Útskrift Vor 2022 - Daníel Guðjón Andrason, Handrit og Leikstjórn

Daníel Guðjón mun útskrifast þann 4.júní næstkomandi frá Handrit og Leikstjórn með mynd sína "Afturför"

Myndin fjallar um Ísak, ungan og óþekktan rithöfund, sem heimsækir föður sinn, frægan rithöfund, til að færa honum afrit af nýrri skáldsögu sinni. En samveran og samtöl þeirra færa Ísak fjær ætlun sinni, og ýfa þess í stað upp gömul sár og óuppgerð vandamál

Hver er fyrsta kvikmynda upplifunin sem þú manst eftir?

Á Álftanesinu var lítil videoleiga sem ég var vanur að fara í og pikka upp myndir á föstudegi. Ein af fyrstu myndunum var "The Matrix", sem ég, átta ára gamall, horfði á með pabba mínum. Ég skal fúslega viðurkenna að ég hafði ekki hugmynd um hvað var að gerast í myndinni - hver þessi hvíta kanína var og hvað þetta “Matrix” væri. En þrátt fyrir lítinn skilning á sögunni, skipti það engu máli, því myndin var bæði skemmtileg og öðruvísi en allt annað sem ég hafði áður séð. Í dag tel ég "The Matrix" vera sú kvikmynd sem veitti mér hve mestan innblástur til að hefja nám í kvikmyndagerð

Hvað heillar þig við kvikmyndagerð?

Það sem heillar mig mest í dag við kvikmyndagerð er ófyrirsjáanleikinn í framleiðslu kvikmyndar. Það sem maður er búinn að áætla og plana fyrirfram (pre-production) getur oft farið nokkurnvegin út um gluggann eða tekið óvæntar stefnur, og það sem verður eftir er einhver kokteill af því sem planað var og tilviljunarkenndum augnablikum

Hvers vegna varð Handrit og Leikstjórn fyrir valinu?

Handritaskrif, þetta fyrsta skref kvikmyndagerðar, er fyrir mér það skemmtilegasta við ferlið. Að skrifa sögur sem eru persónulegar, sem koma frá manni sjálfum, og að skapa mannlegar persónur. Þetta er það sem heillar mig mest og ýtti mér í átt að handritadeildinni

Hvernig lítur svo framtíðin út?

Maður fer spenntur og tvíefldur úr skólanum, það er ljóst. 

Þekkingin mín á handritaskrifum er margfalt meiri en þegar ég byrjaði, og maður getur ekkert annað en haldið áfram að leyfa góðum hugmyndum og sögum að koma til manns, veiða þær úr hafi hugans og haldið áfram að skrifa