Sunna Hákonardóttir - Leikstjórn og Framleiðsla
Sunna mun útskrifast frá Leikstjórn og Framleiðslu þann 27.maí næstkomandi með mynd sína "Better safe than sorry"
Myndin fjallar um óöruggan strák sem fer heim til nýju kærustu sinnar, þar sem hann hittir óvænt dómharða pabba hennar í fyrsta sinn og þarf að sitja í gegnum vandræðalegt fjölskyldumatarboð með honum.
-Hver er fyrsta kvikmynda upplifunin sem þú manst eftir?
Skemmtileg saga sem ég hugsa út í þegar ég sé þessa spurningu. Þegar ég var 5 ára bjuggum við fjölskyldan í Bandaríkjunum og ég man að ég fékk DVD disk af “High School Musical”.Ég horfði á þessa mynd stanslaust þar sem ég var svo heilluð af tónlistinni og lögunum í myndinni. Einn daginn vorum við pabbi ein heima og hann fór í sturtu og fór ég auðvitað beint í sjónvarpsherbergið til að horfa á “High School Musical”, þar sem ég botnaði hátalarann og dansaði og söng með. Það partý endaði skyndilega þegar pabbi minn kemur hlaupandi inn á handklæðinu að lækka í tónlistinni. Það augnablik hugsa ég um sem mína fyrstu upplifun af ástríðu gagnvart kvikmyndum.
-Hvað heillar þig við kvikmyndagerð?
Það er auðvelt að segja að það elska mjög margir að horfa á bíómyndir. Það er rútína hjá flest öllum í heiminum að koma heim eftir skóla eða vinnu og horfa á eitthvað skemmtilegt. Það sem heillar mig við að horfa á kvikmyndir er hvað það er mikil gæðastund og afslappandi. Það hefur aukist mikið hjá mér að meta kvikmyndir eftir að ég byrjaði í Kvikmyndaskólanum, þar sem núna er ég að farin að horfa og greina hvað er flott og virkar sem mig langar að nýta mér fyrir framtíðarverkefni.
-Hvers vegna varð Leikstjórn og Framleiðsla fyrir valinu?
Upprunalega sótti ég um að fara á Skapandi Tækni í Kvikmyndaskólanum þar sem ég hafði mikinn áhuga á eftirvinnslu, en breytti svo um skoðun og fór á Leikstjórn og Framleiðslu deild þar sem ég hafði gaman að því að leikstýra og langaði að vita meira um framleiðsluhlið kvikmynda. Ég fór af stað í námið svolítið blind en námsefnið sem Leikstjórn og Framleiðsla hafði upp á að bjóða leit svo spennandi út. Það var svo margt hægt að gera, sem dæmi tónlistarmyndbönd, auglýsingar, sjónvarpsþætti, fjölkamerur og fleira! Ég er mjög ánægð með að hafa skipt um braut þar sem Framleiðslan á betur við mig og sé framtíð mína liggja á því sviði.
Fyrir þá sem hafa áhuga að sækja um á þessa braut, mæli ég klárlega með henni! Áhugi minn fyrir kvikmyndagerð hefur margfalt aukist eftir að ég hóf nám mitt í Kvikmyndaskóla Íslands.
-Kom þér eitthvað sérstaklega á óvart í náminu?
Það sem kom mér á óvart í náminu var hvað við fáum að læra margt og fjölbreytt. Það getur verið yfirgnæfandi, en er gott að það sé allt komið í reynslubankann núna. Ég er líka alveg í skýjunum yfir því hvað ég kynntist mikið af ótrúlega skemmtilegu og hæfileikaríku fagfólki í þessu námi. Gaman að fara í nám með fólki sem hefur sama áhugamál og að geta haft þann heiður að vinna saman og safna sér tengslum fyrir framtíðina!