Útskrift Vetur 2022 - Stefanía Áslaug Moestrup, Skapandi Tækni
Stefanía Áslaug Moestrup útskrifast frá Skapandi Tækni með mynd sína “Ég treysti þér”
“Ég treysti þér” snýst um hvernig þolinmæði og ást gagnvart rangri manneskju getur algjörlega ýtt manni fram af klettinum
Hver er fyrsta kvikmynda upplifunin sem þú manst eftir?
Ég hef horft og spáð í kvikmyndum frá því ég man eftir mér. Það þoldu voða fáir að horfa á mynd með mér því ég elskaði að spóla atriði eða senur til baka til að rýna betur í þær. Ég geri það enn í dag. “Lord of the Rings” sló samt met hjá mér. Ég vissi eftir þá mynd að ég vildi vinna við að skapa svona heima.
Hvað heillar þig við kvikmyndagerð?
Allt heillar mig við kvikmyndagerð, sérstaklega þegar ég finn fyrir tilfinningum sem karakterarnir finna í myndunum. Þegar ég hætti að spá í hvernig skotin eru tekin upp eða í hljóðvinnslunni og gleymi mér í myndinni, þá veit ég að hún er góð
Hvers vegna varð þín deild fyrir valinu?
Ég vildi prófa klippið og litvinnsluna, ég hef alltaf heillast mest að því. Ég hef alltaf viljað vera leikari en ég ákvað að taka stökkið í hina áttina til að læra betur á klippið og sé ekki eftir því.
Kom þér eitthvað sérstaklega á óvart í náminu?
Ég kynntist sjálfri mér svolítið upp á nýtt í náminu. Ég þroskaðist rosalega og lærði að velja vini.
Hvernig lítur svo framtíðin út?
Ég hef ekki hugmynd um hvernig framtíðin verður í þessu. Ég veit samt að ég vil fara í áframhaldandi nám í Svíþjóð í kvikmyndagerð og sjá svo hvert vegurinn liggur eftir það.