Magdalena Ólafsdóttir - Handrit og Leikstjórn

Magdalena mun útskrifast þann 27.maí næstkomandi frá Handrit og Leikstjórn með mynd sína “Skýjaborgin”.

Myndin fjallar um ævintýragjarnt barn sem einsetur sér að finna horfinn pabba sinn og lendir í kjölfarið í óvæntri atburðarás knúna af eigin ímyndunarafli. 

-Hver er fyrsta kvikmynda upplifunin sem þú manst eftir?

Ég átti það til að stelast í “Breakfast at Tiffanys” hjá nágrönnum okkar sem áttu hana á spólu þegar ég var mjög ung. Ég skildi ekki ensku eða neitt um söguþráð myndarinnar en bara það að horfa á Audrey Hepburn var konfekt. Grét líka alltaf jafn sárt þegar kötturinn var skilinn eftir í rigningunni. 

-Hvað heillar þig við kvikmyndagerð?

Ég finn ekki þörf til þess að tala mikið um tilfinningar almennt þannig ég tjái þær frekar með skrifum eða þá sjónrænt í þeim myndum sem ég hef gert í skólanum. Mér finnst ég líka komast næst því að skilja upplifanir og tilfinningar annara með því að sjá það á skjánum. Það einhvern veginn stækkar heiminn.

-Hvers vegna varð Handrit og Leikstjórn fyrir valinu?

Fyrir mig var þetta mjög auðvelt val en ég valdi leikstjórnar og handritsbraut af því ég skrifa mikið og fannst leikstjórnin líka spennandi.

-Kom þér eitthvað sérstaklega á óvart í náminu?

Námið hefur verið allskonar og mjög margt sem ég er mjög ánægð með og annað ekki. Það sem hefur komið mér mest á óvart er hvernig námið hefur verið það skemmtilegasta sem ég hef gert en líka það erfiðasta.

-Og hvernig lítur svo framtíðin út?

Vonandi fæ ég tækifæri til þess að taka upp og skrifa mínar eigin myndir í framtíðinni. Einhvern tímann ætla ég að prófa náttúrulífs myndagerð, að búa í ár á Suðurskautslandinu til að mynda mörgæsir væri toppurinn.