Rektor Kvikmyndaskólans farinn til Úkraínu

Rektor Kvikmyndaskóla Íslands, Börkur Gunnarsson, er farinn til Úkraínu að klára heimildarmynd um þær menningarbreytingar sem eiga sér stað í landinu þessa stundina

Á meðan mun Hlín Jóhannesdóttir framleiðandi og starfsmannastjóri KVÍ sinna störfum rektors. En hún hefur undanfarna mánuði verið upptekin við að fylgja eftir nýjustu bíómynd sinni, "Á ferð með mömmu", sem Hilmar Oddsson, fagstjóri Leikstjórnardeildar KVÍ, skrifaði og leikstýrði og hefur slegið í gegn á Íslandi og víðar.

Börkur Gunnarsson var í sex vikur í Úkraínu fyrir ári síðan ásamt Val Gunnarssyni þar sem þeir fluttu fréttir fyrir RÚV og Börkur lagði grunninn að heimildarmynd sem hann ætlar nú að klára. Þeir eru nú aftur saman í Úkraínu. Börkur hóf sinn blaðamannaferil í Balkanskaga stríðunum á tíunda áratug síðustu aldar og hefur sinnt störfum á átakasvæðum eins og í Afganistan og í Írak. 

 

Börkur byrjaði ferðina á því að sýna fyrstu bíómynd sína, tékknesku myndina "Silný kafe", fyrir fullum sal á kvikmyndahátíð í Kosice í Slóvakíu áður en hann fór yfir landamærin til Úkraínu að taka upp fyrir heimildarmyndina. 

Við að sjálfsögðu óskum þeim góðs gengis í þessu verkefni.