Útskrift Vor 2022 - Katla Gunnlaugsdóttir, Handrit og Leikstjórn
Katla mun útskrifast frá Handrit og Leikstjórn þann 4.júní næstkomandi með mynd sína “Fólk sem brennur”
Myndin fjallar um tvær ungar konur sem berjast við kerfið eftir að hafa ekki unnið í lottói sem bjargar fólki til Mars áður en loftsteinn skellur á Jörðinni
Hver er fyrsta kvikmynda upplifunin sem þú manst eftir?
Ég fékk brjálað kvikmyndauppeldi frá því að ég fæddist svo það er erfitt að segja. Ég man að ég gerði í brækurnar þegar grænu augun á Meinhyrnu birtust í arninum í Disneymyndinni um Þyrnirós (ekki bókstaflega). Ég horfði fáránlega oft á Step Brothers og Talladega Nights á DVD sem krakki. Ég sá A Clockwork Orange þegar ég var 11 ára og fékk hana á heilann. Það er ennþá ein uppáhalds myndin mín af því að hún er áhrifarík á svo margan hátt
Hvað heillar þig við kvikmyndagerð?
Það að geta blandað öllum listformum saman í eina súpu ásamt öðru skapandi fólki er ótrúlegt. Kvikmynd er kannski eins og fjórvíð ljósmynd. Það vantar bara lyktheim og þá er þetta komið
Hvers vegna varð Handrit og Leikstjórn fyrir valinu?
Ég hef skrifað niður senu hugmyndir og sögur frá því að ég var krakki. Ég er með ofvirkt ímyndunarafl. Ég taldi að handrits og leikstjórnarbraut væri best fyrir mig þess vegna. Það var rétt
Kom þér eitthvað sérstaklega á óvart í náminu?
Það kom mér svo sem ekki á óvart, en kynni mín af öðrum nemendum fóru langt fram úr vonum. Ég er þakklát fyrir að hafa eignast góða vini sem verða mjög líklega samstarfsmenn í framtíðinni. Ég hef líka lært ótal margt af samnemendum mínum
Hvernig lítur svo framtíðin út?
Ég stefni á að gera fleiri en eina stuttmynd með fólki sem ég hef kynnst í náminu og gera síðar myndir í fullri lengd, kannski sjónvarpsefni, hver veit. Ég stefni auk þess á að starfa freelance í kvikmyndaiðnaðinum við ýmislegt, en einna helst lýsingu því þar liggur áhugasvið mitt