Sigríður Erla Hákonardóttir - Skapandi Tækni

Sigríður Erla Hákonardóttir mun útskrifast frá Skapandi Tækni með mynd sína "Dandý"

Sigga og Dandý eru ólíkar vinkonur sem upplifa óvænta atburði. Dandý býður Siggu til sín í  einbýlishús og þar inni hefna þær sín á strák sem þær þekkja vel og fara því í andaglas og leggja álög á hann úti í skógi. Þessi spennandi og dularfulla mynd er um vináttu, hugmyndir og hættu.

Hver er fyrsta kvikmynda upplifunin sem þú manst eftir og hafði áhrif á þig?

Ég man bara eftir því að mamma horfði með mér á margar gamlar myndir og þætti eins og “The Sound of Music” og “Önnu í Grænuhlíð” þegar ég var lítil og svo þegar ég fór í bíó á “Aladdín”, það var toppurinn. Mig langaði til að vera Jasmín prinsessa og fljúga á töfrateppi.

Hvað heillar þig við kvikmyndagerð?

Nýsköpunin. Skapa og búa til nýja hugmynd og sjá svo niðurstöðuna á stóru tjaldi. Þegar maður hefur lokið allri vinnu og sest svo loksins og sér verkið, það er best, þá fyllist maður stolti og gleði.

 

Hvers vegna varð Skapandi Tækni fyrir valinu?

Ég kynntist tækninni í FÁ og var mjög áhugasöm út frá því. Ég ákvað því að fara í Kvikmyndaskólann sem hafði lengi verið draumur. Þegar ég var unglingur þá mætti ég með eldgamla Sony upptökuvél sem mamma átti allt sem ég fór og þá var tekið upp allskonar skemmtiefni, hermdum eftir “Viltu vinna milljón” og myndinni “The Blair Witch Project” og fleira grín og svo var horft og hlegið mikið.

Kom þér eitthvað sérstaklega á óvart í náminu?

Já, ég hélt fyrst að ég gæti þetta ekki. Ég hef verið með of lítið sjálfstraust en svo kom þetta allt saman og ég varð öruggari með mig. Ég sá að þetta er ekki eins erfitt og ég hélt. Það eru líka svo skemmtilegir kennarar hér. Þannig að það má segja að ég hafi komið sjálfri mér á óvart.

 

Og hvernig lítur svo framtíðin út?

Ég vona innilega að ég fái góða vinnu í tækninni, það er minn draumur og ég ætla reyna gera mitt besta. Ég er mest spennt fyrir að klippa og vera á myndavélinni.