Útskrift Vor 2022 - Bergrún Huld Arnarsdóttir, Leikstjórn og Framleiðsla
Bergrún Huld mun útskrifast frá Leikstjórn og Framleiðslu þann 4.júní næstkomandi með mynd sína “Brotin”
Kona sem missir strákinn sinn og á erfitt með að koma undir sig fótunum aftur. Í stað þess að sætta sig við að hún eigi erfitt kemur hún vandamálum sínum yfir á dóttur sína sem myndar erfitt samband á milli þeirra
Hver er fyrsta kvikmynda upplifunin sem þú manst eftir?
Fyrsta og almennilega eftirminnilegasta kvikmynda upplifunin, fyrir utan teiknimyndir, er þegar ég fór að sjá “Mamma mia” í bíó 9 ára gömul. Ég man að mér leið eins og í draumi og fannst ég geta gleymt mér í heimi sem ég þráði að vera partur af. Mér líður ennþá eins núna 14 árum seinna þegar ég horfir á “Mamma mia”
Hvað heillar þig við kvikmyndagerð?
Það sem heillar mig mest við kvikmyndagerð er að geta búið til heim sem fólk getur endurspeglað sig í og fengið að horfa á aðstæður frá öðru sjónarhorni. Einnig frelsið sem maður hefur til að koma mikilvægum skilaboðum á framfæri og fá útrás fyrir tilfinningar mínar
Hvers vegna varð Leikstjórn og Framleiðsla fyrir valinu?
Ég hef frá því ég var lítil verið mikill leiðtogi í mér og finnst mjög gaman að hafa yfirsýn yfir hlutina. Því vissi ég strax að framleiðandinn myndi eiga mjög vel við mig sem reyndist mjög rétt. Ég er vissi líka strax að ég vildi fá að leiðbeina öðrum og fá að segja sögur sem ég hafði í huganum og valdi þess vegna leikstjórnina með
Kom þér eitthvað sérstaklega á óvart í náminu?
Vá svo mikið! Sérstaklega hvað það er ótrúlega mikil vinna á bak við eina bíómynd. Ég gerði mér aldrei almennilega grein fyrir því fyrr en ég fór að vinna við þetta sjálf. Einnig hvað það er mikilvægt að trúa á sig og leyfa sér að standa með sjálfum sér og sinni hugmynd. Það kom mér líka á óvart hvað það er í alvörunni erfitt að segja frá hugmyndum upphátt sem maður hefur haft í maganum í langan tíma. Hugmyndirnar eru alltaf eins og litla barnið manns sem maður vill passa vel upp á og hlífa
Hvernig lítur svo framtíðin út?
Mig langar pínu að leyfa framtíðinni að koma mér á óvart, en ég er með nokkrar hugmyndir í kollinum sem vonandi einn daginn verða að veruleika. Fyrst langar mig samt að reyna að komast inn á kvikmyndasett og næla mér í reynslu og kynnast fólkinu þarna úti