Kvikmyndaskólinn fagnar 30 árum
Þann 18. nóvember næstkomandi klukkan 14:00 fagnar Kvikmyndaskóli Íslands 30 ára afmæli við heimili sitt að Suðurlandsbraut 18
Fyrstu námskeiðin undir nafni Kvikmyndaskóla Íslands voru haldin haustið 1992 að Vatnsstíg 10. Nemendur voru 23 og kennarar og fyrirlesarar 17, þar af margir af helstu kvikmyndagerðarmönnum landsins. Námskeiðin stóðu yfir í 3 mánuði og lauk með framleiðslu tveggja leikinna stuttmynda. Haustið 2003 veitti Tómas Ingi Olrich, þáverandi Mennta- og menningarmálaráðherra, skólanum svo formlega viðurkenningu ráðuneytisins á tveggja ára námsbraut í kvikmyndagerð á framhaldsskólastigi. Áfram var unnið að þróun námskrár og haustið 2004 var kunngert að þrjár nýjar brautir væru í undirbúningi og árið 2005 var svo lögð inn til Mennta- og menningarmálaráðuneytis námskrá að þremur nýjum brautum við skólann. Þar var mörkuð sú stefna að bjóða upp á nám á sérhæfðum sviðum eins og tíðkast við flesta af betri kvikmyndaskólum erlendis. Tveimur árum síðar veitti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi Mennta- og menningarmálaráðherra, Kvikmyndaskólanum viðurkenningu á þremur nýjum sérsviðum eftir margvíslegt þróunarstarf.
Kvikmyndaskóli Íslands hefur frá árinu 2004 útskrifað um 600 nemendur úr skólanum. Samkvæmt rannsóknum sem skólinn hefur látið gera hafa yfir 90% útskrifaðra nemenda unnið í einhvern tíma við kvikmyndagerð að námi loknu og um 40% þeirra hafa gert það allan tímann frá útskrift. Kvikmyndaskóli Íslands er, ásamt Kvikmyndamiðstöðinni, orðinn einn af tveimur mikilvægustu stoðum kvikmyndaiðnaðar á Íslandi.
Skólinn vill gjarnan fagna þessum tímamótum og verður með opið hús að því tilefni þann 18.nóvember næstkomandi kl.14:00, og við bjóðum ykkur innilega velkomin að fagna með okkur !
Hér er hlekkur á viðburðinn á Facebook