin öllum þátttakendum, án kostnaðar, á aldrinum 18-29 ára. Skráning þarf að eiga sér stað fyrir 12.maí næstkomandi á tölvupóstfangið kvikmyndaskoli@kvikmyndaskoli.is , en þar er einnig hægt að nálgast frekari upplýsingar.