Útskrift Vetur 2022 - Thelma Ósk Bjarnadóttir, Leiklist
Thelma Ósk Bjarnadóttir útskrifast frá Leiklist með mynd sína “Freyja”
Myndin er um Freyju, brottflutta Ísfirðinginn sem flytur aftur heim. Frá barnæsku hefur hún gengið með það hræðilega samviskubit að hafa ekki passað litlu systur sína Emblu nógu vel þegar þær léku sér í fjöru með þeim afleiðingum að Embla sogaðist út á haf. Eða svo er henni sagt, hún man ekkert. Lík hennar fannst aldrei.
15 árum eftir áfallið flytur hún aftur heim og er ný gengin til liðs við rannsóknardeild lögreglunnar á Ísafirði þegar lík karlmanns finnst í fjöru skammt frá bænum. Lík mannsins hrindir tilviljanakenndri atburðarás af stað sem veitir henni möguleg svör við því hvað kom fyrir systur hennar
Hver er fyrsta kvikmynda upplifunin sem þú manst eftir?
Fyrsta kvikmyndin sem ég man eftir var þegar fyrsta Harry Potter myndin kom út á DVD.
Töfrarnir í myndinni gjörsamlega heilluðu.
Hvað heillar þig við kvikmyndagerð?
Það sem heillar mig mest við kvikmyndagerð er samvinnan. Allir að vinna að einni hugmynd og koma henni á hvíta tjaldið. Finnst magnað að fylgjast með ferlinu frá A til Ö. Kvikmyndagerð býður upp á svo mikið og gaman að sjá fólk blómstra á sínu sviði. Því tekur maður sérstaklega eftir við gerð kvikmyndaverkefna og öllu svona listrænu ferli.
Hvers vegna varð þín deild fyrir valinu?
Mig hefur alltaf dreymt um að vera leikkona. Ég hef aldrei þorað að taka skrefið en svo þegar maður verður eldri þá fattar maður hversu mikið rugl það er að halda svona aftur af sér. Í grunninn er ég söngkona og langaði að bæta leiklistinni við. Hún nýtist manni í öllu í lífinu.
Kom þér eitthvað sérstaklega á óvart í náminu?
Ég vissi náttúrulega að þetta væri krefjandi nám. En ég vissi ekki hversu skemmtilegt þetta væri og hvað maður lærir mikið um sjálfan sig.
Hvernig lítur svo framtíðin út?
Ég vil halda áfram að búa til kvikmyndir með hæfileikaríku fólki, hvort sem það er vinnan bakvið tjöldin eða vera fyrir framan, þá er þetta gjörsamlega málið.