Naila Zahin Ana - Leikstjórn og Framleiðsla

Naila mun útskrifast frá Leikstjórn og Framleiðslu með mynd sína "Aflausn"

Aflausn

Yousuf, sem er trúaður innflytjandi á Íslandi, verður náinn samstarfsmanni sínum Lucas. Þegar Lucas játar honum ást sína verður Yousuf að samræma trúarskoðanir sínar og samkynhneigð.


Hver er fyrsta kvikmynda upplifunin sem þú manst eftir og hafði áhrif á þig?

Fyrsta myndin sem ég man eftir að hafa séð var „Titanic“. Ég fór með mömmu og frænku minni og kvikmyndahúsið ritskoðaði nektarmálverkið. Fyrsta myndin sem virkilega vakti athygli mína var ‘Eternal Sunshine of the Spotless Mind’. Ég sá myndina þegar ég var frekar ung og hún hafði djúp áhrif á mig. Hún er ennþá ein af uppáhalds myndunum mínum.


Hvað heillar þig við kvikmyndagerð?

Ég yrði að segja sköpunarferlið. Þú ert með þessa hugmynd í hausnum. Þú skrifar hana niður og býrð til handrit, þú færð annað fólk til að vinna með þér sem teymi og þeir gera hugmyndir þínar alltaf betri. Síðan ferðu í gegnum erfiða en afskaplega skemmtilega forvinnslu, upptökur og klippingu. Eftir alla þá vinnu ertu með kvikmynd sem þú getur í raun sýnt öðru fólki. Hugmynd sem þú fékkst mun lifa að eilífu svo aðrir geti séð og notið/gagnrýnt. Og með þessari mynd geturðu kallað fram í þeim hamingju, sorg, reiði, innblástur - hvaða tilfinningu sem þér dettur í hug. Það eru töfrum líkast!


Hvers vegna varð Leikstjórn og Framleiðsla fyrir valinu?

Ég hef verið atvinnurithöfundur og blaðamaður í mörg ár áður en ég ákvað að læra kvikmyndagerð. Svo ég vildi ekki læra að skrifa aftur. Ég hélt að framleiðsla myndi henta mér vel vegna þess að ég elska að búa til áætlanir og stjórna fólki í samræmi við þær áætlanir. Svo ekki sé minnst á öll skemmtilegheitin sem ég gæti upplifað með vandlega skipulögðum töflureiknum og litakóðuðum glósum. Ég hafði ekki rangt fyrir mér.


Kom þér eitthvað sérstaklega á óvart í náminu?

Það sem kom mér mest á óvart var magn hagnýtrar þekkingar sem fer í kvikmyndagerð. Sem áhorfendur sjáum við aðeins lokaniðurstöðuna sem er algjörlega háð tilfinningum og næmleika. En þessi sköpunarkraftur byggir á gífurlegri hagkvæmni, ströngu skipulagi og vandvirkni í tækni.

Annað sem kom á óvart var líka hversu marga vini ég eignaðist í skólanum. Ég er ekki íslensk og tök mín á íslenskunni eru í besta falli einföld. En jafnvel með þessa takmörkun hefur mér tekist að eignast vonandi vini fyrir lífstíð og samstarfsfólk sem mér þykir einstaklega vænt um.


Og hvernig lítur svo framtíðin út? 

Í framtíðinni myndi mig virkilega langa að helga líf mitt kvikmyndagerð í hvaða formi sem er. Ég hef leitað allt mitt líf að sannri ástríðu og ég fann hana á kvikmyndasetti. Þannig að núna krossa ég fingur og vona bara það besta.