Útskrift Vetur 2022 - María Matthíasdóttir, Leikstjórn og Framleiðsla

María Matthiasdóttir útskrifast frá Leikstjórn og Framleiðslu með mynd sína “Ábyrgð”

Jóhanna er ung kona sem tekst á við komandi fullorðinsár á meðan hún glímir við ógæfuhlið heimilisofbeldis

Hver er fyrsta kvikmynda upplifunin sem þú manst eftir?

Þær eru alveg nokkar og maður man aldrei hver var sú allra fyrsta. Þær helstu eru líklegast Spiderman og Little Miss Sunshine. Þegar ég var yngri og horfði á Spiderman í fyrsta skipti, skildi ég ekki hvernig hann gat klifrað upp alla veggi, skipt svona hratt um föt og hvernig maður flaug á eftir honum í myndinni. Little Miss Sunshine var svo miðpunktur marga kærra heimsókna til ömmu og afa. Mér fannst sambandið á milli afans og barnabarnsins alltaf svo skemmtilegt og hvernig heil fjölskylda gat yfirstigið ágreininginn á milli þeirra og sameinast í lok myndarinnar.

Hvað heillar þig við kvikmyndagerð?

Allt sem gerist á bak við tjöldin og samvinnan sem myndast er svo skemmtileg - að allir séu með sameiginlegan áhuga og drifkraft að gera hugmyndina að veruleika og að geta komið sýninni sinni fram. Mér finnst líka svo heillandi að hafa frelsið til að sýna alls konar sjónarhorn, ímyndir og búa til heima, auk þess að geta komið mikilvægum skilaboðum á framfæri í gegnum kvikmyndagerð.

Hvers vegna varð þín deild fyrir valinu?

Ég valdi Leikstjórn og Framleiðslu af því að mig langaði að læra hvernig ég sem leikstjóri get komið sýninni minni fram. Að geta leiðbeint öðrum og sagt sögur út frá mínum upplifunum eða hugmyndum. Varðandi framleiðsluna þá langaði mig helst að læra um hana til að vita hvernig allt virkar. Mér hefur alltaf fundist best að geta haft yfirsýn yfir sem flest og læra hvernig best sé að framkvæma hluti sem maður ætlar sér.

 

Kom þér eitthvað sérstaklega á óvart í náminu?

Já, það sem kom mér mest á óvart var hversu mikið er lagt í kvikmyndagerð. Ég vissi að það var mikið sem þurfti að græja og gera en allt frá hugmynd að lokaútkomunni krefst mikillar vinnu, áhuga og dugnaðar, sem tekur alveg á en er þess virði. Ég lærði líka hversu mikilvægt það er að fara út fyrir þægindarammann. Það er erfitt að segja frá hugmyndum sínum, sérstaklega ef þær eru persónulegar og vonast eftir því að þær séu nógu góðar eða áhugaverðar en það er þess vegna sem maður þarf að treysta á sjálfan sig og leyfa sér að prófa sig áfram.

 

Hvernig lítur svo framtíðin út?

Framtíðin er björt og ég hlakka til þess sem er framundan.