Rakel Jóna Ásbjörnsdóttir - Leiklist

Rakel Jóna mun útskrifast frá Leiklist með mynd sína "Hvenær er komið nóg?"

Hvenær er komið nóg?

Kynferðisbrot er stórt vandamál í nútíma samfélagi og geta afleiðingar þess verið mismunandi. Dimma varð fyrir stafrænu kynferðisbroti sem unglingur og hefur sú reynsla elt hana inn í fullorðinsárin og sjáum við hvernig afleiðingar þess hafa haft áhrif á hana í gegnum lífið. Myndin er byggð á sönnum atburðum og sjónarsvið hennar byggt á eintali.

Hver er fyrsta kvikmyndaupplifunin sem þú manst eftir?

Ég hef í raun ekki eina minningu, en ég man eftir að lifa mig mikið inn í allar myndir, horfði á Narníu og í hvert skipti sem ég gekk um skóg eða það snjóaði þá var ég alveg handviss um að nú væri ég komin til Narníu og færi alveg að fara að hitta persónurnar. Ég man eftir að skylmast við tré og fara í leik við systkini mín að við værum föst á eyðieyju eftir að horfa á “Pirates of the Caribbean”. Ímyndunaraflið fór alltaf á flug eftir hverja mynd sem ég horfði á. 


Hvað heillar þig við kvikmyndagerð?

Í raun tengist það við fyrsta svarið mitt, kvikmyndagerð gerir mér kleift að opna alveg inn í ímyndunaraflið og láta hvað sem er gerast, láta alla skrítnu draumana verða að veruleika. 


Hvers vegna varð þín deild fyrir valinu?

Leiklist varð fyrir mínu vali því ég vissi að ég myndi finna mig þar. Leiklist hefur alltaf verið partur af mínu lífi, setja upp leiksýningar fyrir mömmu og pabba, syngja og dansa. Ég fæ líka að nýta allar mínar lífsreynslur í eitthvað skemmtilegt og fæ að vera og gera allt sem mig hefur nokkurn tímann dreymt um að gera, þó það sé allt í plati.


Kom þér eitthvað sérstaklega á óvart í náminu?

Nei, í rauninni ekki. Ég kannski fékk að læra meira á tæknilegu hlið kvikmyndagerðar en ég bjóst við, en það var bara gaman. 


Hvernig lítur svo framtíðin út?

Það er aldrei að vita hvað framtíðin planar fyrir mann, en mig langar að fara að gera mínar eigin kvikmyndir, vonandi með skemmtilegt lið á bak við mig og bara fíflast, hafa gaman af lífinu.