Pálmi Sigurðsson - Skapandi Tækni

Pálmi mun útskrifast frá Skapandi Tækni með mynd sína "The Non-friction Philosophy"

The Non-friction Philosophy

Myndin fjallar um bandaríska fjölskyldu sem heldur matarboð á Íslandi, en boðið fer á annan endann þegar móðirin bölvar fyrir framan börnin sín, en fólkið í boðinu er misgott.

Myndin er farsi sem dregur innblástur sinn frá þáttunum “It's Always Sunny in Philadelphia”.


Hver er fyrsta kvikmyndaupplifunin sem þú manst eftir?

Fyrsta kvikmyndin sem ég man eftir að horfa á var Mulan á spólu í litlu túbusjónvarpi. Ég horfði á hana örugglega um það bil 100 sinnum í gegnum árin. Sú mynd opnaði augu mín fyrir mismunandi menningum í heiminum og get ég ennþá sungið lögin frá myndinni í dag.


Hvað heillar þig við kvikmyndagerð?

Nú til dags hefur eftirvinnsla hljóðs gripið mig og ekki sleppt.  Mér finnst ótrúlega gaman að púsla saman hljóðheiminum og passa að allt saman sé fullkomið í myndum. Áður fyrr var kvikmyndagerð góð og skapandi ástæða til að hafa gaman með vinum.


Hvers vegna varð þín deild fyrir valinu?

Mér fannst alltaf gaman af því að vera á bak við myndavélina og hafði áhuga á því að klippa myndir. Þannig að Skapandi Tækni var augljóst val fyrir mig.


Kom þér eitthvað sérstaklega á óvart í náminu?

Örugglega staðreyndin að ég skipti yfir í eftirvinnslu hljóðs eftir að ég prófaði hana. Annars hef ég nú fundið minn stað í kvikmyndaheiminum og ég ætla ekki að víkja frá honum, í nánustu framtíð allavega. 


Hvernig lítur svo framtíðin út?

Framtíðin er frekar opin en annars eru núverandi plönin að fá leyfi til notkunar á ProTools og fá meiri reynslu hér á Íslandi. Á meðal þess sem ég vil gera er einnig að hljóðvinna tölvuleik. Hins vegar er langtíma draumurinn að ferðast um víða veröld og vonandi geta unnið að heiman í leiðinni.