Rosalie Rut Sigrúnardóttir - Handrit og Leikstjórn

Rosalie Rut mun útskrifast frá Handritum og Leikstjórn með mynd sína "Falskt Frelsi"

Falskt Frelsi

Í martraðarkenndu hjónabandi leitar Hallgerður að leið út úr “ósýnilegu” fangelsi á meðan hún

stendur frammi fyrir fölsku loforði um frelsi.

Í raun og veru er myndin um konu sem er föst, reynir að flýja, en getur það ekki.


Hver er fyrsta kvikmyndaupplifunin sem þú manst eftir og hafði áhrif á þig?

Vá, ég verð eiginlega að setja inn nokkrar kvikmyndir sem eiga það allt sameiginlegt að hafa

haft mikil áhrif á mig fyrir 8 ára aldur og ég tengi við þær enn þann dag í dag. Þær eru “The

Sound of Music”, Kirikou myndirnar, “Grease”, “The Mask”, “Bend it like Beckham”, “Nemo” og

sorry, en “Grey’s Anatomy”. Verkin gripu mig en það er einhver sérstök og ólýsanleg tenging

sem ég finn enn varðandi “The Sound of Music” - sögurnar sem fléttast saman voru svo áhugaverðar fyrir lítinn krakka og maður sér þroska eða þróun flestra ef ekki allra karaktera sem er virkilega sjaldgæft þegar þú ert með mynd með fleiri en sex hlutverkum. Ég man að ég sat og

horfði á spóluna um helgar með systur minni eða í pössun hjá frænku minni. Þegar ég var búin að sitja í 3 tíma samfleytt að horfa á svissneska fjölskyldu syngja saman og flýja land, þá spólaði ég til baka og horfði á hana alla aftur... þó að ég gerði mér nú ekki grein fyrir því að þetta væri stríðsmynd fyrr en á unglingsárunum. En fyrir mér er myndin um litlu mómentin sem geta haft áhrif á næstu kynslóðir - um lærdóm og frelsi. Hún fjallar um að njóta lífsins á eins mörgum tímapunktum og maður getur og vera trúr sjálfum sér, sem ég þarf eiginlega að segja að ég hafi tekið með mér í veganesti síðan ég var pínulítil. Ég nenni ekki að liggja lengi í neikvæðum tilfinningum eða byggja upp falskan persónuleika bara til þess að þóknast fólki - ég er bara ég, eins skrýtin og Maria Von Trapp (ekki hin raunverulega).


Hvað heillar þig við kvikmyndagerð?

Mikilvægasti þáttur listsköpunar í hópi er í raun samtalið í gegnum allt ferlið. Draumur hvers verkefnis er að haldast í skapandi flæði yfir allt ferlið - fyrir tökur, í tökum og eftir tökur. Ég myndi lýsa þessu eins og einskonar dansi með alls konar fjölbreyttum dönsurum sem eru öll búin að læra mislengi, mismikið og fara á mismunandi hraða. Það sem heillar mig mest er áskorunin að þræða alla í gegnum dansinn og reyna að halda öllum í takt svo við getum klárað dansverkið.


Hvers vegna varð Handrit og Leikstjórn fyrir valinu?

Ég vildi einblína á að læra handritsgerð og þróa þá hæfileika og það áhugasvið hjá mér. Ég hef skrifað eins lengi og ég man eftir mér og fæ örugglega u.þ.b. 70 nýjar hugmyndir í hverri viku, en þar sem ég hef þörf fyrir mikinn hraða og orku þá er ég sjaldan að vinnu í einu verkefni í einu. Ég hef því ekki gefið mér tíma til að skrifa meira en kannski 3 blaðsíður af þeim fleiri hundruð hugmynda sem ég hef - en þó fundið ástríðu í mörgum þeirra. Ég vildi, og vil enn, fókusera á leikstjórnina en valdi að fara á handritsbrautina til þess að skora á sjálfa mig til þess að setjast niður og einblína á og klára eitt verk í einu. Mig langaði að opna á nýja hlið á sjálfri mér, og læra af og fá innblástur frá öðru fólki í handritsgerð.


Kom þér eitthvað sérstaklega á óvart í náminu?

Ég held að það sem kom mér mest á óvart var hversu mikla stjórn þú hefur á náminu og verkefnum þínum - þó það sé auðvitað mjög mikil samvinna. En vinnan byrjar alltaf hjá þér og það ert þú sem þarft að taka af skarið og leggja á þig til þess að fá þá útkomu sem þú vilt ná fram.


Og hvernig lítur svo framtíðin út? 

Ég er gífurlega spennt fyrir næstu mánuðum og líka næstu 20 árum. Ég vil sérhæfa mig í leikstjórn og fara í enn meira nám á því sviði. Ég er líka ótrúlega heppin að fá að vinna við það sem ég elska og mig langar að aðstoða fleiri að finna þá tilfinningu. En ég er skoppandi til og frá og er með langan lista af hlutum sem mig langar til að gera og því veit ég ekkert hvort mig langar til þess að fara í nám eftir 8 mánuði eða eftir 12 ár. Ég ætla bara að sjá hvert lífið tekur mig og fylgja öldunum - annars bý ég þær sjálf til. Það er þó enn margt sem ég þarf að læra varðandi listsköpun og lífið sjálft. Því vil ég einbeita mér að því að sanka að mér eins miklum upplýsingum og ég get á næstu árum og vonandi fá að vinna með jafn mikið af frábæru fólki og ég hef fengið að gera hingað til. Ég er í skýjunum með þau forréttindi að fá mæta í vinnuna, á fundi, á sett, í eftirvinnslu, í spjallið varðandi allt milli himins og jarðar og ég vona innilega að ég fái að halda því áfram á næstu árum.