"Ljósvíkingar", nýjasta verk Snævars Sölvasonar

Snævar á að baki mörg glæsileg verk eftir útskrift sína frá Kvikmyndaskólanum og fengum við að fræðast um það nýjasta sem komið er í sýningar

Snævar Sölvason útskrifaðist árið 2014 og fagnar því 10 ára útskriftar afmæli sínu um þessar mundir og höfum við fengið að fylgjast með honum í gegnum tíðina. Tók hann vel í, þrátt fyrir að vera með nóg á sinni könnu í kringum frumsýningar "Ljósvíkinga", að svara nokkrum spurningum um sitt nýjasta verk.

Hvaðan kom hugmyndin að handritinu?

Hugmyndin kviknaði þegar ég var að borða fisk á fiskveitingastað á Ísafirði. Svo bættist við hugmyndina á næstu árum þar til ég var kominn með sögu um tvo vini sem reka fiskveitingastað þar sem annar kemur út sem trans kona, en það efnisatriði kviknaði þegar ég var að horfa á heimildarmynd, sennilega árið 2013, um fólk sem hafði lifað í skápnum öll sín fullorðinsár.

Hvernig gengu skrifin fyrir sig, átt þú þér verkferli sem þú notar?

Skrifin gengu vel fyrir sig og gera það oftast nær. Ferlið mitt er þannig að ég punkta niður hjá mér stöðugt þar til ég er kominn með mjög mikið efni fyrir tiltekna sögu. Þetta glósuferli geta verið nokkrir mánuðir upp í mörg ár. Ljósvíkingar var kannski svona 2 ár áður en ég settist niður og skrifaði svokallað "treatment" og sótti um handritastyrk hjá Kvikmyndamiðstöðinni. Eftir að ég fékk styrk í kringum 2014 skrifaði ég fyrsta uppkastið af handritinu. Þá liðu nokkur ár á meðan var verið að leita að fjármagni og tíman nýtti ég til þess að skrifa önnur handrit og þróa verkefni. Yfir þennan tíma uppfærði ég handritið af Ljósvíkingum ef mér datt eitthvað nýtt í hug. Í kringum covidið fékk ég svo Veigu Grétarsdóttur (trans kona á Ísafirði) til þess að hjálpa mér með sögupersónuna Birnu og átti Veiga svo mikið í henni þegar uppi var staðið, að ég gat hreinlega ekki annað en gefið henni sögu-credit.

Hvert var ferlið frá skrifum að kvikmyndatöku?

Birgit Guðjónsdóttir var kvikmyndatökumaður verkefnisins og á fyrsta fundi ákváðum við að skjóta myndina á anamorphic linsur. Svo var farið í vettvangsferð á helstu tökustaði, gerður skotlisti og floor-plan. Það ferli var í raun ósköp náttúrulegt. Ég vissi hvað ég vildi út frá fagurfræðisjónarmiðum (t.d. aldrei hand-held eða B og C camerur) og Birgit var sammála mínum hugmyndum, auk þess sem hennar hugmyndir féllu að mínum smekk, svo þetta gekk að mestu snuðrulaust fyrir sig.

Hvað stjórnaði leikara valinu?

Ég var með lista af leikurum sem ég held mikið upp á og Vigfús í Doorway casting tók að sér að boða fólk í prufur. Það ferli gekk eins og í sögu, yfir 90% af þeim leikurum sem ég var með efst á óskalistanum vildu taka þátt og eftir að helstu leikararnir voru í höfn var mér ansi létt, því ef maður er ekki með réttu leikarana í burðarhlutverkunum verður vinnan mín ekki bara erfið í tökum heldur mjög erfið í klippiherberginu.

Hvernig gekk tökuferlið fyrir sig?

Krefjandi á köflum vegna veðurbreytinga en alltaf tókst okkur að leysa málin.

Einhverjar skemmtilegar minningar eða uppákomur við tökur?

Mér brá ansi mikið þegar ég sá Örnu í fyrsta skiptið í gervinu Björn, en ég kveikti ekki strax hver væri að heilsa mér þegar hún í fríðu föruneyti mætti á settið fyrsta tökudaginn. Einnig var eftirminnilegt þegar við kláruðum síðustu tökuna á Birni, Örnu var svo létt, en við skutum Björn fyrstu vikuna og svo næstu vikurnar á eftir var Birna filmuð, en við fórum aldrei til baka eftir að sögupersónan var komin út því hárlit og meira til þurfti að taka í gegn.

Hver var upplifunin við að sjá myndina á stóra skjánum?

Það er alltaf jafn magnað, sérstaklega með fullan sal af fólki. Maður lærir hvað er að virka og festir það í minni.

Með alla þína reynslu í kvikmyndaiðnaðinum á Íslandi, hvað heldur þú að myndi opna leið ungs fólks til að verða hluti af honum?

Það fer allt eftir því hvað þú vilt fást við innan geirans. Ef þú vilt komast áfram sem leikstjóri er skemmsta leiðin að skrifa handrit sjálfur, fleiri en eitt, og reyna að koma þeim áfram. En heilt yfir mæli ég með því að troða mér inn í þau stóru verkefni sem eru á leið í tökur, hvort sem þú þarft að grilla samlokur eða skutlast og sendast, bara fá að vera með og kynnast fólkinu sem starfar í þessu. Þá auðgarðu þitt tengslanet smám saman og færð fólk með þér í lið ef þú sýnir dugnað og áhuga.

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Kýldu á það!