Útskriftarræða Rektors
Við útskrift laugardaginn 4.júní hélt rektor Kvikmyndaskólans, Friðrik Þór Friðriksson, ræðu til nema á leið þeirra út í heim kvikmyndagerðar
Ágætu háskólanemar. Ágætu útskriftarnemar.
Fyrst vil ég þakka ykkur ágætu nemendur, sem rétt bráðum hættið að vera nemendur, þegar þið fáið útskriftarskírteinið í hendur. Ég þakka ykkur fyrir það þrekvirki að komast hingað í dag. Öll eigið þið að baki ótölulega fjölda verkefna sem hófst með 1 mínútu mynd á fyrstu vikum ykkar í skólanum fyrir 22 mánuðum síðan, þangað til nú í vikunni að þið lögðuð fram ykkar persónulega framlag til útskriftar með útskriftarmynd.
Upplifun mín af sýningunum
Þetta var eins og að horfa yfir ræktarlegan kartöflugarð í júlísól, hvert listaverkið upp af öðru.
Um ykkur segi ég
Þið eruð svo tilbúin en líka yfirveguð, og einver bjartsýni á bakvið ykkur og fullur vöxtur í gangi. Þið eruð alvöru kvikmyndagerðarfólk, öll sem eitt, og það segir Friðrik Þór Friðriksson kvikmyndaleikstjóri.
Velkomin með ykkar persónur inn í fjörið sem nú hefst.
Gleymum samt ekki veirunni skæðu sem setti mikinn svip á námið ykkar.
Þó verð ég að segja, eftir að hafa heyrt fregnir af evrópskum skólum sem margir hverjir lokuðu nánast alveg í eitt ár eða meira, að Kvikmyndaskólinn slapp vel. Ein sex vikna lokun og ein sjö daga lokun.
Hins vegar var allt húsnæði og umgengni samkvæmt ítrustu sóttvarnarreglum, og hólfaskipt, vikum og mánuðum saman. Mikið álag var á öllu starfsfólki að fylgjast með reglugerðum og að sækja um undanþágur. Enginn afsláttur var gefinn á námi né kennslu.
Nokkur smit komu upp en voru einangruð í samvinnu stjórnenda og sóttvarnaryfirvalda. Full ástæða er til að þakka starfsfólki sérstaklega fyrir þeirra framlag gagnvart mjög auknu álagi í langan tíma.
Fyrstu tvær annirnar ykkar voru báðar lengdar, fram í febrúar og fram í lok júní. Ég hef þeirri kenningu fleygt fram á kennarastofunni, að gríðarlegt álag á ykkur útskriftarnemum og nokkrir erfiðleikar með skil, þótt nær allir hafi skilað sér í lokalokin, markist af því að nú er misserið af eðlilegri lengd. Raunveruleikinn er kannski í sumum tilfellum grimmari en sóttvarnarástandið
Ég og Tarkovsky vitum að plágur geta verið góð uppspretta að sækja í og þið skulið alls ekki gleyma þessari. Það gerðist margt sérstakt sem er efniviður fyrir ykkur skapandi listamenn að vinna úr. Þetta voru skrýtnir tímar sem reyndar er ekkert nýtt.
Þá að formlega hluta ræðunnar.
Í minni rektorstíð gerðum við tímamótasamning við Lilju Alfreðsdóttur þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra og Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra. Lilja hafði forgöngu um þennan samning inni sem var nauðsynleg leiðrétting á fjárveitingu til skólans. Þar með var skólanum gert kleyft að rétta við fjárhag skólans og síðan þá hefur rekstur skólans verið jafnvægi og eiginfjárstaða jákvæð. Þessi samningur var undirritaður 6. júlí 2019 og gildir til 2024.
Í þessum samningi var getið á um stefnu skólans að bjóða upp á námsleið til BA gráðu. Að þessu hefur verið unnið síðan með mörgum mílusteinum. Frá haustinu 2020 hefur Kvikmyndaskólinn formlega starfað sem háskóli í viðurkenningarferli og frá haustinu 2021 hefur hann unnið með fulla virkni allra stjórnsýslueininga skólastigsins.
Til að gera langa sögu stutta þá væntum skýrra svara stjórnvald strax í næstu viku hversu langt sé í að þið fáið þær 120 einingar, sem þið útskrifist með hér í dag, rétt viðurkenndar svo þær nýtist ykkur að fullu í framhaldsnám, fyrir þau ykkar sem það vilja. Kvikmyndaskólinn er nú í ráðuneyti Ásmundar Einars Daðasonar en hefur formlega óskað eftir að vera færður í háskólaráðuneytið þar sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er ráðherra. Hún hefur unnið hratt og nú í sumar væntum við skoðunar hjá þremur erlendum sérfræðingum sem þegar hafa verið kynntir.
Ég veit að þetta unga og efnilega stjórnmálafólk áttar sig á að ykkur má ekki stöðva.
Ég bið ykkur því að fylgjast með fréttum á vefsvæði skólans og fylgist með starfsemi Kínema.
Hjá sjálfum mér eru líka tímamót. Ég vænti þess að þetta verði síðasta útskriftin mín í bili eftir að hafa gengt stöðu rektors síðastliðin 5 ár. Það er mikið að gera í framleiðslunni og svo eru öll helstu verkefnin í skipulagsbreytingum skólans að klárast. Svo verður að nefna að væntanlegar úttektir krefjast rektors með hærri menntagráður en mig. Framundan er því nýráðning rektors við Kvikmyndaskóla Íslands í haust,
Að lokum þetta
Að útskrifa er eins og hleypa kúnum út á vorin. Núna getið þið farið að velta fyrir ykkur næsta leik, því núna vitið þið að þið getið. Því fylgir fögnuður og löngun til að skvetta rassinum í allar áttir og hlaupa stefnulaust út í frelsið í einhvern tíma, og það skuluð þið gera.
Til hamingu með daginn
Friðrik Þór Friðriksson
Rektor